Björn Valur veit ekki hvað niðurgreiðsla er

Skynsamasti og greindasti þingmaður Vinstri grænna er Björn Valur Gíslason. Hann hefur góða yfirsýn og þekkingu á öllum málum og svo er hann skemmtilegur með afbrigðum. Í pistli á bloggi sínun í gær segir hann:

Bensínverð er hátt og verður hátt til framtíðar. Þetta vita allir – eða hér um bil allir. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa lagt fram tillögu á Alþingi um að ríkið greiði niður verð á bensíni og olíu þannig að það verði aldrei hærra 200 krónur. Breytir þar engu um hvort heimsmarkaðsverð hækkar (sem það mun gera) eða hvort íslensku söluaðilarnir hækki sitt framlag af seldum lítra (sem þeir munu gera.) 200 kall og ekki krónu hærra segja íslenskir sjálfstæðismenn. Þó varla nema fram yfir næstu kosningar eða svo.

Með þessu ætla snillingarnir að hækka ráðstöfunartekjur heimila, auka einkaneyslu, lækka vöruverð, styrkja landsbyggðina, lækka flutningskostnað, efla ferðamannaiðnaðinn, lækka skuldir heimila og fyrirtækja og auka hagvöxt.

Um þetta er aðeins þrennt að segja:

Lýðskrum.

Lýðskrum.

Lýðskrum.

Við þessum fullyrðingum Björns Vals eigum við Sjálfstæðismenn engin svör. Hann hefur flett ofan af okkur svo eftir er tekið. Þó ber að gera eftirfarandi athugasemdir við málflutning Björns:

  1. Ekki er samkvæmt þingsályktunartillögunni gert ráð fyrir því „að ríkið greiði niður verð á bensíni og olíu þannig að það verði aldrei hærra 200 krónur.“.  Nauðsynlegt er þó talið að þingmenn skilji hugtök sem þeir nota; niðurgreiðslur eru allt annars eðlis en lækkun á sköttum á bensíni og dísel.
  2. Ekki er rétt hjá Birni að um sé að ræða lækkun niður í 200 krónu pr lítra heldur er ætlað að skattarnir lækki um 31,87 kr. á lítra af bensíni og 35,06 kr. á lítra af dísilolíu.
  3. Rétt er hjá Birni að ráðstöfunartekjur þeirra sem kaupa bensín og dísel aukast og því skyldi það ekki verða til þess að t.d. landsbyggðarfólk geti frekar nýtt sér lægra verðið sem og ferðaþjónustuaðilar.
  4. Lækkun á eldsneyti gæti auðveldlega aukið tekjur ríkisins en það skilja ekki allir þó greindir séu.

Ég hef frétt að skynsemi og greind séu þarfir eiginleikar séu þeir yfirleitt nýttir. Að öðrum kosti hinir greindustu og skynsömustu bara eins og við hin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er undarlegt að landsbyggðarþingmaðurinn Björn Valur skuli taka þennan pól í hæðina þegar um beina bót fyrir landsbyggðarfólk er að ræða. Ekki er víst að kjósendur hans séu honum sammála.

En kannski er þetta ekki svo undarlegt. Björn Valur talar ekki frá eigin brjósti, hann talar fyrir Steingrím, sem sér auðvitað að sjálfur gæti hann aldrei látið þessi ummæli frá sér.

En aftur að landsbyggðinn og þýðingu þessarar tillögu fyrir hana. Bara sú staðreynd að lækkun á verði díselolíu um 35 kr/l gæti lækkað kostnað við flutning á vörum frá Reykjavík til Dalvíkur um nærri 10.000 kr á hvern vöruflutningabíl! Það munar um minna og ekki víst að kjósendur á Dalvík vilji endurnýja umboð Björns Vals þegar hann stendur gegn slíku boði. Það er hugsanlegt að íbúar á Dalvík sjá þann kost betri, af tveim illum, að fá Björn Val aftur heim í hérað!!

Landsbyggðarfólk er nánast allt háð einkabílnum og ekki óalgengt að aka þurfi 60 - 70 km á dag til og frá vinnu. Þetta gerir sparnað fyrir það fólk upp á c.a. 5.000 kr/mán. og til að leggja fram slíka upphæð þarf launamaðurinn að vinna sér inn nærr 9.000 kr. eða sem svarar nærri 5% af tekjum láglaunafólks eingöngu við að sækja sér vinnu.

Því má segja að tillaga Tryggva Þórs og félaga sé að gefa 5% tekjubót til láglaunaðra og mun meira ef allur akstur er tekinn inn í myndina, eins og að sækja sér nauðsynjar, læknishjálp og fleira. Það munar um minna!

Gunnar Heiðarsson, 25.2.2012 kl. 20:23

2 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

maður sem ég þekki er á bíl sem eiðir 13-14 lítrum á hundraðið, og þarf að keyra 70 km á dag 20daga mánaðarins. gerir það ekki hátt í 40-50.000 þúsund á mánuði, það fæ ég út úr mínum útreikningi. Sigurður og Gunnar er þetta ekki galið?

Eyjólfur G Svavarsson, 25.2.2012 kl. 20:58

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Auðvitað er þetta galið Eyjólfur.

Það sem ég er að benda á er einungis sá sparnaður sem skapast hjá bíleigendum og í vöruflutningum, ef tillaga Tryggva Þórs og félaga nær fram að ganga. Eftir sem áður mun verð á eldsneyti verða mjög hátt og mun eiga eftir að hækka enn meira. En einungis sá sparnaður sem tillagan veitir, tæpar 32 kr. af bensíni og rúmar 35 kr. af dísel, er vissulega til hagsbóta.

Svo er spurning hvort ekki eigi að koma með einhverjum ráðum böndum yfir sjálftöku olíufélaganna. Hún er geigvænleg eins og efnahagsreikningar þeirra segja til um. Þar vær hægt að fá enn frekari hagsbætur fyrir launafólk.

Gunnar Heiðarsson, 26.2.2012 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband