Eru jólin uppskeruhátíð kapítalismans?

Gleðileg jól, kæru lesendur (... finnst dálítið yfirlætislegt að taka þannig til orða, en fyst aðrir gera það þá get ég það líka).

Jólin eru á margan hátt hátíð. Kristin fólk heldur upp á fæðingu frelsarans og allir fagna því að daginn er tekið að lengja. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa verið alinn upp af góðri móður og föður, alþýðufólki sem átti sína trú og gætti hennar vel. Það er svo allt annað mál hvernig ég hef rækt og þroskað trúna allan þann tíma sem liðinn er frá því ég var barn. Líklegast hefur allt farið á versta veg í þeim efnum, og þó ...

Vonandi held ég eitthvað í eitthvað af boðskapnum, siðfræði kristinnar trúar. Ef til vill er það þess vegna sem mér gremst svo ákaflega mikið kaupmennska jólanna. Það er eins og verslunin sé upphaf og endir kristinnar trúar. Og ég þá gat varla trúað mínum eigin augum þegar ég las eftirfarandi undir fyrirsögninni: „Jólin eru uppskeruhátíð kapítalismans“. Fyrirsögnin ein hlýtur að ofbjóða hverjum og einum upplýstum manni. 

Á jólunum eru kostir markaðshagkerfisins hvað sýnilegastir. Nóg er að horfa yfir hlaðið borð kræsinga þegar jólin hringja inn. Villibráð er frá Bretlandi, vín frá Ítalíu, maís frá Bandaríkjunum, ávextir frá Suður Afríku, tómatar frá Portúgal, ferskt krydd frá Ísrael og gosdrykkir úr Reykjavík. Þegar svo kemur að jólagjöfum eru leikföng barnanna frá Malasíu, Suður Kóreu, Indónesíu og Kína. Þeir sem hafa arin kveikja svo upp arinkubbi frá Bandaríkjunum og bæta við birki frá Egilstöðum. Svona mætti áfram telja.

Þetta stendur skrifað á vefnum amx.is sem ég les oft mér til ánægju og gangs. Þetta er svo sem allt satt og rétt en þessar staðreyndi eiga ekker endilega við um jólin heldur en hversdaginn. Séu jólin uppskeruhátíð kapítalismans hvar stendur þá trúin? Hvort kemur á undan í mikilvægi? Svo má auðvitað endalaust ræða upp barnaþrælkun, sviknar vörur og lág laun í þróunarlöndunum.

Er til dæmis hægt að halda jól án þess að kapítalisminn sé virkur? Flestir myndu ætla að svo sé. Þá má á móti spyrja hvort hægt að halda „uppskeruhátíð“ kapítalismans án jóla? Vissulegar er það gert og það dags daglega. Kapítalisminn er einungis aðferð, alls ekki hátíð eða trúarbrögð frekar en prentlist eða heilbrigður lífsstíll. Uppskeruhátíð á ekki hér við frekar en aðra daga ársins. Það er líka gjörsamlega smekklaust að orða hlutina á þennan hátt.

Jólin eru ekki og hafa aldrei verið uppskeruhátíð kapítalismans. Hún er trúarhátíð og kemur efnislegum hlutum svo til ekkert við þó svo að tekist hafi að snúa henni upp í andhverfu sína með gengdarlausum áróðri sem boðskapur kristinnar trúar á ekki nokkra möguleika til að snúa við. Og hver ætti svo sem að tala máli trúarinnar eða boðskapsins? Kirkjan, segir einhver ...! Því miður, kirkjan er illa haldin af innanmeinum og óvíst hvort hún lifir  það af. Hins vegar lifir trúin og ekki síðst sá boðskapur sem felst í kristinni trú.

Ég hef lengi aðhyllst kapítalismann, telst þar af leiðandi hægri maður. Engu að síður getur mann gramist pólitísk misnotkun á því sem telst til staðreynda í tilverunni. Eins og áður sagði kann að vera eitthvert vafamál hvernig ég hef ræktað barnstrúna og allra síst er ég kirkjurækinn maður. Ég ber þó virðingu fyrir þeim gildum sem ég ólst upp með. Ungur tók ég pólitíska afstöðu og hef staðið vel í ístaðinu á þeim vettvangi eins og margir vita. 

Frá því í sunnudagsskóla KFUM í gamla daga man ég alltaf þetta:

Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: „Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli.“

Fyrir alla munu ættu við að forðast að blanda saman óskyldum málum og síst af öllu í pólitískum tilgangi. Það hjálpar síst af öllu málastað hægri manna að krefjast þess að þeir taki afstöðu til trúar og stjórnmála. Líklegast myndi halla á hið síðarnefnda.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband