Fnykur af soðinni, útmiginni skötu veldur náttúruhamförum

Kári var spurður hvort rétt væri að menn léttu á sér í skötubinginn til að hraða kæsingunni. „Þetta er orðin svo eftirsótt vara að við höfum engin vafasöm orð um það,“ sagði Kári hlæjandi og neitaði því staðfastlega að þessi brögð væru viðhöfð við verkunina nú til dags. „Ætli það hafi ekki gerst í gamla daga, þegar skatan lá úti við beitningaskúrana, að menn hafi tappað af sér í sama horninu?“

Ekki er nóg með að útlendingum sé talin trú um að míginn hákarl og skata sé þjóðlegur „matur“ heldur gera fjölmiðlar sitt til að halda þessari sögu að landsmönnum. Hið eina þjóðlega við þetta er að þetta er þjóðsaga.

Ofangreind tilvitnun er úr Mogganum í dag, en dag segir í fyrirsögn: Skötuilminn að vestan leggur yfir landið. Í fréttinni er sagt frá tindabikkju- og skötuverkun og upplýst að hér áðurfyrr hafi verið migið á fiskinn til að hraða verkuninni. Þó því sé neitað að slíkt sé gert enn þann dag í dag læðist alltaf sú hugsun að manni að sú sé engu að síður staðreyndin. Það getur einfaldlega ekki verið jafn vond lykt af neinum mat eins og af kæstri skötu eða tindabikkju nema því aðeins að migið hafi verið á hann meðan á verkuninni stóð. Sé það rangt er málið enn alvarlegra. Hvernig í ósköpunum getur verið svona vondur fnykur af nokkrum mat hafi ekki verið migið á hann?

Enginn, ekki einu sinni forfallnir skötufíklar, getur haldið því fram að bragðið af kæstri skötu sé gott. Svo hrikalega stækt er það, að sá sem slafrar þessu óhroða upp í sig í einhverjum magni á Þorláksmessu á það á hættu að líkaminn losi sig við eitrið í gegnum fret, rop og svita langt fram yfir áramót. Og það öllum nærstöddum til óskaplegrar armæðu. Skötuátið er því umhverfisvandamál. En meira er í þessu.

jar›skjálftar 3

Ég hef það fyrir satt (og trúið mér því þetta er ríkisleyndarmál) að jarðvísindamenn fullyrði að skötuát á Þorláksmessu auki hættuna á auknu kvikustreymi frá iðrum jarðar með tilheyrandi jarðskjálftum og jafnvel eldgosum á komandi ár. Sel þetta þó ekki dýrara en ég keypti.

Hér til vinstri er jarðskjálftakort frá því um miðjan dag á Þorláksmessu á síðasta ári. Þar koma greinilega fram skjálftar  á öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum, beggja vegna Húnaflóa og svo í Reykjavík. Annars staðar er skötufíknin miklu minni. Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að jarðskálftar eru mjög sjaldgæfir á Vestfjörðum og við Húnaflóa. 

Af þessu má sjá að skötuát er stórkostlega hættulegt þar sem það veldur náttúruhamförum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér finnst skata heint sælgæti, og ef ég er ein heima þá elda ég mér skötu og borða hana í nokkra daga, kalda díft ofan í hnoðmör.  Hún gerir manni líka aldeilis gott rétt eins og hákarlinn, ef maður er með magakveisu nú eða hausverk, þá er skata eða hákarl besta meðalið.  ég hlakka til að fara í skötuveislu bæði í hádeginu og í kvöldmat, svo á ég líka sjálf skötu sem ég keypti mér og ætla að elda síðar.  Ég fæ aldrei nóg af henni Sigurður minn. 

Skemmtileg kenning með jarðskjálftan. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.12.2011 kl. 10:57

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Slær út hjá mér svita og tárum við þennan lestur, Ásthildur. Gleðileg jól.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.12.2011 kl. 10:59

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha  gleðileg jól og takk fyrir skemmtilegt bloggár.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.12.2011 kl. 11:02

4 Smámynd: Geir Magnússon

ég bý í ameríku og skata fæst auðvitað ekki hér.Síðast þegar ég át hana var heima hjá vinafólki hér vestra,Elvari Einarssyni og Jóhönnu konu hans.Hann er ættaður að vestan og hafði fengið jólapakka að heiman.Við vorum fimm eða sex karlmenn við borðið og var skatan svo vel kæst að maður þurfti að anda að sér djúpt og blása svo eins og hvalur þegar maður setti gaffal í munn. Þetta gerðum við allir og minntu hljóðin mig á þegar ég sem krakki horfði á sjósund í höfninni því sundmenn blésu ógurlega við hvert sundtak.

Geir Magnússon, 24.12.2011 kl. 08:51

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Verandi vestfirðingur og þekkja svolítið til, þá get ég huggað þig með því að það er alger þjóðsaga að migið sé á fiskinn. Slíkt myndi eyðileggja hann (raunverulega).

Þessi þjóðsaga er til komin vegna þess að lyktin er ekki ósvipuð keytu af vel kæstri skötu. Þegar iskurinn brotnar upp, þá myndast ammónía, sem gefur þessa lykt. Raunar gerist það sama í sambærilegri verkun eins og ostagerð t.d.

Skata er herramannsmatur eins og allra meina bót, eins og Ásthildur segir. Það eru engin Jól í mínum huga án undangenginnar skötu.

Það er vert hugleiðingar að þrátt fyrir þessa megnu lykt af mest verkuðu skötunnni (hún er ekki alltaf kæst) þá hefur þessi siður breiðst út með undraverðum hraða og orðinn nokkuð almennur í dag. Against all odds, má segja.

Þagar ég fluttist suður fyrir um 30 árum, þá var enginn sem át skötu, sem við þekktum til og við þurftum að fá hana sérpantaða að vestan með flugi og sjóða hana á svölunum. Við gátum alltaf treyst því að flugfrakt hringdi samstundis í okkur og skatan kom í hús og heimtaði að við sæktum hana hið snarasta.

Gleðileg jól Sigurður og takkk fyrir allt hið gamla á blogginu. 

Jón Steinar Ragnarsson, 24.12.2011 kl. 09:35

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég las einu sinni bók, hún gerðist í fangabúðum þar var maður sem ráðlagði konu einni að ef hún vildi lifa þetta af skildi hún drekka hlandið úr sjálfri sér því lækjarvatnið var saurmengað, hún lifði af, þannig að hlandið er ekki eytrað.

Gaman að geta þess að bróðir minn sem býr í Japan pantaði ýmsar vörur frá Íslandi um daginn, þar á meðal skötu, er hann kom í tollinn að sækja pakkann var búið að skoða í hann eins og lög gera ráð fyrir, en þeir hentu skötunni á þeim forsendum að þetta var orðið úldið.

Mér finnst skata afar góð, alin upp við hana, enda fólkið mitt að vestan.

Gleðileg jól Sigurður og takk fyrir góð skrif á árinu sem er að fara hjá.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.12.2011 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband