Fór fjármálaráðherra með ósannindi um samgöngumál?

Hinir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar duga ekki til að standa undir þeim samgönguframkvæmdum sem hér hafa verið undanfarin ár. Við höfum þurft að millifæra peninga úr almennum skatttekjum ríkisins yfir í samgöngumálin vegna þess að mörkuðu tekjustofnarnir hrökkva ekki til. 
 
Þetta er orðrétt haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG og fjármálaráðherra. Félag íslenskra bifreiðaeigenda er ekki sátt við orð og hugsun mannsins. Í Staksteinum Morgunblaðsins í morgun segir:
 
FÍB bendir á að hið rétta sé að ríkissjóður muni hafa hátt í 50 milljarða króna í tekjur af umferð á þessu ári en aðeins 16 milljarðar fari til Vegagerðarinnar og þar af aðeins 6 milljarðar til nýframkvæmda. Afgangurinn fari í almenn útgjöld ríkissjóðs.
FÍB bendir einnig á að þvert á fullyrðingar fjármálaráðherra hafi tekjur ríkisins af samgöngum ekkert hækkað þrátt fyrir hækkun skatta. Afleiðingarnar hafi verið minnkandi umferð og þar með minnkandi tekjur.
Þeir sem hafa slæman málstað að verja grípa einatt til ósannindanna. Þetta er vafalítið helsta ástæða þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru svo oft staðnir að ósannindum.
Getur nokkuð annað en slæmur málstaður skýrt það að fjármálaráðherra reynir ítrekað að afvegaleiða umræðuna um skatta á bifreiðaeigendur?
 
Við lestur ofangreinds texta sem hafður er eftir fjármálaráðherranum er tvennt ljóst:
  1. Fjármálaráðherra hefur tileinkað sér stofnanamál og gerist loðinn í málflutningi sínum og illskiljanlegur, líklega til að afvegaleiða umræðuna eins og segir í Staksteinum.
  2. Ekki er hægt að ráða öðru vísi í orð fjármálaráðherra en að tekjur af sköttum og tollum af eldsneyti og bílum séu svo litlar að grípa hafi þurft til að millifæra skatttekjur af öðrum stofnum, s.s. virðisaukaskatti til Vegagerðar.
Fleiri en FÍB eru gáttaði á orðum Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns VG.
 
Í ljós stöðu mannsins getur hann ekki leyft sér að tala á þennan veg. Hefði einhver annar flokksformaður verið  sagt hið sama sem fjármálaráðherra hefði sá hinn sami umsvifalaust verið ásakaður um ósannindi og gerðar kröfur til afsagnar hans. Nú þegja fjölmiðlar að mestu um þetta og láta sér vaðal um veður og ESB nægja.
 
Og líklega er það rétt sem segir í Staksteinum að sá sem „hafi sæman málstað að verja grípi einatt til ósanndinda“.
 
Við þetta er því að bæta að íslensk stjórnmál mega síst af öllu við því að málin séu flækt með lygaþvættingi. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband