Sparkað í Hannes Hólmstein

Af mörgum áhugaverðum greinum í Morgunblaðinu í morgun er ritdómur Barkar Gunnarssonar um bókina Bankastræti núll eftir Einar Má Guðmundsson ansi skemmtilegur, en hann er að finna á blaðsíðu 37.
 
Einar hefur skrifað margar áhugverðar bækur en oftar en ekki greinar, þær eru mér oft lítt að skapi. Finnst hann ekki alltaf nógu málefnalegur og svo er hann langlokuhundur, skrifar ótrúlega langt og kemur stundum boðskap sínum ekki nógu vel til skila. Það skiptir þó litlu, oft er hann skemmtilegur rétt eins og Börkur segir í ritdómnum: 
 
Það er þekkt trikk úr gömlu bíómyndunum að þegar hetjan mætir á svæðið þá klappar hún hundinum en þegar skúrkurinn mætir á svæðið þá sparkar hann í hundinn. Þá veit áhorfandinn strax hver er góði maðurinn. Sú tilhneiging hefur skapast á Íslandi að listamenn þurfi að byrja á því að sparka í hundinn Hannes Hólmstein Gissurarson til að hægt sé að hlusta á þá. Einar Már gerir það samviskusamlega áður en hann fer af stað með skemmtilega orðræðu sína.
Bók hans er skemmtileg aflestrar, þegar verst lætur verður þetta hálfgert röfl og blaður en þegar best lætur er þetta leiftrandi skemmtilegt.
 
Þarna kemst Börkur vel að orði. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur af vinstrimönnum verið útnefndur versti óvinurinn. Hann virðist vera verri en Davíð Oddsson, og er þá miklu til jafnað. 
 
Sparka í hundinn, þá vita lesendur stöðuna. Ég hef hins vegar þann grun, og oftar en ekki hef ég fengið hann staðfestan, að fæstir þeirra er sparka í Hannes hafa lesið nokkuð skapaðan hlut eftir hann. Hannes er bara vondi kallinn, rétt eins og kölski, sem þó hefur ekkert látið hafa eftir sér en allir eru á móti. Mig grunar hins vegar að margir myndu geta verið sammála mörgu því sem Hannes hefur látið frá sér fara ef þeir á annað borð leyfðu sér að lesa það. 
 
Þó ekki væri annað er ástæða til að benda fólki á að lesa skemmtilegt greinarkorn sem Hannes birtir vikulega í Morgunblaðinu á bls. 35 og nefnist Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð.  
 
Í dag segir Hannes frá Dodda kúlu og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Þar segir:
 
Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir að velja á milli víns og kvenna?“ Tómas læddi þá svari út úr sér: „Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.
 
Og svo þarf ég endilega að kaupa mér þessa bók hans Einars Más. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband