Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann ...

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

Þannig orti Páll Árdal (1857-1930) um rógberann sem í dag gæti jafnvel verið kallaður „virkur í athugasemdum“ fjölmiðla eða jafnvel ýmsir stjórnmálamenn.

Grein Kára Stefánssonar í Fréttablaðinu í síðustu viku vakti undrun margra vegna þess að í henni ræðst hann á Bjarna Benediktsson og ber upp á hann Gróusögur.

Hver skyldi vera tilgangur Kára? Er hann að koma Bjarna til varnar? Er honum svo umhugað um Bjarna að hann vilji safna á einn stað helstu lygunum svo hægt sé að eyða þeim eins og pappír í eldi í tunnu?

Nei, tilgangur Gróusögunnar er auðvitað allt annar. Enginn ber út lygasögur til að hjálpa þolandanum. Sá sem stendur fyrir einelti eða ofbeldi af einhverju tagi hefur ekki hagsmuni fórnarlambsins í huga. 

Sögusmettan skrifar því eins og Gróa á Leiti sem sagði aldrei neitt ljótt um annað fólk, heldur flutti af því sögu með þeim orðum að „ólyginn sagði mér“. Aldrei var hægt að rekja söguna til hennar heldur til annarra.

Kári Stefánsson er óumdeilanlega nokkuð vel skriffær þó deila megi um dómgreindina. Hversu brengluð er ekki hugsunin hjá þeim sem svona skrifar:

Þegar þú leggst í leiðréttingar á gróusögum af þeirri gerð sem hér hafa verið raktar er mikilvægt að gera það af einlægni og þannig að það skiljist hvað þú ert að reyna að segja.

Þetta segir maðurinn sjálfur í grein sinni rétt eins og hann sé að gera Bjarna Benediktssyni góðverk. Hann telur það sér beinlínis til vegsauka að dreifa lygasögum og hvetur fórnarlambið til að sýna einlægni ...

Þetta er hreinlega eins og í galdrabrennunum til forna þegar yfirvaldið hótaði einhverjum aumingjans ógæfumanni og gaf honum tvo kosti: Annað hvort eilífa vist í helvíti ef hann neitaði eða sællegum dauða ef hann játaði af einlægni.

Af rætnum hvötum skrifar Kári rætna grein og segir segir að því loknu eins og Nixon karlinn og það kumrar í honum um leið: „Let the bastards deny it,“. Hann gæti svo sem bætt við annarri tæknilegri spurningu: „Ertu hættur að berja konuna þína þú armi skíthæll?“ Vont er að svara henni nema missa æruna.

Sem betur fer kunna fleiri orðsins list. Benedikt Einarsson, lögmaður, skrifar stórsnjalla grein í Fréttablað dagsins, og hrekur þar allar lygar Kára Stefánsson um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra. Benedikt bætir um betur og lýkur grein sinni með ljóði Páls J. Árdals sem getið er hér að ofan. Það var vel til fundið enda gæti Kári verið rógsmaður í því.

Einnig má benda á góða grein Einars Bárðarsonar sem hægt er að lesa hér

Ljóðið er snilldarlega ort. Efni þess skilja allir, málið er létt og auðlesið.

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
 
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,
 
og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,
 
en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.
 
Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.
 
Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.
 
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.


Bloggfærslur 7. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband