Hvað skyldi forseti Bandaríkjanna og Rússar vera að fela?

Sé rétt að Michael Flynn, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trumps,Bbandaríkjaforseta, hafi ákveðið að segja FBI og leyniþjónustunefnd þingsins allt af létta um tengsl forsetans við Rússa, hlýtur það að vera stórfrétt. Þetta eitt bendir til að eitthvað sé til að fela og má fullyrða að forsetinn og stjórn hans sé þá orðinn ansi valtur í sessi.

Bandaríski fjölmiðillinn New York Times lætur að því liggja að Flynn sé ekki sá eini af fyrrum ráðgjöfum forsetans sem hafi fundið hjá sér knýjandi þörf til að segja frá.

Bandaríkjamenn taka samskiptin við Rússa afar alvarlega. Rökstuddur grunur hefur verið um að þeir hafi haft margvísleg afskipti af bandarískum innanríkismálum og jafnvel svo að úrslit forsetakosninganna hafi ráðist vegna stýringar frá Moskvu.

Flynn laug til um samtöl sín við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum og án efa standa mál þannig að alríkislögreglan hefur upptökur af þessum símtölum, einu eða fleirum, sem gerir málið þyngra fyrir Flynn. Á móti kemur að rannsóknir FBI á málinu eru án efa svo umfangsmiklar að nú er komið að því að sækja ekki einungis í smáfiskinn heldur einnig hinn stóra. 

Afleiðingin af öllu þessu gæti orðið afsögn Trumps, skiptir engu hvort hann hafi vitað af samskiptunum við Rússa eða ekki.

Þegar litið er til stjórnar Trumps og framgöngu hans í embætti fer ekki hjá því að leikmenn álykti sem svo að hann ráði ekki við embættið, sé í raun ekki stjórnandi heldur fari hann að vilja ráðgjafa sinna. Þekking hans á stjórnkerfinu, innanríkismálum og alþjóðamálum virðist lítil enda tjáir hann sig einna helst upphrópunum og fyrirsögnum. Lítið fer fyrir pólitískri hugsjón og stefnu.

Hvað sem öllu líður verða næstu vikur afar forvitnilegar í bandarískum stjórnmálum. Forsetinn er í alvarlegum vanda, ekki ólíkum þeim sem Richard Nixon kom sér forðum í. Þá var stutt í leikslok.


mbl.is Flynn talar gegn friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband