Skjálftahrinan við Herðubreið og tengslin við Holuhraun

Herðubreið2

Skjálftahrina hefur verið undanfarnar tvær vikur í suðvestan við Herðubreið. Mjög algengt er að litlir skjálftar séu í kringum fjallið, sérstaklega suðvestan og norðaustan við það. Þó vakti það athygli mína fyrir nokkrum dögum að þeir voru aðeins stærri en venja er til.

Svo bættist í á fimmtudaginn, þá hófst skjálftahrinan fyrir alvöru:

  • Á fimmtudaginn voru 49 skjálftar
  • Á föstudaginn mældust aðeins 22 skjálftar
  • Í dag, laugardag, hafa mælst 113 skjálftar.

HerðubreiðAlls hafa því um 184 skjálftar mælst í þrjá daga. Stærðarskiptingin er þessi:

  • Minni en 1 alls:  120
  • 1 til 2 alls:  60
  • 2 til 3 alls:  4
  • 3 alls:  0

Sem sagt við nánari athugun er enginn skjálfti stærri en 3 stig.

Herðubreið er móbergsstapi. Hann varð til í miklu eldgosi, einu eða fleirum, undir jökli fyrir um 10.000 árum. Við gosið rann ekkert hraun í fyrstu vegna þess að hitinn bræddi jökulinn í kring og kvikan splundraðist í bræðsluvatninu og myndaði gjósku. Eftir því sem á gosið leið náði fjallið upp úr vatnsborðinu. Þá tók að renna hraun.

Þetta er skýringin á því að hraun er efst í fjallinu. Eftir að gosi lauk þéttist gjóskan og myndaði móberg en jökullinn hélt enn að rétt eins og gerist þegar kaka er bökuð í formi. Þetta er ástæðan fyrir fallegri lögun Herðubreiðar og álíkra fjalla eins og Hlöðufells og Skriðunnar. Góðar upplýsingar um Herðubreið er að finna á Vísindavefnum.

Það sem mér þykir einna forvitnilegast með skjálftana suðvestan við Herðubreið er tvennt. Annars vegar að þeir hafa teygt sig frá fjallinu og lengra í suðvestur. Hitt er að stefna þeirra er hin sama og á Herðubreiðartöglum, þau liggja í suðvestur-norðaustur.

LínanSvo má til gamans nefna að sé stefna skjálftasvæðisins notuð til draga línu í suðvestur þá liggur hún ... já haldið ykkur ... hún liggur yfir nýju gígana í Holuhrauni.

Og það sem meira er, kvikan sem kom upp í gosinu í Holuhrauni kom úr Bárðarbungu. Þar varð til stóreflis berggangur sem hægt og rólega teygði sig í norðaustur og út á Flæður Jökulsár á Fjöllum, þar sem gosið kom upp. Línan liggur eftir þessum berggangi.

Og hvað segir þetta okkur? Tja ... eftir því sem ég best veit: Ekki neitt. Líklega bara skemmtileg tilviljun.

Eða hvað ...? (sagt með dimmri og drungalegri röddu sem lætur að einhverju liggja sem enginn veit). 

Líklegast er þó að skjálftarnir við Herðubreið séu einungis hreyfingar í jarðskorpunni, ekki vegna kvikuhreyfinga eða væntanlegs eldgoss. Eða hvað ...? 

Draumspakt fólk fyrir norðan og austan hefur átt afar erfiðar nætur undanfarnar vikur.

Myndir:

  1. Efsta myndin er af suðurhlið Herðubreiðar.
  2. Græna kortið sýnir dreifinu skjálftanna fyrir suðvestan Herðubreið. Kortið er fengið af vef Veðurstofu Íslands.
  3. Neðsta korti sýnir línuna sem um er rætt í pistlinum. Kortið er frá Landmælingum Íslands.

mbl.is Fjöldi skjálfta við Herðubreið í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband