Sleggjudómar og hneykslunarorð sófafólksins

Kanntu að aka bíl? spyr leigusali bifreiðarinnar. Já, hér er ökuskírteinið mitt, segir ökumaðurinn.

Kanntu að synda? spyr sá sem býður upp á köfun eða snork. Já, segir ferðamaðurinn og lítur kannski undan.

Geturðu gengið á fjöll? spyr leiðsögumaðurinn. Já, segir ferðamaðurinn. Hver getur það ekki?

Kanntu að aka snjósleða? spyr leiðsögumaður. Já, segir ferðamaðurinn, hálfhneykslaður.

Passaðu þig á fjörunni, í sjónum býr meira afl en þú veist. Auðvitað passa ég mig, segir ferðamaðurinn. Heldurðu að ég sé barn?

Þannig geta hlutirnir gerst. Ferðamaðurinn segir ef til vill ekki alveg satt um eigin getu, kunnáttu sína og þekkingu, vanmetur eða ofmetur.

Fjölmörg dæmi eru um slys og óhöpp sem ferðamenn hafa lent í, hvort heldur þeir hafi sagt satt eða ósatt, kunnátta þeirra og geta hafi verið takmarkaðri en þeir héldu eða jafnvel að þeir hafi hreinlega verið ógætnir eða bara óheppnir.

Ég þekki þetta sjálfur eftir að hafa starfað í ferðaþjónustu. Ég er líka oft ferðamaður og sé ýmislegt sem gæti verið til frásagnar. Nefna má konuna á strigaskóm og með plastpoka í hendi og ætlaði að ganga til Landmannalauga og gista þar á hótelinu. Ökumaðurinn á litla Hyundai bílnum sem kominn var að vaðinu neðan við Gígjökul og ætlaði út í af því að vegurinn lá að því og upp úr hinum megin. Göngumaðurinn sem var hreinlega örmagna vegna þess að hann áttaði sig ekki á kulda, vindi og vegalengd. Snjósleðamaðurinn sem eitt augnablik hélt að bensíngjöfin væri bremsa - með hörmulegum afleiðingum.

Ég hef stundum mætt eða dregið uppi ökumenn sem virðast vera af asísku kyni. Sumir þeirra voru síst af öllu öruggir í akstri. Stjórnandi bílaleigu sagði mér fyrir stuttu að hann hefði verið að leigja kínverskum hjónum bíl. Þau framvísuðu gildum skírteinum en voru langt í frá vön í akstri, það sást þegar þau óku í burtu. Allt gekk þó klakklaust og þau skiluðu bílnum í heilu lagi.

Ferðamenn eru eins og við hinir, sumir eru góðir og vandaðir, aðrir ekki. Þannig er bara veröldin. Vandi stjórnenda ferðaþjónustufyrirtækja er að greina hér á milli og fara umfram allt varlega.

Fólk sem er fjarri vettvangi og þekkir ekki til, þarf einnig að fara varlega. Auðvelt er að hrasa ofan í gryfju sleggjudóma og hneykslunar. Slys verða oft og víða, ekki þarf útlenda ferðamenn til eða illa rekin fyrirtæki. 

Hvernig stendur á því að sá sem ekki kann að synda fær að snorka í Silfru? spyrja þeir sem ekkert þekkja til.

Tökum ekki afstöðu meðan við höfum ekki allar upplýsingar. Ferðamaður í köfun getur dáið af ýmsum öðrum völdum en vegna drukknunar eða slæmrar skipulagningar ferðaþjónustuaðila.

 


mbl.is Ekki nauðsynlegt að vera syndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband