Hættu að væla, Páll Magnússon, farðu að vinna

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er óhress með að formaður flokksins hafi ekki gert hann að ráðherra. Páll hefur margt til síns máls. Hann er í fyrsta sæti listans í Suðurkjördæmi og þar vann flokkurinn mikinn sigur. Fjórir menn náðu kjöri og skammt var í þann fimmta.

Frábær árangur flokksins skrifast þó ekki allur tekjumegin hjá Páli einum. Fleiri en hann unnu að þessum sigri, ekki aðeins þeir sem eru á lista Sjálfstæðisflokksins heldur lögðu margir aðrir lögðu sitt lóð á vogarskálarnar. Gleymum því ekki að sigur í kosningum byggist ekki á einhverjum einleik heldur á sameiginlegum krafti flokksmanna.

Skiljanlegt er að Páll tjái einu sinni eða tvisvar vonbrigði sín. Í þriðja og fjórða sinn virkar þetta tal eins og biluð plata. Þegar síbyljan tekur við gerist maður þreyttur á Páli, hann tapar öllum trúverðugleika. Hann er reiður, sár og lætur pirringinn í ljós við öll tækifæri. Þá er eiginlega nóg komið. Allt hefur sín takmörk.

Nú er brýnast fyrir Pál að hætta þessu væli, fara að vinna vinnuna sína á Alþingi, setja sig vel inn í öll mál sem hann kemst yfir og sýna það og sanna að hann er þess verður að vera í forystusæti í Suðurkjördæmi.

Svo er það hitt. Formaður flokks á að geta valið þá menn til að sinna ráðherrasstörfum sem honum sýnist. Sá sem situr í fyrsta sæti á lista flokks í kjördæmi er ekki alltaf sá besti til að sinna ráðherraembætti. Hann er ekki einu sinni kjörinn til að vera ráðherraefni. 

Fyrsta sætið í kjördæmi gefur ekki veð í ráðherrastól.

Ef formaður flokks getur ekki valið þá í ríkisstjórn sem hann telur henta best þá er illt í efni. Þetta er eins og þjálfarinn sem þarf að velja byrjunarliðið í fótboltaleik. Hann getur ekki valið ellefu sóknarmenn í liðið hvað þá ellefu markmenn. Sumum hentar einfaldlega að leika í ákveðnum stöðum.

Sama er með ráðherraembætti. Ekki hafa allir getu til að stjórna ráðuneyti.

Í mastersritgerð sinni skrifaði Ása Möller, fyrrverandi þingmaður, eitthvað á þessa leið: Þegar þingmaður gengur í fyrsta sinn inn í ráðuneyti sitt gerist annað af tvennu, hann tekur stjórnina og sinnir sínum pólitísku störfum eða ráðuneytið „gleypir“ hann og stýrir honum í þeirri pólitík sem ráðuneytið vill.

Fjöldi dæma eru um ráðherra sem einfaldlega hafa orðið dyggir fjölmiðlafulltrúar ráðuneytis síns. Ekkert annað.

Vissulega átti Suðurkjördæmi það skilið að fá ráðherra. Það gerðist hins vegar ekki. Málinu er því lokið.


mbl.is Páll segir Bjarna hafa gert mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni, geturðu opnað fyrir ræstingarfólkinu?

Ný ríkisstjórn hefur tekið við ... já, völdum á Íslandi. Um leið er sagt í fjölmiðlum að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi fengið „lyklavöld“ í sínum ráðuneytum. Þetta orð er svo endurtekið í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum, líklega vegna þess að fráfarandi ráðherra afhendir þeim nýja lykil að húsinu.

Orðið „lyklavald“ er svo sem ágætis orð. Einnig má tala um „húsbóndavald“ nema auðvitað í því tilfelli að kona sé ráðherra. Þá er þetta orðið dálítið spaugilegt að kona sé ráðherra og fari með húsbóndavald. Þannig er nú svo margt karlkennt í málinu.

„Lyklavald“ í eintölu eða fleirtölu er samt skrýtið orð og varla lýsandi yfir starf ráðherra. Eðli máls samkvæmt eru fleiri en ráðherrar með lykil að húsnæði ráðuneytis og sannarlega eru það völd í sjálfu sér að geta opnað læstar dyr og skellt í lás á eftir sér.

Hins vegar kann það að vera að enginn annar en húsvörður hafi lyklavöldin í ráðuneyti og opni það að morgni og loki þegar dagur er að kvöldin kominn. Ég sé nú ekki alveg fyrir mér að ráðherrann sé kallaður til þessara verka í upphafi og lok vinnudags eða á öðrum tímum þar fyrir utan.

„Sæll Bjarni, þetta er Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri. Ræstingafólkið er komið. Gætir þú opnað fyrir því og læst svo á eftir þeim þegar það er búið að þrífa? Þú ert nú með lyklavöldin.“

Nei, „lyklavöldunum“ fylgja auðvitað engin völd. Lyklarnir eru bara lyklar, ekki slíkir sem maður sér í bíómyndunum sem forsetar eða hershöfðingjar fá í hendur til að ræsa gjöreyðingarvígtól. Það kallast nú alvöru lyklavöld.

Hér heima eru þetta bara lyklar. Þeim fylgja engin völd umfram það sem við hin höfum með okkar lyklum, að opna og loka húsakynnum okkar.


Bloggfærslur 14. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband