Logi formaður leggur aðeins til formælingar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur greinilega farið á skyndinámskeið fyrrum formanna flokksins. Hann kann alla frasanna, allar „blammeringarnar“ sem og annað nauðsynlegt til að sýnast vera ábyrg stjórnarandstaða. Frétt mbl.is þar sem vitnað er í „nýársbréf“ formannsins til flokksmanna er merkileg þó bréfið virðist ekki vera það.

Formaðurinn stundar ómerkilegar ófrægingar. Slíkt mun ekki skila honum árangri, hvorki í fjölgun atkvæða né heldur mun álit á honum aukast.

Hið eina sem Logi virðist kunna er að tvinna saman gamalkunnug stef úr fornlegri stjórnmálabaráttu hér á landi. Hins vegar veit hann ekki að nú eru komnar nýjar kynslóðir sem eru aldar upp við gjörólík skilyrði en þau sem voru þegar þessi slagorð spruttu upp.

Afleiðing þess að Samfylkingin þekkir ekki aðstæður er einfaldlega sú að Samfylkingin er við það að þurrkast út. Logi hefur lært af fyrri formönnum, þeim sem komu flokknum á kaldann klaka. 

Ekkert í frétt mbl.is bendir til þess að formaðurinn hafi nokkurn áhug á framtíðinni, hann leggur ekkert annað til en formælingar. Mikið ákaflega er það sorglegt.


mbl.is Stjórn um „óbreytt ástand“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best gekk Kínverjum þegar Hannes varði ...

Kín­verj­ar höfðu nokkra yf­ir­burði í fyrri hálfleik og voru meira með bolt­ann. Besta færi hálfleiks­ins fengu þeir þegar Hann­es Þór Hall­dórs­son varði vel í mark­inu.

fotbolti_GrasÍslenska landsliðið í fótbolta vann í dag Kínverska landsliðið, tvö, núll. Af því tilefni er frétt sett inn á mbl.is og gangur leiksins rakinn á góðan og gagnlegan máta. Ástæða til að þakka fyrir það.

Hins vegar vöktu ofangreind orð athygli mína. Yndislega skemmtilegt hnoð og því verður seinni málsgreinin botnlaus, eiginlega hringavitleysa.

Ég verð að viðurkenna að ég hló upphátt. 


Fordæmingin og bölbænir ...

Fordæming og bölbænir eru nærri því lenska í íslenskum stjórnmálum. Síst af öllu eru margir stjórnmálamenn þannig innrættir að þeir geti óskað öðrum velfarnaðar.

Doo dooMér datt þetta í hug þegar ég las í einhverjum fjölmiðlinum orð fyrrverandi forsætisráðherra sem telur að ný ríkisstjórn sé sú versta sem hann hefði getað hugsað sér. Hvorki meira né minna.

Svipaðar hugrenningar eru ættaðar frá ýmsum fólki í stjórnmálaflokkum sem ekki eiga aðild að þessari nýju ríkisstjórn.

Farið þið í rass og rófu, vonandi gengur ekkert upp hjá ykkur. Við munum gera tilveru ykkar að algjöru helv...

Svona er viðhorfið í stuttu máli.

Eftir hrunið töluðu margir fjálglega um að breyta „orðræðunni“ í íslenskum stjórnmálum, auka veg og virðingu Alþingis og stjórnsýslunnar.

Það sem merkilegast er við þessar hugmyndir er að þeir sem hæst göptu um þær eru enn hrópendur af gamla skólanum, þeir iðka formælingar en leggja mun minni áherslu á rökræður og hávaðalausar umræður. Má vera að þeir geti ekki slíkt.

Á þinginu sitja þeir súrir eftir sem mistókst að mynda ríkisstjórn og reyna í stað uppbyggilegs starfs að ala fyrirfram (svona til vonar og vara) á tortryggni og mála skrattann á vegginn í svart-hvítum litum.

Af hverju segir enginn eitthvað á borð við þetta?

Við óskum nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og vonumst til að hún standi að sem flestum þjóðþrifamálum, stuðli að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, bæti kjör hinna lægst launuðu, komi til móts við þarfir aldraðra og öryrkja og skapi enn betri skilyrði fyrir þjóðina til að blómstra og þrífast.

Vissulega er þörf á aðhaldi stjórnarandstöðum, fólki sem hefur ákveðnar og andstæðar skoðanir við þá sem mynda meirihlutann. Gáfur, skynsemi og farsæld verður ekki til með því einu að maður utan úr bæ setjist í ráðherrastól. En öllu má þó ofgera.

Nú hef ég hreinlega áhyggjur af því að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar og byggðir landsins séu í verulegri hættu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa talað um þau mál og mér sýnist að þar eigi að láta til skarar skríða.

Á sama tíma bíður uppstokkun fjármálakerfisins og sala gígantískra verðmæta sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks náði að færa til ríkisins frá kröfuhöfum. Ég gæti ekki hugsað mér verri ríkisstjórn til að halda utan um þau mál.

Þetta segir fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra í vefritinu pressan.is. Hann sendir Sjálfstæðisflokknum kalda kveðju, var hann þó í þrjú ár í nánu samstarfi við flokkinn. Nú eru allt í einu undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar í hættu sem og byggðir landsins. Halda mætti að sá fyrrverandi sé að ræða um hryðjuverkasamtök, ekki fyrrum samstarfsfólk í ríkisstjórn og kollega á Alþingi.

Svona tal ætti að heyra fortíðinni til, þeim tíma er upphrópanir dugðu en röksemdirnar hurfu í moldryki. Þannig hélt maður að væru ekki viðhorfin í Framsóknarflokknum en eru kunnugleg úr ranni Vinstri grænna.

TortolaHeld að þetta sé ein ljótasta bölbæn sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið í vegarnesti og er honum biður síst af öllu til sóma.

Það eina sem vantar hjá manninum er að hann fremji svokallaðan „voo doo“ seið sem þekktur er á eyjum í Karabíahafinu. Þar er víst margt annað iðkað sem ekki þolir dagsljósið.


Bloggfærslur 10. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband