Vita þingmenn Bjartrar framtíðar ekki betur eða skrökva þeir?

Ef lögð yrði fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að Ísland segði sig úr Bandaríkjum Norður Ameríku myndu flestir hlægja að flutningsmanni hennar. Einnig ef lögð yrði fram ályktun um að Ísland sækti um aðild að samtökum Afríkuríkja.

Nú hafa þingmenn Bjartrar framtíðar lagt fram eftirfarandi ályktun á Alþingi:

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 29. október 2016 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar? Já nei“.

Enginn hlær en fjöldi fólks er gapandi hissa enda er ályktunin jafnvitlaus og dæmin sem nefnd voru í upphafi. Ástæðan er einföld. ESB býður ekki upp aðildarviðræður og samning.

Aðildarumsókn er umsókn um aðild 

ESB heimilar ríki að sækja um aðild ætli það sér að ganga í sambandið. Aungvir samningar eru gerðir um annað en aðild. Þess vegna er aðdragandinn að inngöngu ríkis nefnd aðlögunarviðræður. Á ensku eru þær nefndar „Accession negotiations“.

Hvers vegna er þá alltaf verið að tönglast á samningi við ESB?

Tvö svör geta verið við þesari spurningu. Annað hvort vita þeir ekki betur sem tala um samning eða þá að þeir sem um hann ræða eru vísvitandi að fara með rangt mál.

Þeir vildu ekki þjóðaratkvæði 2009

Þingmenn Bjartrar framtíðar, Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson, samþykktu þingsályktunartillögu ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms í júlí 2009. Þeir höfnuðu tillögum Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Ekki minntust þessir tveir menn einu orði á að farið yrði í aðlögunarviðræður sem hefðu einungis leitt til einnar niðurstöðu, aðildar Íslands að ESB - samningslausrar.

Vita þessir menn ekki betur?

Miðað við forsögu málsins er heiðskírt að Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og aðrir þingmenn Bjartrar framtíðar eru að skrökva að þjóðinni. Auðvitað vita þeir að það er ekki hægt að gera aðildarsamning við ESB. Annað hvort gengur Ísland inn í ESB eða ekki. Þeir sleppa því að minnast á aðlögunarviðræðurnar og að umsókn fjallar ekki um samning heldur aðild.

Aðlögunarviðræður eru ekki samningaviðræður

Með aðildarlögunarviðræðunum milli Íslands og ESB var verið að samræma lög og reglur Íslands við stjórnarskrá og reglur ESB. Þessu var reynt að halda leyndu þangað til ríkisstjórnin féll í kosningunum 2013. Þá voru aðlögunarviðræðurnar langt komnar án þess þó að þjóðin hefði samþykkt aðild.

Tillaga þingmanna Bjartrar framtíðar er því sýndarleikur, tilraun til að kasta ryki í augu kjósenda í þeirri von að flokkurinn þurrkist ekki út í kosningunum í október.

Lenging birtutíma á Íslandi

Eftir stendur að hið eina sem þjóðin mun minnast Bjartrar framtíðar fyrir eru tillögur um að lengja birtutíma á Íslandi með því að færa klukkuna fram og aftur og sækja um aðild að ESB og gera samning um aðildina. Hvort tveggja er ómögulegt.

 


mbl.is Vilja þjóðaratkvæði um aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband