Tilvonandi embætti ...

„Verð að segja - nýkjörinn forseti fer ekki vel af stað í tilvonandi embætti,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, eftir að hafa hlustað á viðtal við Guðna Th. Jóhannesson verðandi forseta á Rás 1 í morgun.

Þetta stendur í visir.is. Líklega er það vonlaust að kenna blaðamanninum um fyrstu málgreinina, meiri líkur á því að hinn málvillti þingmaður eigi alla sök á þessu bulli.

Guðni Th. Jóhannesson er tilvonandi forseti. Embætti forseta Íslands er þegar til og ekki neitt tilvonandi við það. Betur hefði farið á því að sleppa þessu „tilvonandi embætti“.

Að vísu hefði blaðamaðurinn átt að leiðrétta þessa vitleysu sem hrökk upp úr þingmanninum. En hver nennir að eltast við allra villurnar sem hún lætur út úr sér og reyna að leiðrétta þær?


Lukkuriddararnir safnast til Pírata

... fyr­ir beinna og virk­ara lýðræði, upp­lýst­ari og fag­legri stjórn­sýslu, tján­ing­ar­frelsi, net­frelsi og auknu upp­lýs­ingaflæði, fé­lags­legu frjáls­lyndi, sterk­um ein­stak­lings­rétt­ind­um - m.a. vel­ferðarrétt­ind­um - prag­ma­tískri efna­hags­stefnu, skaðam­innk­andi vímu­efna­stefnu og bara flestu því sem frá þeim kem­ur ...

Þetta segir maður sem ætlar sér í framboð fyrir Pírata. Maður velti því fyrir sér hvort hér sé eiginlega allt upp talið. Maðurinn ætlar sér greinilega að verða svo óskaplega góður og gegn, en þá hringja viðvörunarbjöllur og maður spyr hvar er hugsjónin og eldmóðurinn

Alltof margir ætla sér að vera svo óskaplega góðir og gegnir sem þingmenn. Svo man maður eftir Borgarahreyfingunni en í henni voru þrír þingmenn og hún klofnaði, tveir þingmenn lögðu þann þriðja í einelti.

Píratar eru þrælklofnir. Einn þingmaður óð yfir aðra í frekjukasti, annar hætti þá á þingi og sá þriðji ætlar ekki að gefa kost á sér áfram. Sá sem er yfirgangsamastur heldur áfram.

Svo laðast lukkuriddararnir að Pírötum, sjá þingsætið í hillingum. Eitt eiga þeir þó sameiginlegt og það er að hafa aldrei fjalla opinberlega um stjórnmál eða samfélagsmál. Kjósendur vita ekkert fyrir hvað þeir standa.

Skyldu kjósendur þá treysta þeim? Jú, ábyggilega. Alltaf gaman að leikjum eins og rússneskri rúllettu, nema þegar leikurinn hittir kjósandann í andlitið.


mbl.is Viktor Orri gefur kost á sér fyrir Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróður þolir ekki beit á gosbeltum landsins, samt ...

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri aðila sýna að gróður var í talsvert mikilli framför víða á landinu á níunda áratugnum. Síðan hefur dregið úr þeirri framför og nú virðist vera stöðnun á öllum austurhelmingi landsins, þó að láglendið sé víðast hvar í gróðurfarslegri sókn. Á gosbeltum landsins eru flestir afréttir afskaplega illa farnir og auðnir víða ríkjandi. Sauðfé sækir í nýgræðinginn á auðnunum þegar líða tekur á sumarið en beit á auðnum getur aldrei orðið sjálfbær og þar er því ofbeit.

Þannig skrifar Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, í grein í Morgunblað dagsins. Hann ræðir þann mikla vanda sem steðjar að gróðurfari landsins og þá sérstaklega vegna sauðfjárbeitar. Staðreyndin er einföld að mati Sveins. Landið þolir ekki beit, sérstaklega á gosbeltum landsins. Henni þarf að hætta.

Vandinn er þessi, að mati Sveins:

Öll lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu er mjög gömul og hefur ekki fengist endurskoðuð, þrátt fyrir margítrekaðar óskir hlutaðeigandi stofnunar þar að lútandi. Lög um landgræðslu eru frá 1965 og núgildandi lagaákvæði um ítölu í beitilönd eru að stofni til frá 1969. Ákvæði þessara laga eru löngu úrelt og þarf að endurskoða með tilliti til nýrrar þekkingar á ástandi úthaga.

Það sýndi sig best þegar reynt var að koma í veg fyrir beit á auðnum Almenninga, þá var álit færustu sérfræðinga virt að vettugi. Það tefur fyrir umbótum að lög þessi heyra undir sitthvort ráðuneytið, annars vegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Eflaust kann það að vera að mörgum finnist landið fallegt svo gróðurlaust sem það er. Ástæðan fyrir gróðurleysinu er einfaldlega dvöl manna í landinu, sauðfjárbeit og útrýming skóga. Með nokkrum rökum má fullyrða að þjóðin hefði ekki þrifist í landinu nema að hafa gert það sem hún gerði. Látum það vera. Þá er verkefnið einfaldlega að bæta úr, græða landið, stunda öfluga skógrækt. Um leið þarf að takmarka sauðfjárbeit eins og Sveinn réttilega segir. Það gengur ekki að beita á gróðurlausum svæðum.

Fyrirmyndin á að vera sjávarútvegur landsins. Hvað er gert þar? Sveinn svarar því á þessa leið:

Enn einu sinni hefur ráðherra sjávarútvegsmála ákveðið að fara í einu og öllu eftir tillögum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár. Það er mikil viðurkenning á störfum Hafrannsóknastofnunar, árangurinn lætur ekki á sér standa og flestir fiskistofnarnir eru í sókn. Það er ánægjuefni þegar svo vel tekst til með ráðgjöf og í kjölfarið nýtingu náttúruauðlinda með sjálfbærum hætti.

Þjóðin þarf að nýta landið með hliðsjón af ráðgjöf færustu vísindamanna. Ekki dugar að hagsmunaaðilar hafi einir aðkomu að mati á auðlindum landsins. Farið er eftir ráðgjöf vísindamann í veiðum úr nytjastofnum við Ísland. Þannig á það líka að vera er kemur að nýtingu landsins, gróðursins. 

Ofveiði tíðkast ekki lengur. Við búum að bitri reynslu hvað það varðar og með hana að leiðarljósi sækjum við hóflega í fiskistofnana. Sama á að gerast í landbúnaði. Ekki á að vera heimilt að ofbeita land. Ekki á að vera heimilt að reka fé í Almenninga norðan Þórsmerkur nema þeir þoli beit, sem þeir gera ekki. 

Í lok greinar sinnar segir Sveinn Runólfsson og tekið er hér undir honum:

Ráðgjöf vísindamanna sem sjá ekki auðlindir hafsins nema í mælitækjum og reikna út stofnstærðir með ýmis konar mælingum er sem betur fer ávallt tekin góð og gild nú á tímum. Nýting á auðlindum þurrlendisins þarf að verða með sama hætti, en því fer fjarri að svo sé í dag.

Búvörusamningar og lagaumgjörð um stjórn beitar og landnýtingu þarf að byggjast á því [að] hægt [sé] að byggja upp auðlindir gróðurs og jarðvegs og stuðla að sjálfbærum sauðfjárbúskap í landinu.

 

 


Bloggfærslur 2. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband