Ekki einkavæða Landsvirkjun, segir Davíð Oddsson

Ég er þeirrar skoðunar að við einkavæðingu eigi eitt meginatriði að gilda við skoðun á öllum málum: Er viðkomandi fyrirtæki sem er í þjóðareign, ríkiseign eða sveitarfélagseign með einokunaraðstöðu að einhverju tagi, þá fer ekki vel á því að einkavæða það.

Ef fyrirtækið er með raunverulega einokun á einhverju sviði þá er eðlilegra að það sé í opinberri eigu.

Þessa stórmerkilegu yfirlýsingu lét Davíð Oddsson frá sér fara á fundi í Grafarvogi þann 8. júní 2016. Raunar er hún hápólitísk og gengur þvert á það sem fjölmargir hafa haldið fram um skoðanir Davíðs á einkavæðingu.

Raunar var það svo að á fundinum kom fram fyrirspurn sem var um „einkavinavæðingu“ Landsvirkjunar. Davíð lét ekki orðalagið trufla sig og svaraði afar skilmerkilega eins og sjá má. Hann lét þó ekki þar við sitja og bætti við:

Menn hafa verið að tala um alls konar samkeppni eins og í raforkugeiranum en hún hefur ekki átt sér stað. Talað er um að einhver samkeppni sé vegna Evrópu og hækka þurfi raforkutaxta hér hægt og rólega á fólkið í landinu af því að menn eru að undirbúa það að það verði nægilega ódýrt að leggja rafstreng milli landi til að selja Bretum. Ég vil að menn geri það með opnari hætti og plati ekki fólk.

Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku.

Hér gefur að líta allt aðra mynd af pólitískum skoðunum Davíðs Oddssonar en andstæðingar hans vilja vera láta. Líklega reka margir upp stór augu þegar Davíð segist á móti því að selja Landsvirkjun vegna þess að hún sé opinbert fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Er þetta ekki nóg einföld og skýr afstaða?

Látum almenning njóta arðsins af góðu gengi raforkuframleiðslunnar, segir Davíð og hafnar því að ríkið fái arðinn í einhvern sjóð til að „gambla“ með. Er þetta ekki nógu skýr afstaða?

Greinilegt er að Davíð Oddssyni líst illa á sæstreng til Bretlands. Og hann hefur ekki einu sinni rætt um umhverfislegar afleiðingar sæstrengsins, allar virkjanirnar sem reisa þarf hér á landi til að hann sé fjárhagslega réttlætanlegur og ekki heldur meðfylgjandi rask á kostnað náttúru landsins.

Ágæti lesandi, vissir þú um þessar skoðanir Davíðs Oddssonar?

Ef ekki, hvers vegna?

Líklega er ástæðan sú að rödd Davíðs hefur ekki heyrst vegna hávaða. Andstæðingar hans hafa einfaldlega lagt ofuráherslu á læti og upphrópanir og haft mikið fyrir því að rangtúlka hann, endursemja söguna, eins og þeir sjálfir segja.

Einfaldasta og besta leiðin til að mynda sér skoðun á Davíð Oddsyni er að hlusta á manninn. Vissulega er Davíð umdeildur, það er allt annað mál. Hins vegar hafa andstæðingar hans yfirleitt farið rangt með orð hans og stefnu. 

Ég er nærri því fullviss um að þú, lesandi góður, vissir ekkert um ofangreindar skoðanir Davíðs.


Bloggfærslur 9. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband