Hvaðan er bannsett myndin?

TréFyrir þremur dögum voru birti ég fornar ljósmyndir af reyniviðartré í hlíð og var myndin sögð tekin í Bíldsfelli í Grafningi um 1883, sjá blogg Fornleifs

Í baksýn myndarinnar eru hugsanlega Úlfljótsvatn og Þingvallavatn. 

Efst er myndin eins og hún birtist á vef Fornleifs. Skemmst er frá því að segja að þetta hlýtur að vera spegilmynd. Myndin getur ekki verið rétt vegna þess að sé vötnin eru einfaldlega á röngum stað miðað við að vera tekin úr Bíldsfelli. Fyrir neðan er myndin „rétt“.

Þriðju myndina tók ég á Bíldsfelli þann 4. júní og á henni má greinilega sjá hvernig landið liggur, í bókstaflegri merkingu.

TréAð þessu sögðu vandast málið. Eiginlega er útilokað að myndin sé tekin á Bíldsfelli. Fjallið er frekar lágt, aðeins 217 m. Það skiptist í tvennt, syðri hlutinn er lægri, hæstur um 180 m.

Hvergi á Bíldsfelli er jafn mikill bratti og sést á myndinni. Það er allt frekar slétt og fellt. Á myndinni er klettaborg og fyrir neðan hana er stórgrýtt skriða. Svona klettar finnast ekki í Búrfelli, ekki þar sem sést til Þingvallavatns.

Á þriðju myndinni, litmyndinni, sést frekar lítið í vatnið, raunar miklu minna en á gömlu myndinni. Niðurstaðan er því sú að sú gamla er tekin hærra uppi, hærra en nemur hæsta hluta Bíldsfells. Gæti hún verið tekin í Búrfelli í Grímsnesi?

Bíldsfell útsýni2

Takið eftir lögun Úlfljótsvatns á gömlu myndinni. Það snýr þannig að það er nærri því í vinkil. Taka verður þó tillit til þess að  vatnsyfirborðið var hækkað þegar Ljósafossvirkjun var byggð og þar af leiðandi kann lögun þess að hafa breyst dálítið frá því myndin var tekin. Nær, á litmyndinni, er lítið vatn, Heiðartjörn. Hún sést ekki á svarthvítu myndinni. Eða hvað?

Svo kemur fleira til. Engu líkar er en að allt landslag hafi horfið af svarthvítu myndinni. Á milli Úlfljótsvatns og Þingvallavatns er nokkuð land sem kallast Dráttarhlíð. Hún er frá 150 m á hæð og allt upp í 170 m. Þetta er greinilegt á litmyndinni en ekki á þeirri svarthvítu, þar er landslagið nær horfið.

Tré3_HDR_editbÓþarft er að tala um Búrfell, Botnsúlur og Ármannsfell sem eru þarna í fjarska. Á gömlu myndinni gæti verið þoka sem byrgir fjallasýn.

Svo er það önnur mynd sem birtist líka á vef Fornleifs og er hér til hægri. Hún bæti verið tekið í Bíldsfelli norðanverðu. Hvers vegna?

Jú, ég held það sé hafið yfir allan vafa að fjallið þarna í baksýn er Búrfell í Grímsnesi. Að vísu er myndin hjá Fornleifi spegluð, þó ekki honum að kenna. Hér hef ég snúið henni við. Þar að auki hef ég fiktað dálítið í henni til að geta greint útlínur fjallsins betur.

Mér finnst greinilegt að myndirnar eru af sama fjallinu. Í vettvangsferðinni var ég fyrst og fremst að reyna að finna samsvörun við efstu myndina og gekk því ekki nógu langt norður eftir Bíldsfelli til að sjá niður í Sogið.

Búrfell2Þegar ég var kominn á þar sem ég tók myndina af Búrfelli var ég búinn að missa hæð, hættur að sjá til Þingvallavatns.

Á gömlu myndinni sést landslag sem svipar dálítið til þar sem er útfallið úr Úlfljótsvatni og nú er Ljósafossvirkjun og aðeins neðar Írafoss. Má vera að þar sú upphafleg örnefni á þessum slóðum. Verst er þó að hafa ekki allan samanburðinn á litmyndinni.

Og hver er svo niðurstaðan á þessu brölti?

Tré4 AJú, ég tel mig hafa fundið út hvar neðri svart-hvíta myndin var tekin, en enn er ég óviss með efstu myndina.

Hérna er aftur efsta myndin og inn á hana hef ég sett rauða hringi um kennileiti sem ég átta mig ekki á. Þetta eru báðar myndirnar, sú upprunalega og sú speglaða.

Efst til vinstri á efri myndinni má greina lítið fell sem ég ber ekki kennsl á. Beint fyrir neðan er hringur um breiða sandbrekku. Hún gæti verið uppgróin en hvar er hún?

Tré4 CBeint fyrir ofan eru tveir hringir. Sá vinstra megin gæti verið af bæ nema um sé að ræða galla í myndinni og hægra megin við hann er lítið vatn. Það gæti svo sem verið Heiðarvatn sem áður var nefnt.

Svo er hringur milli minna vatnsins og þess stóra. Mér finnst eins og þau tengist, ekki að þarna sé vatnsfall heldur frekar þrenging. Getur þetta verið Sogið?

Loks er það merkilegasta og það er hringurinn lengst til hægri Þar glampar í vatn sem er enn fjær. Hugsanlega er það Þingvallavatn handan Mjóaness ...

Nú er þetta allt komið hér og ég leita þá til lesenda minna og kalla eftir glöggskyggni þeirra. Mín er ekki næg. Ef til vill þekkir einhver til á þessum slóðum eða þekkir fólk sem er eða var búsett þarna. Allar upplýsingar eru vel þegnar, þó ekki sé til annars en að róa huga minn.

Raunar er það ferlegt að vera svo upptekinn af svona smáræði að eyða laugardegi í göngu og myndatöku. Hins vegar er þetta bara hluti af áhugamálinu. Ágæt skemmtun í sjálfu sér ef maður fengin nú svar um hvar bannsett myndin var tekin. Og hver hefur ekki gaman að göngu og myndatöku?

 

 

 

 


Bloggfærslur 5. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband