Egill Helgason býr til gróusögu um Sjálfstæðisflokkinn

Einn undarlegast álitsgjafi landsins er Egill Helgason, vinstri maður í stjórnmálum. Hann segir á vef sínum (leturbreyting mín):

Ýmsum finnst sjálfsagt að einna stærstu tíðindin séu afhroð Davíðs Oddssonar. Hann varð í fjórða sæti með aðeins 13,7 prósent. Það eru ekki dæmi þess að svo þekktur og áhrifamikill maður bjóði sig fram til forseta á Íslandi og fái svo lítið fylgi. Þegar hann kom fyrst fram bjuggust margir við að hann myndi að minnsta kosti fara í 30 prósent. Sigur virtist þó alltaf fjarlægur. En kosningabarátta Davíðs var algjörlega misheppnuð – hún var mestanpart á neikvæðum nótum. Það var náttúrlega óhjákvæmilegt að kosningarnar snerust að miklu leyti um Davíð – einfaldlega vegna þess hversu stórt hlutverk hann hefur leikið í íslenskum stjórnmálum. En kosningarnar urðu í raun leiðinlegri og innihaldslausari fyrir vikið.

Þessu má að allt eins snúa upp á Egil. Hann er yfirleitt á neikvæðu nótunum, sérstaklega er varðar Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur sjaldnast sagt neitt jákvætt um þann flokk um leið og hann heldur fram ágæti vinstri flokka - svona yfirleitt.

Egill virðist ekkert hafa fylgst með kosningabaráttunni, kannski horft á einn umræðuþátt í sjónvarpi, ekki mætt á fundi hjá Davíð Oddssyni eða hlustað á hreyfimyndir frá honum né heldur lesið greinar hans. Davíð fær einfaldlega neikvæðnistimpilinn af því Egill telur hann geta verið réttlætanlegan. 

Ég hef sótt nokkra kosningafundi Davíðs og séð aðra á Fb og jafnvel átt þess kost að spjalla við hann. Verð að taka undir það sem Andri Snær sagði í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að Davíð er einstaklega ljúfur maður og kurteis í viðkynningu.

Fundirnir hans voru í einu orði sagt afar skemmtilegir og fróðlegir. Davíð ræddi um stöðu mála, gerði stólpagrín af sjálfum sér, sagði fjölmargar græskulausar gamansögur af fólki sem hann þekkti og nefndi stundum mótframbjóðendur sína og var ekki alltaf sammála þeim. Eðlilega.

Þegar upp var staðið af þessum fundum sat eftir hversu ánægjulegir þeir voru og hversu gaman er að hitta mann með slíka frásagnargáfu að hann gat fengið salinn til að liggja í hlátri sem og snerta viðkvæmari tilfinningar eins og þegar hann sagði frá móður sinni sem lést fyrr í mánuðinum.

Þetta veit Egill Helgason ekki vegna þess að Davíð á að vera vondur, frekur og leiðinlegur. Það er myndin sem vinstri menn hafa keppst við að draga upp af manninum. Egill er trúr þessum áróðri.

Svo smekklaus og kjánalegur er Egill að hann fullyrðir þetta:

Davíð á hóp ákafra stuðningsmanna sem eru undrandi og reiðir, þeir ofmátu algjörlega stöðu leiðtoga síns, ekki einu sinni Sjálfstæðismenn hlýddu þegar kallið kom. Það kæmi ekki á óvart þótt Davíðsflokkurinn hyggði á einhvers konar hefndir.

Ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður og er ekki reiður yfir úrslitum forsetakosninganna og ekki hef ég hitt stuðningsmann Davíðs sem er eitthvað fúll.

Og hvers ætti Sjálfstæðisflokkurinn að hefna? Þess að fyrrum formaður flokksins var ekki kjörinn forseti? Hvers konar bull er þetta í Agli? Þvílíkur asni er hann að halda þessu fram.

Staðreyndin er einfaldlega sú að stjórnmálaflokkur hefnir sín ekki vegna úrslita í lýðræðislegum kosningum. Þannig er það einfaldlega. Punktur.

Hefnd á aldrei við vegna þess að sá eini sem hægt er að áfellast eru kjósendur, að þeir hafi ekki kosið „rétt“. Eðli lýðræðisins er hins vegar svo einfalt og skýrt að allir kjósendur kjósa rétt.

Tilgangurinn með kosningum er ekki síður að sætta sig við niðurstöður kosninga. Eða dettur Agli í hug að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hafi verið gerðar í hefndarskyni vegna þess að hún tapað Iceseve málum í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Nei. Staðreyndin er einfaldlega sú að þetta er bull í Agli. Hann er einfaldlega heiftúðugur náungi og trúr andstæðingum Sjálfstæðisflokksins í áróðrinum gegn honum.

Þetta gæti verið satt, tautar Egil. Látum helv... neita þessu, hugsar hann eins og Nixon forðum daga. „Let the bastards deny it“.

Svo lætur hann þetta varða í bloggið sitt og er bara nokkuð ánægður með dagsverkið rétt eins og þeir sem nefndir eru „virkir í athugasemdum“ og mæra hann mest fyrir gáfuleg blogg.


Nýkjörinn forseti sat á gólfi með leikfangabíl og sagði brrrr og bíb

Kynslóðaskipti hafa orðið. Ungur maður hefur verið kjörinn forseti og hans bíða skemmtileg og áhugaverð verkefni sem hann leysir ábyggilega með sóma.

Ég man ekki eftir að hafa hitt Guðna Th. Jóhannesson nema einu sinni.

Þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík 1973 til 1977 kenndi faðir hans, Jóhannes Sæmundsson, íþróttir. Tvisvar eða þrisvar í viku fóru nemendur í litla herbergi sem kallað var íþróttasalur eða glímdu við tækin í kjallaranum, stundum var jafnvel hlaupið í kringum Tjörnina. Þetta voru skemmtilegir tímar, Jóhannes kátur og hvetjandi og vildi að við tækjum námið alvarlega og flestir gerðu það, oftar en ekki vegna þess að enginn vildi bregðast þessum ágæta manni

Ég sótti valfag í íþróttafræði hjá Jóhannesi. Það kom mikið á óvart að Jóhannes bauð okkur nemendum sínum heim til sín í kaffi, kakó og kökur og var tilefnið að afhenda okkur skjal til sönnunar um að við hefðum staðist prófið. Á móti okkur tók glæsileg eiginkona hans, Margrét G. Thorlacius, og á gólfinu léku sér tveir strákar með leikfangabíla og sögðu brrr, brrrrr og bíb, bíb. Annar þeirra hét Guðni og hinn Patrekur. Man ekki eftir að hafa séð Jóhannes, þriðja bróðurinn.

Þetta var í eina skiptið að kennari í MR bauð nemendum sínum heim til sín. Jóhannes var svo ljúfur og góður að ekki var hægt annað en að kunna vel við manninn. Hann fylgdist vel með nemendum sínum og þess albúinn að aðstoða langt umfram kennsluskyldu sína.

Jóhannes fæddist 1940 og lést 1983. Fjölmargir nemendur Jóhannesar minnast hans nú og samgleðjast fjölskyldunni á þessum degi er Guðni sonur hans hefur nú verið kjörinn forseti Íslands.

Í minningargrein um Jóhannes í Morgunblaðinu segir Guðni Jónsson, rektor MR:

Hann breyttir leikfimikennslu í íþróttakennslu og lagði mikla áherslu á að efla þrek nemenda og kenna þeim undirstöðuatriðin í mörgum greinum íþrótta, sem þeir mættu síðar nota til að viðhalda heilsu sinni og hreysti. [...)

Ekki síður ástæða til að geta glaðværðar hans og kátínu á kennarastofunni. hann var skemmtilega stríðinn, án þess að broddurinn færi of djúpt eða sæti eftir, og þó að stríðnir menn þoli oft mann verst stríðni, þá var því ekki svo farið um Jóhannes, hann gat tekið stríðni eins og vel og hann útdeildi henni.


Nýr forseti kjörinn

Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti íslenska lýðveldisins. Hann er vel að sigrinum kominn, heiðarlegur og vandaður maður. Ég óska honum til hamingju með sigurinn.

Mér er engin launung á því að ég studdi Davíð Oddsson. Tel hann hafa getað gengt embætti forseta Íslands með sóma. Davíð átti þó á brattann að sækja. Fjöldi manns hefur látið sannfærast að hann sé óalandi og óferjandi, höfundur hrunsins og hafi gert Seðlabanka Íslands gjaldþrota. Þannig tala þeir sem ekki þekkja til, láta aðra taka afstöðu fyrir sig.

Merkilegt er þó hvernig keppinautar Davíðs í forsetakjörinu tala um hann. Ekki eitt styggðaryrði frá Guðna, Höllu og Andra Snæ, þvert á móti. Sá síðast nefndi segir Davíð hið mesta ljúfmenni og meinti það innilega en bætti því líka við að Davíð hefði komið sér mikið á óvart.

Guðni telur að kosningabaráttan hafi farið drengilega fram og átti þá við mótframbjóðendur sína. Hins vegar segir hann að verra hafi verið að eiga við stuðningsmenn einstakra frambjóðenda sem hafi sumir hverjir beitt illum brögðum. Ljóst má þó vera að Guðni erfir ekki neitt.

Álitsgjafar í fjölmiðlum eru sumir hverjir skrýtnir og nýta hvert tækifæri til að gera lítið úr árangri Davíðs og reyna þannig að niðurlægja hann eins og kostur er. Auðvitað eru þetta pólitískar árásir manna sem reyna að tengja stjórnmál og forsetakosningar. Davíð gerði það ekki. Kosningarnar voru ekki á pólitískum nótum. Svo eru aðrir sem fullyrða að þær hafi verið það, benda á þá sem stóðu að framboði Guðna og störfuðu fyrir hann. Þetta er ekki síður rangt og fjarstæða.

Margir opinberir álitsgjafar skilja fæst nema eigið egó. Þeir átta sig ekki á því að hver einstaklingur er margbrotinn og margtengdur. Sá sem er flokkspólitískur á ættingja, vini, vinnufélaga, gamla skólafélaga og þessar tengingar ekki aðeins persónulega heldur einnig í gegnum maka og börn.

Afstaða fólks í forsetakosningunum getur því oltið á fjölmörgum og ólíkum þáttum. Hér eru nokkur dæmi:

Vinur minn sem er sjálfstæðismaður studdi Andra Snæ vegna baráttumála hans í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Annar góður vinur minn, gallharður sjálfstæðismaður, studdi og vann fyrir Guðna vegna þess að þeir eru gamlir bekkjarfélagar og hafa haldið vináttu frá því í menntaskóla.

Vinkona mín sem er sjálfstæðismaður studdu Höllu, ekki vegna þess að hún er kona heldur vegna tengsla við góða vini.

Og svo er það yngri sonur minn sem lét sannfæringakraft föður síns ekki hafa áhrif á sig heldur kaus Guðna sem hann telur skynsaman mann framtíðarinnar og verði land og þjóð til sóma.

Með svona dæmi í huga og raunar miklu fleiri verður maður aldeilis undrandi á skrýtnum álitsgjöfum sem fullyrða að Davíð hafi verið hafnað. Ekki enn skilja þeir eðli mála. Þeim sem náðu ekki kjöri var ekki hafnað, annar var valinn einfaldlega valinn af ástæðum sem jafnvel má rekja til þess sem segir hér að ofan.

Skítkast, fullyrða álitsgjafarnir, stjórnmálfræðingarnir sem nota þó ekkert af fræðum sínum til að sanna þessa fullyrðingu. Þessu er  best svarað með tilvitnun í hinn ágæta tónlistarmann Sverri Stormsker, sem sagði í grein á visir.is:

Davíð reyndi á einum tímapunkti að fá smá fútt í þetta með því að anda nokkrum staðreyndum á Guðna, en slíkt er stranglega bannað og er kallað “skítkast” og “árásir” af skítkastssérfræðingum kommentakerfanna.

Svo má benda á þá einföldu staðreynd að sjaldnast má Davíð Oddsson tjá sig. Þá er snúið út úr orðum hans og ... það sem verra er: Illa upplýsta fólki telur sig hafa skotleyfi á Davíð. Nei, nei. Þá er það ekki skítkast þó hraunað sé yfir manninn ávirðingum sem sjaldnast er nokkur fótur fyrir - það hefur bara heyrt eða lesið að svona sé það.

 

 


Bloggfærslur 26. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband