Gróðureyðing í nafni náttúruverndar

DSC_5843Um daginn hreyktu örfáir einstaklingar sér yfir því á Facebook að hafa reitt upp lúpínu á Bleikhól við Kleifarvatn í Reykjanesfólkvangi. Þetta var gert í nafni náttúruverndar.

Efsta myndin er af vegsummerkjum þessa fólks. Upprifin lúpínan liggur þarna út um allt, ekkert hreinsað í burtu, sem er svo sem allt í lagi. Lúpínan fellur hvort eð er á haustin, vex upp á ný vorið eftir og svo koll af kolli. Þannig verður til jarðvegur.

Og þetta góða fólk nennti ekki að gera meira, því sást yfir að efst á Bleikhól er vænlegur lúpínufláki sem á eftir að flæða niður hólinn, sjá mynd. Auðvitað er þetta ekkert annað en sýndarmennska hjá þessu fólki. Hins vegar er heiftin hjá þessu fólki út í lúpínuna undarleg, jaðrar við ofstæki.

DSC_5862Þegar ég ók þarna um síðasta laugardag sá ég ungmenni vinna hörðum höndum að loka rofabarði, sjá mynd. Þetta var örskammt frá Bleikhól, þar sem „náttúruverndarfólkið“ hafði rifið upp lúpínuna. Ólíkt hafast þau að, gamla náttúruverndarfólkið og ungmennin.

Og sjáið svo næstu myndir. Þær eru dæmigerðar fyrir gróðurfar í Reykjanesfólkvangi. Hvað eru svokölluð náttúruverndarsamtök að rembast við að vernda? Rofabörðin, holtin, melana, bert grjót og klappir eða bara gróðurleysið?

DSC_5808Sem betur fer er baráttan gegn lúpínunni gjörsamlega töpuð, hún á eftir að vaða um landið og gera það gróðurvænlegra.

Verkefni þjóðarinnar er hins vegar að fara í kjölfar hennar og gróðursetja tré og aðrar vænlega plöntur. Þannig nýtum við lúpínuna, eyðum henni um leið og klæðum landið og raunverulega breyta þannig veðurfarinu. Verkefni okkar er ekki að eyða þeirri plöntu sem hvað vænlegust er til uppgræðslu.

DSC_5858 BEkki gera sér allir grein fyrir því hvílík verksmiðja lúpínan er og hversu góð hún er í landgræðslu. Hún er þeim kostum búin að hún framleiðir köfnunarefni, nitur, úr andrúmsloftinu og auðgar jarðveginn með því. Fyrir vikið auðveldar hún öðrum jurtum lífið, gerir þeim kleift að vaxa á þeim stöðum sem enginn gróður hefur vaxið í hundruð ára. Ófrjóir melar blómstra með lúpínu og á eftir kemur annar gróður. Það er köfnunarefni sem íslenskan jarðveg vantar svo sárlega.

Takið til dæmis eftir áreyrum í Morsárdal þar sem lúpínan hefur auðveldað birkiskóginum að breiðast út. Sjáið Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn fyrir ofan Hafnarfjörð sem fyrr á árum hafði orðið uppblæstri að bráð. Þar var lúpínu sáð fyrir nokkrum áratugum og nú er þarna gróskumikil og fallegur birkiskógur og margvíslegur annar lággróður í frjósömum moldarjarðvegi sem að mestu er til kominn vegna hennar.

StrandakirkjaTakið eftir ævintýrinu í Heiðmörk fyrir ofan Reykjavík. Þar hefur verið sýnt fram á að lúpínan hafi stuðlað að auknum vexti gróðurs og síðan hafi hún hörfað. Þetta má glöggt sjá þegar bornar eru saman loftmyndir frá mismunandi tímum.

Hér er ekki úr vegi að vitna í Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, sem skrifaði eftirfarandi í lítill grein á visir.is:

ÚlfarsfellÞrátt fyrir ötult starf við uppgræðslu landsins í meira en öld er uppblástur enn helsta umhverfisógnin sem steðjar að okkur Íslendingum. Foksand verður að hefta og við beitum þeim aðferðum sem bestar þykja til að græða upp landið og endurheimta landgæði. Birkiskógurinn og kjarrið sem í fyrndinni klæddi landið er óðum að ná sér á strik, en næringarefnaþurrð örfoka lands hamlar þar mjög.

Á næstu áratugum og öldum munu ný landsvæði sem skipta munu hundruðum og þúsundum ferkílómetra koma undan hopandi jöklum. Afleiðingar loftslagshlýnunar verða ekki umflúnar og jöklarnir eru þegar teknir að rýrna eins og mælingar sýna glöggt. Ný svæði jökulleirs og fjúkandi sands koma því stöðugt fram og sandfok verður viðvarandi vandamál. Það þarf ekki eldgos til þó þau hjálpi vissulega ekki upp á sakirnar í þessum efnum.

Framskrið foksands verður ekki heft nema með uppgræðslu og gróðurþekju. Höfum það hugfast að þrátt fyrir allt þekja sæmilega heilleg gróðurvistkerfi enn ekki nema lítið brot af flatarmáli landins og okkar bíður því mikið starf við uppgræðslu. Þar mun alaskalúpínan áfram gegna miklu hlutverki, hvað sem mönnum kann annars að finnast um þá ágætu plöntu.


Ekki einkavæða Landsvirkjun, segir Davíð Oddsson

Ég er þeirrar skoðunar að við einkavæðingu eigi eitt meginatriði að gilda við skoðun á öllum málum: Er viðkomandi fyrirtæki sem er í þjóðareign, ríkiseign eða sveitarfélagseign með einokunaraðstöðu að einhverju tagi, þá fer ekki vel á því að einkavæða það.
Ef fyrirtækið er með raunverulega einokun á einhverju sviði þá er eðlilegra að það sé í opinberri eigu.

Þessa stórmerkilegu yfirlýsingu lét Davíð Oddsson frá sér fara á fundi í Grafarvogi þann 8. júní 2016. Raunar er hún hápólitísk og gengur þvert á það sem fjölmargir hafa haldið fram um skoðanir Davíðs á einkavæðingu.

Raunar var það svo að á fundinum kom fram fyrirspurn sem var um »einkavinavæðingu« Landsvirkjunar. Davíð lét ekki orðalagið trufla sig og svaraði afar skilmerkilega eins og sjá má. Hann lét þó ekki þar við sitja og bætti við:

Menn hafa verið að tala um alls konar samkeppni eins og í raforkugeiranum en hún hefur ekki átt sér stað. Talað er um að einhver samkeppni sé vegna Evrópu og hækka þurfi raforkutaxta hægt og rólega á fólkið í landinu af því að menn eru að undirbúa að það verði nægilega ódýrt að leggja rafstreng milli landa til að selja Bretum. Ég vil að menn geri það með opnari hætti og plati ekki fólk.

Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku.

Hér getur að líta allt aðra mynd af pólitískum skoðunum Davíðs Oddssonar en andstæðingar hans vilja vera láta. Líklega reka margir upp stór augu þegar Davíð segist á móti því að selja Landsvirkjun vegna þess að hún sé opinbert fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Er þetta ekki nóg einföld og skýr afstaða?

Látum almenning njóta arðsins af góðu gengi raforkuframleiðslunnar, segir Davíð og hafnar því að ríkið fái arðinn í einhvern sjóð til að »gambla« með. Er þetta ekki nógu skýr afstaða?

Greinilegt er að Davíð Oddssyni líst illa á sæstreng til Bretlands. Og hann hefur þó ekki einu sinni rætt um umhverfislegar afleiðingar sæstrengsins, allar virkjanirnar sem reisa þarf hér á landi til að hann sé fjárhagslega réttlætanlegur og ekki heldur meðfylgjandi rask á kostnað náttúru landsins.

Ágæti lesandi, vissir þú um þessar skoðanir Davíðs Oddssonar?

Ef ekki, hvers vegna?

Líklega er ástæðan sú að rödd Davíðs hefur ekki heyrst vegna hávaða. Andstæðingar hans hafa einfaldlega haft mikið fyrir því að rangtúlka það sem hann segir, endursemja söguna, eins og þeir sjálfir segja.

Einfaldasta og besta leiðin til að mynda sér skoðun á Davíð Oddsyni er að hlusta á manninn. Vissulega er hann umdeildur en það er allt annað mál. Hins vegar hafa andstæðingar hans yfirleitt farið rangt með orð hans og stefnu.

Ég er nærri því fullviss um að þú, lesandi góður, vissir ekkert um ofangreindar skoðanir Davíðs.


Bloggfærslur 21. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband