Stóri bróðir og fleiri fylgjast grannt með daglegum athöfnum

VeiturLandsleikurinn í gær setti greinilega venjubundnar athafnir algjörlega úr skorðum. Menn sátu sem límdir fyrir framan sjónvarpið. Þetta má sjá nokkuð nákvæmlega á vef Veitna sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.

Með línuritinu fylgir þessi texti:

Talsverðar sveiflur voru í notkun á köldu vatni meðan á landsleik Íslendinga og Portúgala stóð í gær. Knattspyrnufrótt fólk þykist geta lesið spennustig leiksins út frá sveiflunum sem líklega endurspegla klósettferðir Reykvíkinga meðan á leiknum stóð.

Á myndinni sem hérna fylgir sést rennsli um æðar vatnsveitu Veitna í Reykjavík frá klukkan þrjú síðdegis 14. júní þar til leiknum lauk, rétt fyrir klukkan 21:00. Ljósari liturinn sýnir vatnsnotkunina þriðjudaginn fyrr, 7. júní, til samanburðar.

Í aðdraganda leiksins dregur smátt og smátt úr vatnsnotkuninni og hún snarminnkar þegar flautað er til leiks. Eftir að Portúgalar skoruðu eftir um hálftíma leik kemur kippur í vatnsnotkunina sem bendir til þess að þá hafi nokkur fjöldi fólks þurft að létta á sér.

Þegar flautað var til hálfleiks og meðan á leikhléinu stóð er mikill kippur í notkuninni og nemur rennslisaukningin hátt í 50 sekúndulítrum.

Allt er þetta svo óskaplega fróðlegt en ... Svona upplýsingar hafa annað gildi en fyrir skemmtunina eina saman. Nei, þetta er ekki gagnslaus fróðleikur, miklu frekar getur hann verið óskaplega verðmætur eða með öðrum orðum hættulega verðmætur.

Draga má þær ályktanir af ofangreindu og öðru að fátt er það sem „stóri bróðir“ veit ekki um athafnir okkar. Hann veit um notkun á heitu og köldu vatni, rafmagni, tryggingum, síma- og tölvutengingum og niðurhali svo eitthvað sé nefnt. Auðveldlega má fá nokkuð nákvæma lýsingu á hegðun fjölskyldu með því að skoða ofangreint sem og jafnvel bera saman við aðra neyslu sem til dæmis kemur fram á notkun okkar á debet- og kreditkortum. Minna má á að bankareikningar okkar eru skattayfirvöldum bókstaflega opin bók.

Um leið og það er fáránlega gaman að skoða línuritið frá Veitum er ekki út vegi að íhuga hinar hliðar málsins. Hversu vel eru persónulegar upplýsingar varðveittar hjá skattinum, Veitum, OR og tölvu- og símafyrirtækjum? Er ástæða til að gera meiri kröfur en þegar eru gerðar?

Hvers vegna velti ég þessu fyrir mér?

Með nákvæmri greiningu á einstaklingum má skipta þeim í hópa, til dæmis eftir því hversu ábatasamt er að standa í viðskiptum við þá. Þessi hætta er fyrir hendi og þar með að sumir borgi meira en aðrir vegna kauphegðunar og/eða vörunotkunar.

Ég er áskrifandi að Meniga sem hefur aðgang að bankareikningunum mínum, debet- og kreditkortum, skoðar öll útgjöldin, flokkar þau og raunar færir heimilisbókhaldið mér til mikilla þæginda.

En ... fyrirtækið hefur allar upplýsingar um mig og tugþúsunda annarra. Hversu verðmætar eru ekki þessar upplýsinga fyrir viðskiptalífið? Á móti kemur að Meniga er mjög ábyggilegt fyrirtæki og fjarri því að hér sé verið að gefa eitthvað í skyn um reksturinn eða eignarhaldið.

Staðreyndin er hins vegar sú að sundurliðun á hagkvæmni viðskipta við neytendur er pottþétt afar verðmæt og í kjölfarið þrepaskipting á verðlagi. Nefna má að tryggingar gætu verið mismunandi eftir því hvernig heilsufari okkar er háttað. 

Er eitthvað því til fyrirstöðu að „stóri bróðir“ eða annar ættingi hans, tengdur eða ótengdur, taki til óspilltra málana og kanni þau?

 


Bloggfærslur 15. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband