Óteljandi fyrirbrigði talin

Eru Breiðafjarðareyjar óteljandi? Hér áður fyrr var svo álitið. Rétt eins og með vötnin á Arnarvatnsheiði og hólana í Vatnsdal. Allt mjög skáldlegt og fallegt, næstum rómantískt. Svo eru alltaf einhverjir sem þurfa staðreyndir, ekki „eitthvað á að giska“.

Bergsveinn Skúlason segir í afar fróðlegri bók sinni „Hrannarek“ að eyjarnar séu milli 2850 og 3000, allt eftir því hvað skuli telja með, en hærra verði þó ekki komist.

Álitamálið er auðvitað hvað eigi að telja til eyju. Eyjunum skipta Breiðfirðingar samkvæmt gamalli venju í nokkra flokka eftir stærð: Eyjar, hólma, flögur, kletta og sker.  

Nú hefur Þorvaldur Þór Björnsson, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar lagst í talningar og fundið út að eyjarnar eru rúmlega 3000 og er þær því fleiri en Bergsveinn áleit. Þess ber þó að geta að nútímatækni er mun öflugri en sá einfaldi kortagrunnur sem hann þurfti að styðjast við.

Listakonan Finna B. Steinson setti um 1995 eitt þúsund veifur á Vatnsdalshóla. Um var að ræða gjörning en líklega ekki talningu á hólunum. Gera má þá ráð fyrir að þeir séu fleiri en eitt þúsund.

Ekki er mér kunnugt um fjölda vatna á Arnarvatnsheiði enda ábyggilega vandinn sá að meta hvað er vatn, tjörn eða pollur. Vitað er að í þurrkatíð þorna sum vötnin upp. Viðbúið er að einhver forvitinn náungi er að telja vötnin.

Svona er þetta með allt. Ekkert fær að vera í friði, sem betur fer. Forvitni mannsins er engin takmörk sett. Allt það dularfulla sem við þekkjum fer fækkandi af því að við viljum vita fjöldann upp á hár.

Talandi um hár. Hverjum dettur í hug að telja höfuðhár. Það hefur þó verið gert. Á meðalmanni eru um 130.000 eintök, gæti verið plús eða mínus 20.000 eftir einstaklingum.

Hárin á höfði mínu eru 52.156 á höfði mínu samkvæmt síðustu talningu og er það talsvert undir meðaltali. Þeim fer fækkandi eins og öðrum undrum í náttúru Íslands, lundanum. Þetta er alvarleg höfuðhárfötlun en fyrir alla muni ekki segja að ég sé sköllóttur. Hárfötlun heitir það.

 

 


mbl.is Eyjarnar ekki lengur óteljandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband