Skítadreifarinn í vinnu en skynsemin í fríi

Sumt fólk er þannig innréttað að það leggst hart gegn ómálefnalegri umræðu annarra en stundar hana engu að síður eins og það fái borgað fyrir. Má vera að svo sé.

Stutt er í kosningar, framboðsfrestur runnin út og því ekkert til fyrirstöðu að fara með skítadreifarana út og bera á. Hópur alzheimerssjúklinga starfa sem sjálfboðaliðar á kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar [...]

Þeir voru í óða önn við að dreifa athyglinni frá því hve oft Davíð hefur gert í buxurnar með því að henda skít í alla aðra þegar ljósmyndara fréttastofu bar að garði nú í morgun.

Svona er viðhorf Kvennablaðsins, sjá hér. Auðvitað er þetta andstyggilegur áróður og lýsir þeim sem ritar meir og betur en þeim sem um er rætt.

Að baki álíka skrifum stendur klókt fólk sem veit nákvæmlega hvað það er að gera. Markmiðið er eins og fyrr að hamra stöðugt á því sama, að Davíð Oddsson sé óalandi og óferjandi. Áróðursbrögð af þessu tagi eru ekki ný hér á landi, þau þekkjast víða um lönd og reynst vel við mannorðsmorð.

„Afþvíbara“

Mannlegt eðli er ábyggilega talsvert brogað. Víða í samfélögum út um allan heim á fólk erfitt, ekki vegna eigin gerða eða aðgerðaleysis, heldur vegna annarra. 

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Þegar andstaða byggist ekki á góðum og skýrum forsendum og er endurtekin í sífellu er hún oftast nefnd einelti, og þannig var hún eitt sinn skilgreind. 

Áróður án málefnalegra forsendna gerir þá kröfu að allir taki afstöðu og það nægir yfirleitt að enginn sé til varna. Þannig er það á skólalóðinni þegar stóri sterki strákurinn lemur þann litla eða á samfélagsvefnum þar sem leitast er við að ata einhvern óhróðri. Oftar en ekki er ástæðan fyrir eineltinu „afþvíbara“.

Verstir allra eru þeir sem standa hjá og gera ekkert, meirihutinn sem horfir á andstyggðina en tekur ekki þátt. Í því er fólgin afstaða.

Engu að síður seytlast áróðurinn inn, jafnvel í gott og vandað fólk. Ástæðan er einföld. Fæstir leggja það á sig að grafast fyrir um sannleikann, falla frekar fyrir hálfsagðri vísu eða óhróðri af því að það er svo fyrirhafnarlítið. Þannig fær hálfsannleikurinn eða jafnvel lygin stöðuhækkun og verður óhrekjanlegur sannleikur.

„Fyrirsagnahausar“

Má vera að margir séu „fyrirsagnahausar“, fólk sem lætur sér nægja að lesa fyrirsagnir fjölmiðla eða hlusta á ágrip frétta. Þannig fæst auðvitað aldrei rétt mynd af neinu máli. Engu að síður virðist allt vera svo kunnuglegt, nánast þannig að sannleikurinn sé viðkomandi ljós.

Í grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Einbirni sögð lifa lengur“ segir: 

“Þeir ein­stak­ling­ar sem koma úr stór­um fjöl­skyld­um eign­ast færri börn og lifa skem­ur en þeir sem koma úr litl­um fjöl­skyld­um.“

Sá sem les fyrirsögnina og stutt ágrip af henni á mbl.is og sér vísað til Íslenskrar erfðagreiningar er sannfærður. Síðan kemur í ljós að fréttin er byggð á vafasömu forsendum en „fyrirsagnahausinn“ lætur sér það eflaust litlu skipta. Þetta er nógu sennilegt til að vera satt.

Skynseminni hleypt í frí

„Ef við kjósum Davíð Oddsson forseta Íslands“, segir í fyrirsögn á vefritinu stundin.is. Í greininni eru talin upp tólf atriði sem eiga að vera rök gegn því að kjósa manninn. Þar stendur þetta án nokkurs fyrirvara:

Við munum hafa kosið mann sem tímaritið Time taldi upp sem einn af 25 mönnum sem báru mesta ábyrgð á efnahagskreppunni 2008.

Þó höfundurinn beiti fyrir sig tímaritinu Time verður fullyrðingin ekki sannari enda kunnugt að svo ákaflega auðvelt er að ljúga með heimildum. Önnur atriði í greininni eru álíka sannfærandi og raunar erfitt fyrir lesandann að átta sig leyfi hann sér það yfirleitt. Sumum finnst nefnilega betra að gera eins og þeir sem horfa upp á atvikið á skólalóðinni, láta það bara afskiptalaust. Aðrir gefa skynsemi sinni leyfi til fjarvistar og leggja trúnað á óhróðurinn.

Stórmannlegra er hins vegar að skora eigin skynsemi á hólm og afla sér upplýsinga. Vandamálið er að við ofurefli er stundum að etja sem er stöðugur áróður. Hann birtist ekki aðeins í stríðsfyrirsögnum vafasamra vefrita, heldur hálfsannleikurinn, kvartsannleikurinn og skrökvið sem birtist svo víða. Verst af öllu er þó misnotkunin, fjölmiðill sem þykist vera trúverðugur en er ekkert annað en endurómur einkaskoðana þeirra sem skrifa í hann.

Skítadreifari um skítadreifara um ...

Má vera að rökræða byggist á því að nálgast sannleika eða besta hugsanlega niðurstöðu í hverju máli. Hún stendur hins vegar ekki undir nafni þegar óhróðri, hálfsannleika og lygum er beitt. 

Vandamálið er skítadreifarinn sem notaður er vegna meintrar notkunar annarra á skítadreifara. Þá verður niðurstaðan aldrei önnur en sú að jafnt lag af mykju leggst á umhverfið og óþefurinn veldur samfélaginu miklum vanda.

Lygar og óhróður gengisfellur umræðuna og hún hrapar niður á vafasamt plan, rökræðan gufar upp og krafan um málefnalega afstöðu hverfur. Þannig er verið að réttlæta ranglætið, gefa afslátt af sannleikanum til að koma höggi á mann, málefni eða hópa. Þetta getur aldrei gengið upp til lengdar og má í raun sjá víðar en í aðdraganda forsetakosninga. 

Verst af öllu er þó að sjá gott og heiðarlegt fólk tapa skynseminni og skokka með skítadreifaranum. Það getur ekki verið neinum manni holl lífsstefna.


Bloggfærslur 25. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband