Bjarni Benediktsson á móti línulögnum yfir Sprengisand

En ég hverf ekki frá þeirri skoðun minni að mér líkar illa og finnst hugmyndin raunar alveg ómöguleg. Ég get ekki séð það fyrir mér í framkvæmd, hugmyndin um háspennulínur yfir miðhálendið.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra á Alþingi í dag samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins.

Yfirlýsingin er afar ánægjuleg og kætir marga. Hún mun ábyggilega hafa taksverðar breytingar í för með sér í stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Margir kunna að segja að háspennulínur yfir Sprengisand sé frekar ómerkilegt en svo er hins vegar ekki. Línulögnin er stórmál, svo stórt að verði skoðun Bjarna ofan á í Sjálfstæðisflokknum mun hún hafa miklar og jákvæðar afleiðingar fyrir umhverfis- og náttúruvernd í landinu.

Landsvirkjun og Landsnet munu einfaldlega þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þau leggja fram tillögur um virkjanir eða línulagnir.

Þessi skoðun Bjarna verður ekki til af ástæðulausu. Staðreyndin er einfaldlega sú að yngri kynslóðir hafa kynnst landinu á allt annan hátt en þær eldri. Þær meta land ekki eftir því hversu það hentar til sauðfjárbúskapar heldur hvernig það er af náttúrunnar hendi og hversu vel það hentar til útiveru. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.

Eldra fólk naut síður útiverunnar, það var alið upp við mikla vinnu og lítinn frítíma. Frítíminn er nú miklu meiri og fjárhagsleg geta til ferðalaga er mikil og fólk nýtur þess.

Bjarni Benediktsson er hluti af þessum kynslóðum sem líta ekki á landið með gagnaugunum einum saman heldur hvernig má njóta þess.

Háspennulínur eru vissulega ekki varanlegar en þær eru mikið lýti á landi og síst af öllu til að fegra það. Ætlum við að njóta landsins án þeirra þurfum við að kosta talsverðu til. Og þá gerum við það.

Eftir þessi orð formanns Sjálfstæðisflokksins verður forvitnilegt að fylgjast með þróun mála. Ég mun örugglega standa þétt við bak formannsins í þessu máli eins og flestum öðrum.


Misnotkun viðtengingarháttar í fyrirsögn

Er ekki kominn tími til að blaðamenn Morgunblaðsins læri að nota viðtengingarhátt rétt? Donald Trump var, samkvæmt fréttinni, ekki að hvetja Kínverja til að „nauðga“ Bandaríkjunum heldur fullyrðir að það sé reyndin. Hér er vissulega alhæft um alla blaðamenn Moggans en auðvitað á þetta aðeins við örfáa þeirra.

Þar af leiðandi á ekki að nota viðtengingarhátt í fyrirsögninni heldur framsöguhátt. Rétt væri fyrirsögnin svona: Kínverjar „nauðga“ Bandaríkjunum.

Misnotkun viðtengingaháttar er svo algeng að hún vekur furðu. Svo virðist að hún hafi smitast til allra fjölmiðla landsins. Gæti verið að hér sé um að ræða yngri blaðamenn og sökin sé fyrst og fremst menntun þeirra sem hafi veið ónóg eða menntunarleysi. Hvort tveggja er nóg til að vekja upp ágengar spurningar.

Svo er það hin efnislega athugasemd við orð Donalds Trumps. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að þessi maður verði forseti Bandaríkjanna. Hann er eins og margir aðrir í mannkynssögunni sem sækja sér skýringar eftir hentugleikum, býr til blóraböggla.


mbl.is Kínverjar „nauðga“ Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesti ógæfumaður Íslandssögunnar síðan Axlar-Björn lifði

Hvað hafa stjórnmálafræðingar fram að færa sem öðru fólki er hulið? Verum sanngjörn, hugsum málið og leggjum svo svarið fram.

Sko, lögfræðingar túlka lögin, guðfræðingar véla um trúmál, veðurfræðingar rannsaka veðurfar, hagfræðingar ... tja þeir fjalla um efnahagsmál (held ég), kennarar huga að menntun unga fólksins, læknar sinna sjúkum og svo má lengi telja upp gagnlegar menntastéttir.

Ég fæ hins vegar ekki séð að stjórnmálafræðingar viti eitthvað meira en við hin. Hitt er þó alveg víst að margir þeirra kunna að klæða skoðanir sínar í ansi ásjálegan búning, eru ábúðafullir eins og veðurfræðingur fyrir framan veðurkortið, og eru þar með afar sennilegir - svona við fyrstu sýn (eða áheyrn).

Ekki vil ég gera lítið úr sagnfræðilegri þekkingu stjórnmálafræðinga eða skilningi þeirra á pólitík. Stundum virka þeir bara afar áheyrilegir í sjónvarpinu eða útvarpinu, þangað til að málin eru krufin aðeins meir. Hins vegar þarf oft mikla þekkingu til að sjá í gegnum sennilegheitin.

Ólafur Harðarson kemur til dæmis iðulega í kosningasjónvarpið og í fréttatíma til hans Boga vinar síns og þá kemur saman mikið vit. Svo mikil skemmtan er að hlusta á þá félaga að mann langar jafnvel til að hitta þá og sötra á koníaki og skiptast á skoðunum fram eftir kvöldi og nóttu.

Óli er hins vegar gamall Allaballi og Samfylkingarmaður og það litar flest af því sem hann segir. Þannig er vissara að draga upp fyrirvarann þegar hann messar, en það getur stundum verið fjári erfitt því hann er svo fjári sennilegur.

Fleiri álitsgjafa í stjórnmálafræðinni mætti nefna. Margir þeirra hafa í lengri eða skemmri tíma dvalið á stoppistöð flokka sem síðar hafa gengið í gegnum endurnýjaða lífdaga, málað yfir nafn og númer og þeir orðið eins og nýir.

Hiklaust koma þessir stjórnmálafræðingar svo fram í fjölmiðli ríkisins og segja okkur sauðsvörtum í nafni fræða sinna hvað sé og hvað ekki, gera það með sama sjálfsörygginu eins aðrir fræðingar spá rigningu á suðvesturlandi og slyddu fyrir norðan eða að stýrivextir þurfi að hækka eða lækka.

Af stjórnmálafræðingum held ég að Ólafur Harðarson, prófessor í Háskóla Íslands sé mesti óþurftarmaður Íslandssögunnar, Axlar-Björn „included“ ...

Af hverju ...? Jú, Óli vegur að mannorði fólks sér til vegsauka en hinn myrti fólk til fjár. Báðir hlutu frægð fyrir.

Þannig er þetta nú. Stjórnmálafræðingar segja svo sem ekki neitt, veltast frá einu í annað án þess að leggja nokkuð merkilegt fram umfram það sem við hin sjáum og vitum - nema auðvitað að þeir séu þátttakendur í pólitíkinni. Þá vantar nú ekki skoðanirnar, sleggjudómanna og jafnvel rökleiðslurnar - og þá hallar jafnan á pólitíska andstæðinga.

Ljósi punkturinn er hins vegar sá að allflestir eru þeir barngóðir, berja ekki konuna sína, halda með Liferpúl eða Júnætit í enska boltanum og sumir fara meira að segja í kirkju á sunnudögum. En það gerði nú Axlar-Björn líka og mörg átti hann börnin ...


Bloggfærslur 2. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband