Áróður stjórnarandstöðunnar í beinni útsendingu, frjáls ræðutími

Fyrir utan farsann með forsætisráðherrann hefur fólk líklega aldrei kynnst öðrum eins fíflagangi eins og einkenndi útsendingu Ríkisútvarpsins og Stöðvar2 meðan beðið var niðurstöðu um nýja ríkisstjórn. Þarna stóðu fréttamenn frá þessum fjölmiðlum og fimbulfömbuðu það sem þeir mundu um þróun stjórnmála síðustu daga.

Út af fyrir sig er það svo sem í lagi. Verra er misnotkun á tíma í beinni útsendingu þar sem stjórnarandstöðuþingmenn fá að tjá sig að vild, varpa út einhliða áróðri sínum og enginn er til andsvars. Ekki einu sinni svo að fréttamenn stöðvi þetta fólk í þvaðri sínu.

Með réttu hefði átt að halda áfram dagskrá þessara stöðva og síðan rjúfa hana ef eitthvað hefði verið að frétta.

Ég fullyrði að þetta er hrein misnotkun á aðstöðu. Stöðvarnar báðar skulu eiga skömm fyrir. 

Þeir sem vilja geta horft á þingmennina vafra um meðal fjölmiðlamanna í þeirri von að einhver vilji tala við þá og þannig komast þeir í mynd. Svandís Svavarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólína Kjerúlf, Guðmundur Steingrímsson, Björn  Valur, Árni Páll Árnason og fleiri og fleiri.

Þetta er eins og að sjá börn sem reyna að láta sjá sig þegar tekin eru viðtöl eftir fótboltaleik eða handboltaleik.

Skilur enginn á Stöð2 eða Ríkisútvarpinu þetta? Sér enginn ekki fíflalætin í þessu.


mbl.is Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er stjórnarandstæðingu góður álitsgjafi um ríkisstjórnina?

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, er grandvar og góður maður en sem álitsgjafi um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hann ekki góður. Hver vegna? 

  1. Hann er stjórnarandstæðingur
  2. Hann er í framboði til formanns Samfylkingarinnar

Hvort tveggja gerir það að verkum að hann er síst af öllu diplómatískur, þvert á móti herskár og kjaftfor.

Helgi hefur aldrei stutt ríkisstjórnina og er þar af leiðandi ekki góður álitsgjafi um stöðu hennar. Aldrei myndi Helgi segja að nóg væri að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segði af sér embætti og annar tæki við. Til að afla sér atkvæða í formannskjörinu spinnur hann af öllum mætti upp ávirðingar á ríkisstjórnina og þá flokka sem að henni standa.

Svo er ekki úr vegi að nefna það að Helgi Hjörvar var einn af þeim sem vildi eftir hrun að teknar væru upp nýjar og kurteislegri orðræður í íslenskum stjórnmálum. Hann átti auðvitað við alla hina, ekki sig sjálfan.


mbl.is „Þessir snúningar eru hvergi nærri nóg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn sem nýtur þriðjungs fylgis vegna ...

GallupPanamamálið tætir fylgið af stjórnarflokkunum: Ná ekki þriðjungi atkvæða

Þannig segir í „frétt“ á vefmiðlinum „pressan.is“. Líklega er hún rétt.Þá flögrar hugurinn að síðustu ríkisstjórn. Hvað skyldi hafa tætt fylgið af henni?

Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn hefur gert allt rétt, ekki misstigið sig í neinu máli. Auðvitað hefði hún mátt gera betur, til dæmis hækka eftirlaun, styðja betur við bakið á öryrkjum, stuðla að jafnara og betra húsnæðiskerfi og ekki síst afnema verðtryggingu lána og lækka vexti á húsnæðislánum.

Panamamálið hefur haft gríðarleg áhrif á stuðning við ríkisstjórnina og greinilegt er að hún kann ekki að koma því á framfæri sem vel er gert. Við öllum blasa persónuleg málefni forsætisráðherrans og konu hans. Og allt varð vitlaust.

Gott og vel. Rifjum upp árið 2012 en þá var fylgi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms komið niður fyrir þriðjunginn. Ástæðan var ekki neitt panama-mál, ekki slök almannatengsl, ekki einkamál ráðherra ... heldur allt hitt: Icesave, verðtryggingin, aldraðir, öryrkjar, heilbrigðismál, breyting á stjórnarráðinu, skattahækkanir og svo framvegis nær út í það óendanlega.

Já, þessi skrif eru einhvers konar réttlæting vegna þess að efnahagsleg staða landsins góð, það er staðreynd. Hún versnar ekki þó nýr forsætisráðherra setjist í stólinn við Lækjartorg. Hún myndi ekki einu sinni versna þó kosningar færu fram og nýr meirihluti tæki við stjórnartaumunum.

En drottinn minn dýri. Það yrði nú hrikalegt ef við fengjum aðra ríkisstjórn sem hefði það helsta vandamál að smala köttum eða kettlingum. Þá væri framtíðin dökk.

Lesandi gæti eflaust lesið sitthvað út úr meðfylgjandi línuriti sem ég hnuplaði af heimasíðu Gallup. Tel mig eiga það inni eftir að hafa verið í símasambandi og tölvusambandi við fyrirtækið síðustu vikur.

Jú, núverandi ríkisstjórn tapar greinilega fylgi. Ekki þó vegna skuldastöðu ríkissjóðs eða verðbólgu. Nei, vegna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, það er allt of sumt.


Byltingin er hafin, þa ebbara þannig ...

Byltingin 2Þa ebbarra auljost að byltingin er hafin ... þa ebbara þannig ... fólk er brjálað.

Þetta sagði greindarleg stúlka í beinni útsendingu í fréttatíma á Stöð2 klukkan 18:30 í gær. Hún var stödd í um eitthundrað manna hópi á Laugaveginum á leið upp að Háaleitisbraut 1, „auljoslega“ í mikilli geðshræringu enda vitni að einstæðum atburði í sögu þjóðarinnar.

Hún er eins og maðurinn sem stóð dag eftir dag á torginu með stórt skilti og á því stóð „HEIMSENDIR Á MORGUN“. Bæði trúðu eigin orðum.

Heimsendir er ekki enn kominn og byltingin ekki heldur.

Mikið skelfingar ósköp hlýtur fréttabarninu hafa þótt gaman að koma í vinnuna í morgun. Allt með sömu kyrru kjörunum og í gær.

„Góðir áhorfendur. Í gær var því haldið fram í fréttum okkar klukkan 18:30 að hafin væri bylting á Íslandi. Sú frétt reyndist ekki á rökum reist. Sigmundur Davíð fór með góðu, búið er að þvo eggin af veitingastaðnum „Kryddlegnum hjörtum“ sem og af Alþingishúsinu. Við biðjum velvirðingar á fréttinni. Ætlum aldrei aftur að láta hljóðnema í hendur á fréttabörnum.“

Þetta hefði verið almennileg leiðrétting á bullinu í gær.

 

 


Afsögn forsætisráðherra er ekki framhaldssaga

Eftir æsilega atburði gærdagsins var manni nokkuð skemmt en ekki lengur. Hversu oft getur sami maður „sagt af sér“ og „stigið til hliðar“. Ég veit ekki betur en að slíkt sé aðeins gert einu sinni, að minnsta kosti í einu.

Í sannleika sagt er kominn tími til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stigi nú á bremsurnar og segi hingað og ekki lengra. Samskipti forsætisráðuneytisins við fjölmiðla eru orðin að aðhlátursefni út um allan heim og það gengur ekki lengur.

Eitt af þeim grundvallatriðum sem hafa ber í huga í starfsemi stjórnvalds eru samskipti við almenning og fjölmiðla. Þau þurfa að vera í föstum skorðum og með sama yfirbragði og ásýnd frá degi til dags. 

Það er til dæmis ótrúlegt að forsætisráðherra geti þröngvað ráðuneytisstjóra og öðrum til að útbúa þingrofstilskipun og farið á Bessastaði og heimtað undirskrift forseta. Embættismenn ráðuneytisins eiga að vita betur, rétt eins og forsetinn, og fengið ráðherrann ofan af þessari ferð. Nei, þess í stað druslast þau með rétt eins og þau séu sammála ráðherranum í vitleysu sinni.

Nóg er að segja af sér embætti einu sinni. Tilgangurinn á að vera hinn sami hvort sem mælt er á íslensku eða öðrum tungumálum.

Nú er nóg komið. Afsögn forsætisráðherrans á ekki að vera framhaldssaga. Maðurinn á að vera farinn úr ráðuneytinu og annar tekinn við til bráðabirgða. Þegar forsætisráðherra fer til útlanda gegnir annar ráðherra störfum hans á meðan. Þetta er ekkert flóknara en það.

Fyrir alla muni, Bjarni Benediktsson, þessa vitleysu þarf að stöðva. Og þó fyrr hefði verið.

 


Bloggfærslur 6. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband