Enn saknar Ómar Ragnarsson SDG úr ekki-frelsisgöngunni

Fyrir rúmu ári birtust þrjár stökur hér á síðunni um fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar þjóðarleiðtogar leiddust um eina af götu Parísar til að votta frönsku þjóðinni samúð og stuðning í kjölfar hryðjuverkanna þar.

Þetta segir Ómar Ragnarsson í pistli á bloggsíðu sinni. Hann trúir því enn að allir málsmetandi forsætisráðherrar og þjóðarleiðtogar hefðu raðað sér fremstir í göngu þúsunda til varnar tjáningarfrelsinu. Þar hafi bara einn vantað, forsætisráðherra Íslands, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Gangan var samt tómt rugl. Samstöðuganga fyrirfólksins í París var ekki eins og fjölmiðlar vildu telja okkur trú um. Við fengum myndina af samstöðunni eins og hún birtist hér hægra megin á síðunni og við, lesendur fjölmiðla, táruðumst yfir góðmennskunni. Sáum þó marga þjóðarleiðtoga sem hingað til hafa ekki verið þekktir sem ákafir stuðningsmenn tjáningarfrelsins í löndum sínum og jafnvel ekki annars staðar. Það vakti engar grunsemdir, ekki einu sinni hjá Ómari Ragnarssyni.

Mótmæli í París2Ögmundur Jónasson, þingmaður, vakti athygli á heimasíðu sinni á vefsíðunni voltairenet.org. Þar kemur loksins fram að samstöðugangan var aðeins ómerkilegt PR trix. Hann segir á vefsíðu sinni:

Ég stóð í þeirri trú að leiðtogar rúmlega fimmtíu ríkja, auk fulltrúa einhverra ríkja til viðbótar, hefðu staðið í fararbroddi tveggja milljóna Frakka til stuðnings tjáningarfrelsinu eftir morðin í París í ársbyrjun.

Svo var ekki upplýsir vefsíðan voltairenet.org. Látið hafi verið líta útfyrir að forystufólkið hefði staðið í fararbroddi en veruleikinn hafi verið allt annar. Þessi mannskapur hafi mætt í hliðargötu til myndatöku en síðan ekki söguna meir.

Mótmæli í ParísEf til vill skiptir ekki höfuðmáli hvort stjórnmálamennirnir voru aðeins á myndum sem teknar voru til hliðar því þeir voru þrátt fyrir allt mættir til að sjást og tengjast samstöðufundinum. En ef þetta er aukaatriði þá gildir það varla um þögn fjölmiðlanna og samvinnu (samsekt?) þeirra í að klippa saman í eitt, fjöldann og forystumennina, og láta líta svo út að þeir hafi staðið í farabroddi fólksfjöldans. Þetta virðist nefnilega hafa kallað á natni og yfirlegu að láta allt líta út öðru vísi en það var!

Undir þessi orð Ögmundur tek ég fullkomlega. Þetta er ein mesta fréttafölsun sem ég man eftir í seinni tíð.

Þeir íslenskir sem gagnrýndu forsætisráðherra vissu að sjálfsögðu ekki um þetta ómerkilega leikrit sem sett var á svið í hliðargötu í París fyrir ljósmyndara og kvikmyndatökumenn eina. Allra síst hann Ómar, sem áfellist enn SDG fyrir að hafa ekki mætti í ekki-gönguna.

Í ljósi þessa er kannski ástæða fyrir Ómar að yrka aðra vísur í stað þessara, sem vissulega eru nokkuð skondnar og þess vegna birti ég þær hér:

Forystu Íslands féllust hendur.
Til Frakklands var þess vegna enginn sendur.
Héðan fór enginn yfir hafið
því enginn er betri en Sigmundur Davíð.

Við endalok valda hans enginn er skaðinn?
Og enginn mun þá koma í staðinn?
Þá verður það yfir efa hafið
að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

Nýju vísurnar mega gjarnan vera um þjóðarleiðtoga sem bókstaflega voru ekki allir sem þeir voru séðir. Og það skipti ekki nokkru máli þó SDG hafi ekki verið í París í ekki-göngunni, þetta var bara staða fyrir ljósmyndara, engin ganga, „PR-stunt“ eins og það er kallað. Og síðan ekki söguna meir, eins og Ögmundur Jónasson orðaði það.

 


Bloggfærslur 11. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband