Göngu- og hjólastígurinn sem vantar á Seltjarnesi

Þörf­in er mjög knýj­andi og við vit­um það al­veg. Við erum full­kom­lega meðvituð um umræðuna, ég hef bæði fylgst með á Face­book og svo er ég sjálf­ur í þessu hjólaum­hverfi og þekki þetta al­veg. Í umræðunni hef­ur aðeins verið að skjóta á mig og ég ætla að standa mína plikt.

Þetta segir Bjarni Þór Álfþórsson, forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness. Því ber að fagna að bærinn ætli að búa til hjólstíg frá umhverfis nesið. Það er löngu tímabært.

Hins vegar er það óskiljanlegt að göngu og hjólastígur skuli ekki vera lagður meðfram suðurströnd Seltjarnarness. Hér á ég við leiðina frá götunni Suðurströnd og með sjónum, sunnan Hrólfskálavarar og að Sörlaskjóli. Þar á Reykjavíkurborg að taka við og gera göngu- og hjólastíg framhjá Faxaskjóli og tengja við stígana við Ægissíðu.

Á þessari suðurströnd er kemst enginn um nema fuglinn fljúgandi, verulegur þröskuldur fyrir göngu- og hjólafólk. Þess í stað er því ýtt út á þrönga gangstétt við Nesveg með öllum vegamótum sem þar eru til gangandi og hjólandi fólki til óþurftar.

í fljótu bragði man ég ekki eftir að göngustíg með sjó vanti á neinum öðrum stíg á því landi sem telst til hins forna Seltjarnarness. Undaskil þó Sundahöfn og nágrenni.

Skora nú á Seltirninga að redda þessu og setja göngu- og hjólastíg þarna  á áætlun hjá sér. Sjá nánar á myndinni hér fyrir neðan. Gott er að tvísmella á hana til að sjá betur. Loftmyndin er frá Samsýn og má finna á ja.is.

Hjólastígur 2

 


mbl.is Hjólastígur löngu tímabær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðborg Reykjavíkur og menningararfurinn

mynd-19Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.

Þróun miðbæjar Reykjavíkur hefur mörgum verið áhyggjuefni í langan tíma. Svo virðist sem borgaryfirvöld hafi fallið í þá gryfju að leyfa alltof mikið byggingarmagn á lóðum sem orðið hafa til vegna skipulegrar úreldingar húsa. Verktakar hafa keypt gömul hús með það eitt í huga að fá að rífa þau og byggja ný og krafan er að hafa nýtingarhlutfallið á hverjum byggingarreit sem hæst.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skrifar afar áhugaverða og þarflega grein á vefsíðu sína og birtir sláandi myndir sem styrkja umfjöllun hans. tilvitnunin hér að ofan er úr greininni.

Í heildina er grein Sigmundar góð þó svo að hægt sé að gagnrýna einstök efnisatriði. Það skiptir ekki öllu máli. Staðreyndin er sú að í langan tíma hefur gömlum og menningarsögulegum húsum fækkað í Reykjavík. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur þekkir ekki lengur Reykjavík æsku sinnar. Húsin eru horfin, götunum er breytt, gömlu bryggjurnar rifnar og á hverjum lofastórum bletti er reynt að byggja til hins ýtrasta. Og svo rammt kveður að þessum stíl að borgin skipuleggur byggingar með engum bílastæðum. Hvaða skoðun sem fólk hefur á bílum og bílamenningu þá koma opin bílastæði í stað húsa.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var viðhorf fólks til gamalla húsa og byggðar mjög neikvætt. Þá átti að breyta öllu, henda því gamla og byggja nýtt. Tímamót urðu með Torfusamtökunum á áttunda áratugnum en þau spyrntu hraustlega við fótum, kröfðust þess að Bernhöftstorfan í Reykjavík væri vernduð. Samtökin opnuðu augu okkar margra sem. Víða um land saknar fólk bygginga sem rifnar voru einungis vegna þess að þau vöru gömul og talin fyrir.

Við þurfum að líta heilstætt á það sem við erum að gera og hvernig við viljum að þéttbýli og land þróast. Það gengur auðvitað ekki að við breytum þéttbýlisstöðum þannig að þau verði óþekkjanleg komandi kynslóðum ekki frekar en við breytum landi á sama hátt. Tæknin er slík að hægt er að byggja gríðarlega mörg hús og gjörbreyta þéttbýlinu. Jafnvel er hægt að eyða heilu fjöllunum og nota efnið til dæmis til landfyllingar úti í Faxaflóa.

Ég tek undir margt það sem Sigmundur Davíð segir í grein sinni, til dæmis eftirfarandi:

Áfram verða langflestar byggingar á Íslandi hannaðar í samtímastíl (módernisma). Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að ekki megi byggja í hefðbundnum stíl þar sem það á við, t.d. til að styrkja heildarmyndina. Allt er þetta spurning um samhengi. Það væri jafnfráleitt að byggja bárujárnsklætt turnhús í Ármúla eins og það er að byggja gráa kassabyggingu í gamla bænum.

Það er hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins, þess sem tengir okkur við sögu borgarinnar og gerir gamla bæinn að sérstæðum og aðlaðandi stað. Yfirvöld þurfa að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.

Hver skyldu nú viðbrögð borgarstjórnar verða við þessari grein forsætisráðherrans. Auðvitað óttast maður skítkast og ómálefnalegar aðfinnslur. En, alltaf má þó vona ...

Hún er sláandi þessi mynd sem hér er birt, en hún er úr grein Sigmundar.


mbl.is Gagnrýnir skipulagsmál í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma ábyrgð kennara og foreldra í byrjendalæsi

Byrjendalæsi er umtalaðasta nýyrðið þennan ágústmánuð. Í gamla daga var einfaldlega talað um að læra að lesa. Það var minnir mig ekkert mál. Dálítið stagl að muna stafi, kveða rétt að þeim og svo small þetta svo einstaklega vel saman að síðan hefur maður getað lesið sér til gagns og ánægju. Ég minnist þess ekki að hafa rekist á nein vandamál þegar maður var að kenna börnunum sínum að lesa.

Núna er lestrarkennsla að því er virðist vera orðið gríðarlegt vandamál en ekki einfalt verkefni. Í þokkabót virðast stjórnvöld og stofnanir deila um hvernig eigi að kenna börnum að lesa og ekki síður um árangurinn.

Staðreyndin er þó sú að börn læra að lesa. Fyrst þarf að kenna stafina og þá þarf að leggja á minnið. Svo þarf að kenna hvernig stafirnir mynda orð. Börn eiga ekkert val um lestrarnámið, þau eiga að hlýða. Flóknara er það ekki nema fyrir það hlutfall barna sem eiga í raunverulegum erfiðleikum og þá þarf að taka á þeim sérstaklega án þess að yfirfæra þá erfiðleika á börn sem gengur vel.

Vandinn lýtur hins vegar að þjóðfélagin í heild sinni, samkeppninni um athygli barna. Fjöldi barna lesa ekki lengur bækur, fá enga æfingu í lestri nema í gegnum einfalda tölvuleiki eða kennsluforrit. Svo virðist sem foreldrar halda ekki bóklestri að börnum og ekki heldur kennarar. Þetta veldur margháttuðum vanda, orðaforðinn minnkar, tilfinning fyrir móðurmálinu hverfur smám saman, hæfni í ritgerðasmíði verður lakari, hugsunin verður ekki eins skýr og nákvæm, þekkingarbanki einstaklingsins vex ekki og fleira mætti til taka.

Auðvitað eiga foreldrar að hafa forgöngu um að kenna börnum að lesa og síðar vinna með skólanum, vekja áhuga þeirra á bóklestri. Geri þeir það ekki er auðvitað komið vandamál. En þvílík ómenning og skepnuskapur er að nenna ekki eða gefa sér ekki tíma til að sinna barni sínu í námi þess.

Ég hef rætt við fjölmarga foreldra og sú kenning er uppi að þau börn sem eiga í erfiðleikum með lestur, byrjendalæsi, er ekki sinnt sem skyldi af foreldrum þeirra og kennurum.

Boðskapurinn til stjórnvalda og ekki síst til kennara er einfaldlega þessi: Hættið að tuða í börnunum. Takið foreldrana til skoðunar og kennið þeim að styðja við bakið á börnunum. Í því er lausnin fólgin. Börnin geta yfirleitt það sem fyrir þau er lagt.

Gæti verið að ég sé að einfalda málið of mikið? Nei, það held ég ekki. Foreldrar og kennarar bera ábyrgð á menntun barna. Punktur.

Geti þeir ekki unnið saman er illt í efni. Munum þó að fólk er mismunandi, skiptir engu hvaða störfum það gegnir. Ekki hafa allir hæfileika, leikni, gáfur eða getu til að vekja áhuga barna. Og drottinn minn dýri, ekki eru öll börn yndisleg og elskuleg. Erfðir og uppeldi barna og ekki síður foreldra gera það stundum að verkum að allt fer í handaskolum.

Börnin sitja uppi með foreldra sína og þeir með börnin sín. Kennarar eru hins vegar ekki nein erfðafræðilega né guðleg forsjón og þeim má auðveldlega skipta út.

Sé árangur barna í lestri og öðru námi slakur á fyrst og fremst að beina sjónum að foreldrum og kennurum þeirra.


Bloggfærslur 27. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband