Þingflokkurinn setur Sjálfstæðisfólk í vonda stöðu

Í þau fimmtíu ár sem þessar stórstígu framfarir hafa átt sér stað hefur baráttan verið stöðug. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystuhlutverki í innleiðingu framfara í íslenskum atvinnuháttum. Í dag stendur yfir enn ein orrustan um nýtingu orkuauðlinda til eflingar íslensku samfélagi, aukna verðmætasköpun, aukin tækifæri og fjölbreyttari störf fyrir ungt fólk. Það má segja að sömu öfl takist á nú og hafa tekist á um þessi mál síðustu áratugi. Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir þeim mikilvægu ákvörðunum sem við stöndum frammi fyrir.

Við erum víst í sama Sjálfstæðisflokknum, ég og Jón Gunnarsson, þingmaður suðvesturkjördæmis. Hann skrifar grein í Morgunblað dagsins, langa grein, og nefnir marga til sögunnar eflaust til þeirrar réttlætingar virkjana sem hann stendur fyrir. Hér fyrir ofan er klausa úr greininni.

Fimmtíu ár er langur tími og margt hefur breyst til hins betra á þeim árum. Eðlilega breytast viðhorf og nýjar kynslóðir koma til sögunnar sem hafa alist upp við önnur gildi en forfeðranna. Þó svo að flestir átti sig á gildi raforkunnar fyrir þjóðina og að brýnt sé að virkja eru skoðanir fólks nú orðið skiptar hvað varðar umhverfismál. 

Vænt er það sem vel er grænt“, var almennt viðhorf hér áður fyrr. Landið var fyrst og fremst metið til ræktunar. Þessi skoðun hefur látið undan síga vegna þess að aðrar atvinnugreinar hafa komið til auk þess sem sívaxandi hluti þjóðarinnar stundar útiveru, ferðalög og náttúruskoðun sér til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar. Þetta fólk er án nokkurs efa hlutfalslega jafn fjölmennt í Sjálfstæðisflokknum sem í öðrum flokkum. Við erum Sjálfstæðifólkið sem vill fara varlega í orkunýtingu vegna þess að við viljum ekki spilla landinu.

Jóni Gunnarssyni, þingmanni, kann að koma það á óvart að við erum fjölmargir sjálfstæðismennirnir sem munum standa upp og verja ýmsa staði sem ætlunin er að virkja. Okkur skiptir það litlu þó hann reyni að gera málin flokkspólitísk. Ég lít ekki á þá sem vilja verja einstaka staði á landinu með þeim augum. Þeir eru fjölmargir sem vilja verja Langasjó, Hólmsárlón og Hagavatn, svo dæmi sé tekið. Og gleymum ekki víðernum landsins sem óðum minnka.

Vel má vera að síðasta ríkisstjórn hafi verið með allt niðrum sig vegna rammaáætlunar, breytt henni án nokkurs samráðs og síðan lagst gegn breytingum núverandi ríkisstjórnar. Um það snýst ekki málið. Aðalatriðið er landið okkar. Enginn stjórnmálamaður, þingflokkur eða ríkisstjórn getur krafist þess að við fylgjum honum í blindni. 

Krafa dagsins er hins vegar sú að rétt sé staðið að málum. Sýn Einars Benediktssonar á fallvötnin er ekki sú sem við höfum í dag, tímarnir hafa breyst og viðhorfin líka.

Jón Gunnarsson vitar til Jónasar Hallgrímssonar sem sagði einhvern tímann:

Óskandi væri að Íslendingar færu að sjá, að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, slíta í sundur samfélag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta, sem orðið getur, í stað þess að halda saman og draga allir einn taum. Hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.

Þessum orðum má allt eins snúa að Jóni sjálfum og spyrja hvers vegna hann hafi forystu um þá vegferð að slíta sundur friðinn í stað þess að velja farsælli leið að samstarfsmönnum sínum á þingi og þjóð sinni og hugsa um heiður og velgegni landsins.

Hins vegar er Jón Gunnarsson ekki einn því að baki hans stendur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og það er hann sem hefur sett okkur marga flokksmenn í slæma stöðu, svo slæma að varla er hægt að verja stefnu hans hvað varðar virkjanir. Aungvar þakkir kann ég honum fyrir það.


Bloggfærslur 26. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband