Elta mann, elta draum, elta ís eða elta skinn ...

elti draum

Hversdagurinn í lífi mínu byrjar yfirleitt á því að lesa Morgunblaðið og fréttavefi. Æ oftar gerist það að ég rekst á villur bæði í málfari og stafsetningu. Þá er skammt í ólundina, því ef ég sé villur, hljóta aðrir að sjá miklu fleiri og alvarlegri. Eða þegir fólk bara og lætur sem það sjái þær ekki?

Í blaði dagsins rak ég mig á nokkurs konar eltivillur, slæma notkun blaðamanna á sögninni „að elta“.

Á forsíðu helgarblaðsins segir „Elti drauminn til Cannes“. Ég held að maðurinn á myndinni hafi ekki elt eitt eða neitt. Hann hafi einfaldlega látið eftir löngun sinni og haldið til borgarinnar Cannes í Suður-Frakklandi enda ku það hafa verið draumur hans að gera þar eitthvað sem nánar er sagt frá í viðtalinu.

Elta ísinnEnskir segja jafnan: „He followed his dream“. Í hvorugu tilvikinu því íslenska og enska voru einhvurjir „að elta“ draum sinn. Draumur er ekki eins og rolla eða galinn hundur sem erfitt er að handsama. Ófáir hafa elt innbrotsþjóf, ástina sína, fararstjórann, forystumann eða bara næsta mann og jafnvel haft eitthvað upp úr því. Útilokað er að elta draum því hann er ekki áþreifanlegur.

Blaðamaðurinn sem skrifaði viðtalið og þar með fyrirsögnina hefur ábyggilega verið með enska frasann í huga en ekki áttað sig á því að ekki má þýða hann beint yfir á íslensku. Enska sögnin „to follow“ hefur nefnilega fjölbreyttar merkingar og aðall góðs þýðanda er að skilja þær. Sama er með blaðamanninn, hann verður að hafa tilfinningu fyrir íslensku máli og það sem skiptir meira máli er að ritstjórinn eða fréttastjórinn lesi yfir það sem frá blaðamönnum kemur, gagnrýni og leiðrétti. Að öðrum kosti lærir enginn neitt. Og nú geng ég út frá því sem vísu að ritstjórinn eða fréttastjórinn hafi einhverja þekkingu umfram blaðamanninn sem kann að vera rangt eða hitt sé líklegra.

Og svo var það hinn blaðamaðurinn á Mogganum sem klikkaði á sama grundvallaratriðinu í fyrirsögn sinni. Hún er þessi: „Eltu ísinn um alla Evrópu“. Þetta hlýtur að hafa verið fótfrár og útsjónarsamur ís en ég get ímyndað mér að það hafi verið frekar ógeðfellt að leggja hann sér til munns eftir allan eltingarleikinn um heimsálfuna.

Nei, að öllum líkindum segir í greininni frá fólki sem bragðar ís víðs vegar um Evrópu. 

Hvorki er hægt að elta ís né draum. Það er einföld staðreynd. Önnur staðreynd er sú að fjöldi fólks skrifar og talar í fjölmiðla og lætur málfarið sér í léttu rúmi liggja eða er bara illa að sér. Fyrir vikið er gríðarleg hætta á því að tungumálið breytist, verði órökrétt og glati um leið fjölbreytni sinni og gæðum.

Mér dettur í hug í þessu sambandi hvort fólk viti hvað sé að elta skinn. Það var að minnsta kosti gert út alla Evrópu og raunar víðar. „Elti skinn út um alla Evrópu“ væri ágætis fyrirsögn en sá sem hún segir frá elti þó engan mann.

Að þessum orðum slepptum er tímabært að kveðja, þó á sama hátt og galið og hugsunarlaust fólk segir: „Hafðu góða helgi“ ...

Hvers konar kveðja er þetta ef ekki sú hin sama öfugsnúin af ensku: „Have a nice weekend“? Fyrrnefnda skipunin glymur í eyrum manns í verslunum, útvarpi, sjónvarpi, í laugunum, á fótboltavellinum og annars staðar hugsandi fólki til mikillar gremju en hinir eru stóreygir og ekki laust við að tár renni.

Sleppum bara að nafna helgina eða daginn, segjum einfaldlega „Hafðu það gott“ eða „Vertu bless/blessaður“, „Vertu sæll“ (skiptir engu máli hvort fólk viti hvaða þessi blessunarorð eru komin).

Hvers vegna að breyta gamalli og góðri kveðju? Hverju erum við bættari með skrípinu „Hafðu góðan dag“?

Norðmenn segja: „Ha det“ og eiga við „Ha det bra“, hafðu það gott. Værum við Íslendingar ekki önnum kafnir við að apa upp úr enskri tungu mætti ugglaust búast við því að hugsunarlausir landar mínir hreyti í mann: „Hafðu það“.

Já, hafðu þetta, helvískur, sagði karlinn og gaf öðrum á kjaftinn (gaf honum gu'moren, var oft sagt (en er löngu aflagt (það er að segja danskan en ekki kjaftshögg)))(hér eru nú svigar ofan í svigum en þó ekki svigurmæli).


Bloggfærslur 23. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband