Hvar var maðurinn þegar refurinn nam land á Íslandi?

RefurBóndinn á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp er einn helsti andstæðingur refsins á Íslandi og hefur skrifað ótal greinar í Morgunblaðið honum til höfuðs og hvetur stjórnvöld af öllu tagi til að láta drepa dýrið, skaðvaldinn sem getur átt það til að drepa mófugla, sjófugla, þar með talinn æðarfuglinn, og ekki síst sauðfé.

Mér finnst alltaf jafngaman að lesa greinar eftir Indriða Aðalsteinsson, á Skjaldfönn. Hann er merkilega kjaftfor og tekst oft að tvinna saman í einni grein margvíslegar ádeilur, til dæmis þessa í lok greinar sinnar í Morgunblaði dagsins sem hann kallar „Tíu þúsund ríkisrefir“:

En þetta er bara í takt við aðrar yfirtroðslur og lítilsvirðingu að sunnan í garð okkar Vestfirðinga. Fiskauðlindinni að mestu rænt, jarðgöng til að losna við manndrápshlíðar fá og seint, nokkrar birkikræklur í Teigsskógi látnar standa í vegi fyrir að Barðstrendingar komist í viðunandi vegasamband og nú vofir þjóðlenduskrímslið yfir okkur, til a ná vatnsréttindum undir sig.

Semji nú aðrir álíka ádeilu í einfaldri grein sem fjallar þó eingöngu um refi.

Jú rebbi lifir á Hornströndum sem er friðland. Þar segir Indriði að refakynið blómgist og ekkert sé um mófugla og jafnvel sjófuglar séu í útrýmingarhættu. Ég held að þetta sé tóm vitleysa í bóndanum.

Rebbi kom til Íslands þúsundum ára áður en fyrstu landnámsmenn komu hingað til lands með sauðfé. Fram að landnámi hafði rebba ekki tekist að útrýma mófugli eða öðrum fyglum og var þó landið allt undir, friðað. Enginn sinnti grenjavinnslu og rebbi fékk án nokkurra vandræða að valsa um landið og éta það sem hann vildi, þó ekki lambakjöt. Eða voru vandræðin næg í lífi rebba, rétt eins og í dag. Líklegast er það svo að náttúran stemmi stigu við offjölgun dýra og fugla.

Greinar Indriða á Skjaldfönn eru hins vegar alltaf skemmtilegar og fáir sem komast með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað varðar þekkingu, rökvísi og vandað íslenskt mál.

 

 


Kjaradeilurnar eru leikrit og ekki sæmandi í nútíma þjóðfélagi

Upplýsingar um kröfugerð launþegafélaga er farin að vera ansi knýjandi. Í stað þess að þau segi hreinlega frá hvers er krafist er rætt um það í einhverjum orðavaðli. Þar ber hæst talið um laun fyrir þá sem lægst hafa launin.

Ég get svosem samþykkt að við sem höfum lægstu launin fáum einhverja hækkun. Málið snýst hins vegar ekki um það, eftir því sem ég fæ best séð, miklu heldur almennar launahækkanir fyrir alla, ekki síður hina launahærri.

Upplýsingin er til dæmis fólgin í eftirfarandi og þá er ekki aðeins verið að tala um VR heldur öll launþegafélög. Almenningur þarf að vita meira en það sem fjölmiðar bera á borð, til dæmis þetta:

  1. Hversu margir eru með laun undir 250.000 krónur og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá?
  2. Hversu margir eru til dæmis með 250 til 300.000 króna laun á mánuði og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá.
  3. Hversu margir eru með laun frá 300 til 600.000 krónur, sundurliðað miðað til dæmis við hverjar 50.000 krónur og hverjar eru launakröfur fyrir þessa hópa, sundurliðað.
  4. Hversu margir eru með hærri laun er 600.000 krónur og hverjar eru launakröfurnar fyrir þá, sundurliðað á sama hátt.

Vitræn umræða um kjarasamninga og verkföll er útilokuð nema svör fáist við þessum eða álíka spurningum.

Fjölmiðlar hafa gjörsamlega brugðist almenningi, standa alls ekki undir kröfum sem til þeirra eru gerðar. Þess í stað leika þeir sér með fréttir frá Alþingi, af því að þeirra er auðveldara að afla. Um leið taka þeir flestir afstöðu í kjaradeilunni þannig að útilokað er að átta sig á staðreyndum mála. Þeir hafa verið einstaklega duglegir að rugla almenning í stað þess að upplýsa.

Launþegafélög og Samtök atvinnulífsins þegja um kröfugerðirnar og svo virðist að samantekin ráð séu um að segja sem minnst um þær, tilboð og gagntilboð. Ekkert lekur út nema orðavaðallinn, gjörnýttir frasar frá fyrri árum sem snyrtir eru af fjölmiðlafulltrúum.

Þess í stað fáum við fréttir af því liði sem stendur . Myndir af köllum og kellingum með þykjustusvip og þykjustuþykkju um gang viðræðnanna. Takið samt eftir að enginn veitir neinar upplýsingar nema innantómt tal og gamaldags frasa um stéttabaráttu, verkalýð (sem raunar fæstir teljast til nú til dags) og álíka „kjaftæði“. Frá Samtökum atvinnulífsins er sömu sögu að segja. Þar fárast menn yfir kröfugerðinni og líkum á að allt fari í kaldakol, verðbólgudraugurinn vakni og álíka hræðsluáróður. Fjölmiðar gera ekki neitt og þess vegna fær þetta lélega leikrit að halda áfram dag eftir dag.

Ég samþykki ekki svona málflutning og síst af öllu þessa hegðun sem er ekkert annað en lélegt leikrit sem mestan part er flutt af fólki sem framar öllu virðist hvorki hafa vit eða skynsemi til að láta hlutina ganga upp, semja. Þetta allt er leikrit sem samið var í árdaga og er nú endurflutt með sáralitlum breytingum. Jafnvel hurðaskellirnir og þykjustusvipirnir eru eins og hjá Guðmundi Jaka í gamla daga, með fullri virðingu fyrir minningu hans.

Staðreyndin er einfaldlega sú að án skynsamlegs launakerfis sem almenn sátt er um er ekki hægt að reka hér þjóðfélag. Grunnurinn gengur út á peningaflæði á milli manna, fyrirtækja og stofnana þjóðfélagsins. Sé hluti fólks svo launalágur að hann geti varla veitt sér annað en nauðþurftir bitnar það á skatttekjum ríkisins, öllum tegundum verslunar og viðskipta, samgöngum, menningu og svo framvegis.

Þetta er ekki lengur deila um ljótu, ríki kapítalistana sem ekkert vilja annað en halda okkur almenningnum á sem lægstu launum. Slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp í þjóðfélagi nútímans.

Verkföll eru hins vegar ekkert annað en ofbeldi og skemmdarstarfsemi sem ekki á að líðast í númtímaþjóðfélagi. Stærsti gallinn er sú staðreynd að þau beinast að þeim sem brúka þau.

Um tíma hélt maður að nýjar kynslóð, vel menntað og upplýst fólk, hefði tekið við í launþegafélögunum og hjá atvinnurekendum. Því miður virðist að nýja fólk sé jafn þröngsýnt, óskynsamt og illa gefið eins og forverar þess á þeim síðustu áratugum sem maður man eftir í kjaradeilum með þeirri undantekningu sem þjóðarsáttarsamningarnir voru.

Nú er eiginlega nóg komið af þessu framhaldsleikriti.

 


mbl.is Viðræðuslit og allt í hnút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband