Helgi Seljan, bjórinn og búðirnar

Þegar ég á minni þingtíð barðist gegn innleiðingu bjórsins þá var ætíð allgóður meirihluti alþingismanna sem hafði allan vara á sér varðandi það að leyfa bjórinn. Það fóru oft fram umræður með og móti og svo ég nefni nöfn þá voru þar til andstöðu menn sem rökstuddu vel afstöðu sína eins og Stefán Valgeirsson, Sverrir Hermannsson, Svavar Gestsson og Karl Steinar Guðnason svo einhverjir séu nefndir, en máski er Oddur Ólafsson, fv.yfirlæknir Reykjalundar, mér hvað minnisstæðastur, sem hrakti ýmsar þær bábiljur, sem hafðar voru í frammi, með hógværri rökfestu sinni.

Svo ritar Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður, í Morgunblað dagsins. Hann ritar um áfengismál og sölu þess utan ríkisverslana. Helgi er bindindismaður og barðist lengi fyrir skoðunum sínum á launum frá Alþingi, rétt eins og gengur og gerist. Um síðir var hann ofurliði borinn og bjórinn var leyfður á Íslandi. Það voru merk tímamót.

Margt þykir mér betra en bjór en á góðri stundu er sá mjöður engu líkur. Kaldur bjór eftir góða fjallgöngu er miklu betri en snafs þó hvort tveggja kætir geð í góðum hóp.

Sem betur fer voru afturhaldslögin sem bönnuðu bjórinn afnumin. Með því var það lagt dóm hvers og eins hvort hann drykki bjór og annað áfengi. Ekki lengur ráða bindindismenn neyslu annars fólks.

Vissulega fara sumir flatt í drykkju sinni og geta skaða bæði sjálfa sig og aðra. Þannig er það um margt annað sem við neytum, að það getur skaðað okkur og valdið líkamlegu tjóni sem og fjárhagslegu. Nærtækast er að benda á hömlulausa sykurneyslu landans en Ómar Ragnarsson kallar sykur fíkniefni og ég held það sé rétt hjá honum.

En þegar þessar viðvörunarbjöllur hringja sem ákafast þá rísa upp alþingismenn hér heima sem heimta meira böl af völdum áfengisins, trúlega til að komast nokkuð nærri þeim þjóðum sem áður eru taldar sem dæmi um þær þjóðir sem snúast nú til varnar gegn váboðanum. Það andvaraleysi er ótrúlegt þegar gengið er gegn öllum heilbrigðismarkmiðum, hvort sem litið er til yfirlýstrar stefnu íslenzkra stjórnvalda eða til alþjóðlegra heilbrigðisstofnana sem telja aukið aðgengi að áfengi beina ávísun á enn meiri neyzlu, enn meira böl. Ég ætla rétt að vona að Alþingi sé ekki svo heillum horfið að samþykkja þessi býsn, að ganga svo erinda hins grimma markaðar sem í þessum efnum skeytir hvorki um skömm né heiður.

Hér á Helgi Seljan við hugmyndir um að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég sé ekkert að því fyrirkomulagi enda hef ég farið víða um heim og búið meðal annars þar sem áfengi er í matvöruverslunum, við hliðina á annarri neysluvöru. Ég skil illa hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu eitthvað öðru vísi en aðrar þjóðir og geti ekki umgengist áfengi eins og þær.

Frá því bjórinn var leyfður hafa komið nýjar kynslóðir sem kunna að fara miklu betur með áfengi en sú kynslóð sem Helgi Seljan tilheyrir. Ég hef sagt mörgum af atburðum sem ég upplifði er ég var fararstjóri í útlöndum um tíma. Þá var það unga fólkið sem var yfirleitt sér til mikils sóma en það eldra, fólkið sem ólst upp án bjórsins, var sér til mikillar skammar með áfengisneyslu sinni.

Svo er það hitt sem ég skil ekki. Er það eitthvað lögmál sem segir að ríkisverslun með áfengi stuðli að minni neyslu þess en verslun í einkaeigu?

Annars verður það ekki af Helga Seljan tekið að hann skrifar góðar greinar vandar mál sitt. Ég er bara ekki alltaf sammála honum.

Og nú mun ég eflaust fara í ríkisverslunina og kaupa nokkra bjóra í tilefni dagsins. Skola þeim svo niður eftir gönguferð.


Bloggfærslur 25. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband