Helvítis veður væl ...

Horfi út um stofugluggann...um hvað á ég að skrifa...hvað er að frétta? Það er ekkert að frétta. Ekkert breytist. Allt er eins. Helvítis veður. Helvítisveður. Eina birtan sem hefur yljað mér í vetur eru flóðljósin á Fram-vellinum.

Er ekki vælið um veðrið hið leiðinlegasta í landanum. Engin hörgull er á fólki sem gerir kröfur um breytt veðurfar hér á landi. Ekki hef ég hugmynd um hver sá er sem krafan beinist að nema ef vera skyldi svokallaðir „veðurguðir“ sem fjölmiðlamenn nefna svo oft án þess að kynna þá nánar. Veðrið hefur verið rysjótt frá upphafi golfstraumsins eða upphafi landnáms.

Einn fjölmiðlamaðurinn í viðbót bætist í vælukjóaflóruna og það er Hólmfríður Gísladóttir, blaðamaður Morgunblaðsins, en hún ritar pistil á leiðarasíðu blaðsins í dag. Tilvitnunin hér fyrir ofan er úr honum. Og hún heldur áfram:

Ég loka augunum og minnist tjaldferðalags með litlu systur. Við lögðum af stað í fallegu veðri, það var bjart og logn mestan hluta leiðarinnar. Við höfðum engin plön; þetta var óvissuferð, ævintýraferð, og við ætluðum að taka sumarið með trompi í íslenskri náttúru. Fyrsta daginn stoppuðum við hér og þar; óðum út í á og tíndum steina. Svo enduðum við á Hvammstanga, af öllum stöðum. Og það fór að rigna. Og blása.

Jamm, „það“ fór að „blása“. Lesandinn veltir eflaust fyrir sér hvað hafi farið að blása. Svo rennur upp fyrir manni að þetta er barnamál. Líklega hefur farið að kula eða hvessa.

Orðaforði margra er slíkur að vindur er mikill eða lítill. Þeim fer fækkandi sem kunna skil á vindgangi í íslensku máli. Andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass vindur, hvassviðri, stormur, rok, ofsaveður eða fárviðri, svo vitnað sé í „Mat vindhraða eftir Beufort-kvarða“ sem birt er á vef Veðurstofu Íslands. Jamm, vindgangur í íslensku máli ... það vantar hins vegar ekki loftið í suma skrifara í íslenskum fjölmiðlum.

Veðurvælukjóarnir eru ábyggilega upp til hópa fólk sem vanið hefur sig á innisetu, gónir á stofugluggann og kvartar undan rigningunni sem lemur hann. En þið kellingar af báðum kynjum, athugið. Fjöldi fólks er úti í rigningunni, rokinu, hríðinni. Það gengur, hjólar, hleypur, fer á fjöll, veður ár og fljót. Þannig verða til sögur, fæstar verða til í stofunni heima, nema grobbsögurnar sem sagðar eru þegar heim er komið.

Hólmfríður, druslastu út.

Klæddu þig eftir veðri. Farðu í göngu með Útivist, Ferðafélagi Íslands eða öllum þessum aragrúa gönguklúbba sem sprottið hafa upp á síðustu árum. En fyrir alla muni, hættu þessu væli um veðrið.

Veður er ekki til, það er aðeins hugarástand.

Ógreinilega letrið: Svo bið ég Hólfríði afsökunar á þessum pistli. Hún er ágætur blaðamaður, vel skrifandi og pistillinn hennar miklu skárri en halda mætti af ofangreindum orðum.

 


Bloggfærslur 18. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband