Ruglið í Þóru Tómasdóttur um forsetann

Hann ætlar enn og aftur að taka sér það hlutverk að vera hlífisskjöldur yfir viðkvæmri þjóð. Hann ætlar að leiða okkur í gegnum þetta því við erum svo taugaóstyrk. Við þurfum bara lýðræði,“ segir Þóra en ekki karl á áttræðisaldri til að leiða íslensku þjóðina í gegnum þessa tíma.

Þetta eru orð Þóru Tómasdóttur í endursögn visir.is en konan var í umræðuþættinum Eyjunni á samnefndum vefmiðli. Ekki þekki ég nein deili á henni en man hana úr Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Hún er að tala um forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, og hugsanlegt framboð hans í forsetakosningunum næsta vor.

Eiginlega finnst mér þetta svo heimskuleg ummæli að ég hreinlega trúi því ekki að nokkur maður hafi látið þau út úr sér. Hver er tilgangurinn með að draga aldur Ólafs Ragnars inn í umræðuna ef ekki til að reyna að niðurlægja hann og gera lítið úr honum. 

Og hversu gáfulegt er að segja í sömu andrá að við þurfum lýðræði en ekki karl á áttræðisaldri ... Aldur einstaklinga og stjórnskipulag á ekkert sameiginlegt. Lýðræðið verður ekkert meira eða tryggara ef fólk á áttræðisaldri verði bannað að bjóða sig fram í forsetakosningum. 

Raunar held ég að það sé þjóðin þarfnist nauðsynlega ráð og stjórnvisku öldunga en bráðræði og fljótfærni óreyndra sem eðli máls vegna eru yfirleitt frekar ungir að árum.

Annars skil ég ekkert í hávaða og upphlaupi vegna Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur staðið sig frábærlega vel í embætti, það viðurkenni ég, þó ég hafi ekki kosið hann í upphafi.

Mér sýnist að liðið sem vildi að þjóðin samþykkti Icesave sé núna komið í hart gegn sínum gamla vopnabróður og samherja. Ætla að launa honum lambið grá. Við hin sem vildum í upphafi ekki Ólaf Ragnar erum sátt við hann.


Svartur föstudagur fyrir íslenska tungu

Nokkuð hefur verið rætt um „Black Friday“ tilfellið sem óð yfir landsmenn á föstudaginn var. Hér er enn á ný um að ræða landnám amerískra verslunarhátta hér á landi. Áður höfðu numið hér land „Valentínusardagurinn“, „Halloween“, „Tax Free“ og ábygglega margt fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.

Máttur auglýsinganna er mikill. Um það fer enginn í grafagötur. Fæstum agnúast þó út í það sem þeir hugsanlega geta hagnast á. Þar renna saman hagsmunir kaupmanna og neytenda. Fyrst svo er mætti halda að báðir þessir hagsmunaaðilar gætu sameinast í því að tala íslensku og viðhalda henni.

Staðreyndin er sú að íslenskunni fer hnignandi. Ekki endilega vegna þess að verið er að sletta ofangreindum orðum í söluræðum heldur miklu frekar vegna þess að yngra fólk er farið að nota ensku eins og hún sé móðurmálið.

Þetta sést mætavel á Facbook. Fæstir hafa við að þýða snjallar tilvitnanir á ensku heldur birta þær orðréttar. Slettur úr öðrum tungum eru mun sjaldgæfari.

Ég held að íslensk kennarastétt standi sig ekki sem skyldi. Ef hún gerði það væri ungt fólk almennt vel máli farið og legði alúð í mál sitt, væri vel lesið og vel skrifandi. Svo er því miður ekki og má greinilega sjá þetta meðal ungra blaða- og fréttamanna. Verst er þó að enginn leiðbeinir.

Höfuðborgarbúar ættu að ganga niður Laugaveginn í Reykjavík. Ábyggilega 90% nafna á verslunum, veitingastöðum og hótelum eru á ensku. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, líklega til að auðvelda útlendingum valið. Þetta er engu að síður mikill misskilningur. Ég hef farið nokkuð víða utan Íslands og finnst lítið tiltökumál þó ég langflest nöfn á veitingastöðum, hótelum og verslunum í Aþenu séu á grísku, á Spáni er spænskan ráðandi og á Ítalíu er það ítalskan. Myndi nokkur Frakki með réttu ráði nota enskt nafn á verslun sína eða veitingastað?

Hvers vegna erum við Íslendingar svona enskuskotnir? Er íslenskan ekki nógu góð?

„Thanksgiving Day“ hefur á íslensku fengið nafnið Þakkargjörðarhátíð. Var þessi þýðing erfið eða flókin? Nei, en um það snýst ekki málið. Hvorki að þýðing úr ensku og yfir á íslensku sé einhverjum vandamálum bundin né heldur að við þurfum að taka útlenda siði og festa þá í gildi hér á landi. Í fljótu bragði sýnist þetta ástfóstur á erlendum siðum byggjast á skorti á þjóðlegri sjálfsvitund. Þegar málið er nánar skoðað horfum við bara of mikið á amrískar bíómyndir og undirmeðvitundin heldur að við séum ekki lengur íslensk.


Af hverju er lögreglan hvergi sjáanleg?

DSC_1961Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri. Eða ágæti lesandi, hvenær sástu síðast lögreglubíl á ferli? Sá sem þetta ritar hefur ekki séð lögreglubíl langa lengi og allra síst við eftirlit.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef verið dálítið hugsi út af og hef áður nefnt í þessum pistlum:

  1. Aðfararnótt fimmtudags og laugardags átti ég erindi um bæinn og aldrei sá ég lögreglubíl. Líklega er óhætt að spara sér leigubíl og aka bara fullur á aðventunni.
  2. Æ oftar taka ökumenn áhættuna og aka yfir á rauðu ljósi eftir að hafa „rétt misst“ af því græna eða gula.
  3. Svo virðist sem annar hver ökumaður sé í símanum og megi ekkert vera að því að fylgjast með því sem er að gerast í kringum þá. Oftar en ekki eru þetta atvinnubílstjórar og svo ungar stelpur. Oft hefur mér dottið í hug að taka myndir af þessum bílstjórum í símanum, en þá er maður líklega kominn í sama hóp.
  4. Akstur á vinstri akrein er leiðinda ósiður. Svo virðist sem allir telji sér heimilt að aka þar í hægðum sínum. Líklega myndi umferðin ganga fimm sinnum hraðar ef ökumenn ækju á hægri akrein nema rétt til að fara framúr eða þegar komið er að því að beygja til vinstri.
  5. Stefnuljós eru líkast til í ólagi á flestum bílum, sjaldnast sjást þau í notkun.
  6. Viðbragðsflýtir margra ökumanna er hrikalega lítill. Hver hefur ekki lent í því að vera annar í röðinni á beygjuljósi og ekki komast yfir vegna þess að sá á undan tók ekki eftir ljósunum fyrr en grænt breyttist í rautt.

Gott væri nú að löggan myndi vakna af dvala sínum og fara út í eftirlit. Á námsárunum starfaði ég á sumrin sem lögreglumaður. Þá var hluti af vinnunni að ganga niður Laugveginn, láta almenning sjá sig. Af sömu ástæðu voru menn á lögreglubílum settir í eftirlit í ákveðnum hverfum. Svo voru lögreglumenn settir til að fylgjast með hættulegum gatnamótum, í hraðamælingar eða hreinlega til að fylgjast með umferðinni í akstri.

Sú stefna er góð að lögreglan sé sýnileg öllum stundum sólarhringsins. Það eykur traust almennings og fælir um leið misindismenn frá starfa sínum.

Nú virðist löggan hvergi vera sýnileg. Má vera að hún eigi ekki fyrir bensíni á löggubíla eða þeim háir slæmska í fótum.

Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að myndina hér fyrir ofan tók höfundur úr farþegasæti bifreiðar. Myndin sýnir ekkert misjafnt, er bara til skrauts.


Bloggfærslur 29. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband