Býr nýja hraunið til lón sunnan við Vaðöldu?

Hraunið og JöklaHvað verður um hraunið sem nú rennur frá eldsprungu í norðanverðu Holuhrauni um flæður Jöklu? Þegar litið er á landakort eða loftmynd af svæðinu sést að landi hallar allt frá Urðarhálsi í áttina að Vaðöldu. Hún er dyngja, hæsti hluti hennar er í 941 m hæð.

Sé nægur kraftur í gosinu mun hraunið halda sömu stefnu og Jökla, að sunnanverðri Vaðöldu og í gljúfrið þar. Ástæðan er einfaldlega sú að sama aflið stýrir vatni og hrauni, þyngdaraflið. Í sömu átt stefndi Holuhraun fyrir tvö hundruð árum áður en það þraut örendið. Sama gerðu hraunin sem komu úr gígum sunnan við Þorvaldartind í Dyngjufjöllum. 

Gömlu gígarnir í Holuhrauni eru í um 790 m hæð. Nýju gígarnir, þeir nyrstu, eru í um 730 m hæð og þar sem hraunið hefur náð lengst er það nú í um 680 m hæð. Hraunið hefur núna runnið lengst í norðaustur um sjö km og á þeirri leið hefur það lækkað um tæpa eitthundruð m og er rétt tæplega hálfnað á leið sinni að Vaðöldu.

Hér ætla ég að leyfa mér að vera með dálitlar vangaveltur og byggja á kortinu hér fyrir ofan en grunnur þess er frá Landmælingum Íslands og ég hef bætt inn óábyrgum hugmyndum mínum um framþróun rennslis Jöklu og hrauns.

Munum að hraunið er þykkt og getur auðveldlega hindrað Jöklu á leið sinni. Hvað gerir hún þegar hraunið er fyrir?

Við Vaðöldu hefur Jökla grafið sig dálítið niður milli dyngjunnar og hraunbreiðunnar sem liggur að fjallinu. Í þann farveg mun hraunstraumurinn líklega renna og um leið tekur fyrir rennsli Jöklu í bili. Hún mun nær tæmast fyrir neðan en vatnið mun um síðir leita sér annarrar útrásar og flæmast jafnvel inn á Krepputungu, sunnan eða norðan við við Rifnahnjúk og í Lindaá og Kreppu. Hún gæt svo sem runnið í Hvannalindir og þaðan í Kreppu.

Verði farvegur Jöklu undir Vaðöldu of þröngur mun hraunið smám fylla litla gljúfrið og þá skríða upp úr honum og dreifa sér á svæðið í kringum Rifnahnjúk, rétt eins og Jökla. Þá er nú ansi hætt við að áin lokist af og lón taki að myndast á þessum slóðum.

Á kortinu hér fyrir ofan er hugsanleg staða eftir til dæmis viku, veltur á krafti gossins. Þarna gæti Jökla átt sér þá einu leið að sameinast Kreppu sem út af fyrir sig er ekkert stórmál nema ef á leiðinni þangað muni hún eyðileggja Hvannalindir. Flestum er sárt um þá vin. Auðvitað vita allir að Jökla og Kreppa sameinast hvort eð er fyrir ofan Herðubreiðarlindir.

Þó kann að fara svo að hraunið renni aðeins vestan við Rifnahnjúk, fari ekki austan við hann. Þar gæti það haldið áfram í norður og Jökla samsíða. Þar hafa svo sem áður runnið hraun og Jökla er ekkert ókunnug á þessum slóðum og nóg er plássið.

Loki hraunið lengi fyrir rennsli Jöklu mun myndast lón við Vaðöldu og langt upp að Dyngjujökli . Um síðir myndi hún þó brjóta sér leið í gengum hraunið og finna sér gamla farveginn sinn einhvers staðar fyrir neðan. Hér endurtekur sig ábyggilega gömul atburðarás.

Rauði liturinn á myndinni merki hraunið á að giska þar sem það er í dag. Appelsínuguli liturinn er hugsanlegt hraunrennsli næstu daga. Blái liturinn er lón sem verður til ef Jökla lokst inni. Örvarnar merkja rennslisátt hrauns og vatns. 


Ragnar skjálfti birtir greinar í Mogganum um jarðskálftaspár

Árið 1988 hófust svo fjölþjóðlegar rannsóknir á Íslandi, sem miðuðu að jarðskjálftaspám, þar sem Suðurlandsundirlendið var valið sem sérstakt rannsóknarsvæði. [...]

Við sem skipulögðum þetta verkefni lögðum áherslu á að við yrðum að læra af reynslu og ekki síst af mistökum við margar fyrri tilraunir til að spá. Þessar spár hefðu byggst mikið til á tölfræðilegum úttektum á ýmiss konar fyrirbærum, m.a. miðlungsstórum skjálftum, sem þekkt voru á undan stórum skjálftum án þess að reyna að skilja af hverju fyrirbærin stöfuðu. Við vildum fara aðra leið, sem sé að leggja megináherslu á að rannsaka eðli þeirra breytinga í jarðskorpunni sem gætu leitt til stórra jarðskjálfta.

Þannig kemst Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, að orði í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann boðar að hann muni birta í samvinnu við Morgunblaðið greinaflokk undir yfirskriftinni „Að segja fyrir um jarðskjálfta“.

Þetta er merkileg tímamót, að minnsta kosti í tvennum skilningi. Morgunblaðið og Ragnar, sem er einn af fremstu vísindamönnum landsins, ætla að kynna rannsóknir í jarðskjálftafræðum og möguleika á að segja fyrir um skjálfta. Þetta eru afar ánægjuleg að við almenningur fáum að kynnast rannsóknum Ragnars en hann er sem kunnugt er afar ritfær og getur skrifað um fræðileg efni á þann veg að leikmenn skilji.

Hitt er svo aldeilis stórmerkilegt að gamli komminn skuli nú kominn í mála hjá gamla íhaldsmálgagninu sem hér áður fyrr var oftlega af pólitískum félögum Ragnars sakað um lygi, hún kölluð Moggalygi. Tímar breytast og mennirnir með - sem betur fer.

Við erum án efa fjölmargir sem áhuga hafa á jarðskjálftafræðum og bíðum nú spenntir eftir greinum Ragnars sem haft hefur viðurnefnið „skjálfti“ (heiðursnafnbót, án efa). Ástæða er til að þakka báðum, Ragnari og Mogganum fyrir framtakið. 

Í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaði dagsins segir Ragnar skjálfti eftirfarandi sem er afar forvitnileg nálgun hans og annarra vísindamanna vegna rannsókna á Suðurlandsskjálftum.:

Í örstuttu máli benda niðurstöðurnar til þess að greina megi aðdraganda stórra skjálfta og finna upptök þeirra og misgengissprungu árum eða jafnvel áratugum áður en þeir bresta á. Þetta opnar möguleika á gagnlegum viðvörunum á undan hættulegum skjálftum sé eftirlit nægilega skilvirkt. Til að fylgjast með framvindunni á hverjum stað þurfi þar sívökult „jarðváreftirlit“, sem byggist bæði á sjálfvirkri úrvinnslu og samstillingu allra mælinga, samstundis, og á stöðugri túlkun og líkansgerð sjálfvirkra tölvukerfa og vísindamanna


Bloggfærslur 6. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband