Ríkið tapar alls ekki á svartri atvinnustarfsemi

... sem ekki höfðu leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Hver var hættan, hverjum var bani búinn, hver tapaði? Lögreglan og embætti ríkisskattstjóra vaða nú fram rétt eins og mafían í hollívúddbíómynd og berja á þeim sem vart geta borið hönd fyrir höfuð sér en hafa sótt tekjur til útlendra ferðamanna.

Nei, hættan var engin. Aungvum var bani búinn. Þeir einu sem töpuðu var ríkisvaldið og þó. Þegar öllu er á botninn hvolft græðir ríkið óbeint á svartri atvinnustarfsemi. Veltan fer öll inn í hagkerfið, fátt lekur til útlandsins. 

Ferðaþjónustan? Nei, hún tapar ekki, að minnsta kosti ekki öll. Einhvern veginn kemur þetta fólk til landsins sem gistir á stöðum sem ekki hafa leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Varla kemur það með nesti meðferðis, einhvers staðar fær það sér að borða. Varla kaupir það sér mat á veitingastað sem ekki hefur leyfi til veitingaþjónustu.

Þetta fólk fer á skemmtistaði, leikhús, söfn eða álíka því ekki skemmtir það sér yfir tengingaspili í herbergi í íbúð eða húsi sem ekki hefur leyfi til gistiþjónustu

Ef til vill fer þetta fólk í Þórsmörk, Vestmannaeyja, skoðunarferð á eldstöðvarnar og varla með fyrirtækjum sem ekki hafa leyfi til fólksflutninga. 

Virðisaukaskatturinn flæðir inn í ríkiskassann og beinir og óbeinir skattar verða hærri vegna svartrar atvinnustarfsemi heldur en ef hún myndi leggjast af. 

Getur það verið að þeir séu til sem bjóði ferðamönnum upp á þjónustu án leyfis til ferðaþjónustu? Þarf þá ekki að skoða hvers vegna ekki er hirt um að sækja um leyfi?

Líklega er kerfinu um að kenna, kostnaðinum við að stofna til fyrirtækjarekstrar, eftirlitgjöld hins opinbera, skattlagningu tekna og svo framvegis.

Ég held að það sé ráð að einfalda þetta allt saman þannig að tekjumöguleikarnir við skattsvik lækki stórlega svo að það hreinlega taki því ekki að sækja ekki leyfi til ferðaþjónustu. Þegar því er náð þarf lögreglan og ríkisskattsstjóri ekki að ganga frá einum gististað til annars og munda hafnarboltakylfu frammi fyrir húsráðanda eins og mafíósar í hollívúddbíómynd.

Ætli þeim lögreglustjóra og ríkisskattstjóra bregði ekki í brún ef svört atvinnustarfsemi leggst af. Það er nefnilega ekki gefið að þeir sem stunda haldi slíku áfram á „löglegan“ hátt. Þeir nenna því ábyggilega ekki vegna kostnaðar og fyrirhafnar. 


mbl.is Lokuðu fjórum útleigðum íbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf vex annað blóm í sömu krús eða annarri

Við rithöfundar og bókaútgefendur erum ekki að heimta nein forréttindi eða undanþágur frá sköttum og skyldum. Þetta er meira spurning um sjálfsagða tillitssemi gagnvart viðkvæmum hlut.

Þetta segir Hallgrímur Helgason, myndlistarmaður og rithöfundur, í grein í Morgunblaði gærdagsins. Man ekki hvenær ég sá síðast grein eftir sama höfund í Mogganum.

Mér hefur alltaf þótt það göfug íþrótt að semja texta af ýmsu tagi, bundið sem óbundið mál. Hef raunar alltaf talið þá nær almættinu sem slíkt geta og er Hallgrímur Helgason ekki undanskilinn. 

Greinin er þannig að ósjálfrátt veltir maður fyrir sér markmiðum fólks. Þau eru auðvitað ólík frá einum einstaklingi til annars. Undir niðri virðist allt spurning um peninga. Enginn vill enginn borga of mikið, hvorki fyrir vörur né í skatta. Í ljósi þess að fátt er öruggt í þessu lífi annað en skattar og ... dauðinn er skiljanlegt að margir vilji komast hjá því að greiða af tekjum sínum. Ef vel tekst til kætast þeir sem eiga meiri afgang en aðrir, hvernig sosum hann er fenginn.

Hvað skattana varðar er þetta alltaf spurning um réttlætingu. Skúrkar spá ekki í slíkt, þeir svíkja undan skatti og láta engan vita. Aðrir heimta þrepaskipt skattkerfi og réttlæta það með umhyggju fyrir okkur aumingjunum.

Réttlætingin er hins vegar forvitnileg athöfn. Hún tengist oft upphafningu á eigin verðleikum, umhyggjunni og mannúðinni. Fjölmargir falla fyrir slíkum fagurgala án þess að hugsa neitt um eðli máls.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur er líkast til ekki skúrkur. Réttlæting hans á lægri virðisaukaskatti ofan á verð bóka tengist alls ekki því að hann hafi hagsmuna að gæta. Hann er ekki að spá í tekjumöguleika sína heldur er það göfgin sem ræður hvert penninn bendir. 

Sú framleiðsla að skrifa bók hvetur eflaust til lestrar. Sá sem framleiðir fatnað vill að fólki sé hlýtt og hvetur því til að fólk kaupi hana.

Hvort er nú göfugra starf, að skrifa og selja bækur eða framleiða og selja peysu?

Þá er það spurningin hvort ríkisvaldið sé þess umkomið að taka afstöðu. Á að verðlauna rithöfunda og seljendur bóka með því að leggja á söluverð þeirra lægri virðisaukaskatts? Hvers á þá peysuframleiðandinn og seljandi peysunnar að gjalda?

Er það virkilega svo að einn vöruflokkur sé göfugri en annar og á ríkið að fá að velja þá? Eiga til dæmis bækur, ýmiskonar barnavörur, matur og annað að bera lægri virðisaukaskatt en peysur, reiðhjól, íþróttavörur, tölvur, kók og súkkulaðikex?

Þetta er meira spurning um sjálfsagða tillitssemi gagnvart viðkvæmum hlut. Viljum við ekki viðhalda almennri lestrarkunnáttu og efla þann fræga lesskilning? „Hvað er auður, afl og hús / ef ekkert blóm vex í þinni krús?“ Þjóð sem ekki þekkir sérstöðu sína, sem ekki þekkir sinn mesta hæfileik og kann því ekki að hlúa að honum, er sorglegur flokkur. Þó að menn vilji „láta eitt yfir alla ganga“, „ekki gera neinar undanþágur“ og „einfalda kerfið“ þá eru til þeir menn sem ekki fara líka með sláttuvélina yfir blómabeðið. Það heitir víst menning.

Þetta segir rithöfundurinn Hallgrímur Helgasson sem vill efla lesskilning og viðhalda almennri lestrarkunnáttu og þess vegna eiga bækur að vera ódýrari en aðrar vörur. Án þess að spyrja neinn ákveður hann út frá eigin forsendum að bækur séu göfugari en flíspeysa. Honum yfirsést sú staðreynd að sláttuvélin hefur þegar farið yfir blómabeðið, hefur búið til þrepaskiptingu sem er algjör óþarfi.

Þetta allt veltir upp spurningum eins og þessum: Væri það atlaga að menningu þjóðarinnar ef allar vörur væru í sama virðisaukaskattsflokki, hvort sem þær eru bækur, flíspeysur, gisting, aðgangur í sundlaug, leikhús, laxveiði, matur og allt sem nöfnum tjáir að nefna?

Myndi visna blóm í krús ef aðeins væri einn virðisaukaskattsflokkur fyrir allar vörur? Myndi lesskilningi þjóðarinnar hnigna? Væri hætta á því að börn gætu ekki lært á tölvur? Myndu rithöfundar hætta að skrifa? Yrði hætta á því að bækur yrðu lélegri eða óskemmtilegri?

Nei, þetta er auðvitað tóm vitleysa að setja hlutina fram með þeim hætti sem rithöfundurinn gerir. Hann er í bullandi hagsmunabaráttu fyrir sjálfan sig og óttast það eitt að hafa minna í tekjur. Það er hins vegar mikill misskilningur.

Vaxtarmöguleikar blómsins í krúsinni velta á allt öðru en sköttum ríkisvaldsins. rithöfundar spretta upp árlega í tugatali vegna þess að fólk finnur hjá sér þörf til að skrifa, segja frá. Skiptir engu þótt Hallgrímur Helgason leggi pennann á hilluna.

 


Bloggfærslur 17. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband