Afturgöngur í Flæðahrauni

DSC_0895

Flæðahraun er auðvitað rétt nafn á nýja hrauninu norðan Dyngjujökuls, svo fremi sem það rennur verulega út fyrir Holuhraun.

Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi fékk hraunið þar nafnið Goðahraun vegna þess að þar fyrir neðan heitir Goðaland. Fór vel á þeirri nafngift. Ekki var ég eins sáttur við nafn gígana, Magna og Móða, en nöfnin hafa vanist og engin ástæða til að erfa það þótt þeir hafi ekki fengið önnur og miklu betri nöfn.

Þannig er að tveir góðir vinir mínir eiga þarna mörg spor og því þótti mörgum við hæfi að kalla gígana Óla og Reyni. Það kom hins vegar aldrei til álita, sem er að mínu mati afar undarlegt og jafnvel ámælisvert.

Hins vegar er Skúli frændi minn Víkingsson glöggur maður á náttúru landsins enda jarðfræðingur. Hann veit sem er að jafnan er talað um flæður Jökulsár á Fjöllum þar sem hún flækist um sandinn eftir því hvernig liggur á henni. Flæður eru víða og orðið ber það með sér hvernig aðstæður eru, fljótið flæðir víða og í mörgum kvíslum.

Flæðahraun er sem sagt gott nafn. Stóru gígarnir í Holuhrauni hafa ekki fengið neitt nafn þó svo að þarna hafa þeir verið nær ósnortnir í 217 ár. Nú gýs aftur og aftur í því hrauni og færi ekki illa á því að nýir gígar verði nefndir Afturgöngur.

Ég er ekki viss um að margir átti sig á því hversu fátækt landið er af örnefnum. Jafnvel þó svo sé eru margir afar íhaldssamir og vilja helst ekki að aðrir en opinber stjórnvöld velji nafn á og helst þarf að bera það undir þjóðaratkvæði. Fáir vita hvernig nöfn eins og Ýmir og Ýma eru til komin svo dæmi séu tekin af örnefnum sem ekki eru mjög gömul. Önnur örnefni eru löngu gleymd og týnd en aðrir staðir skreyta sig með tveimur. Dæmi um hið síðarnefnda er Nýjidalur og Jökuldalur. Svo eru til örnefndi sem orðið hafa til við reynslu einstaklinga fyrir svo margt löngu að enginn man ástæðuna en orðin eru svo lýsandi að þess þarf ekki. Dæmi um slíkt er til dæmis Leggjabrjótur. 

Myndin er af manni sem tiplar Goðahraun tæpum þremur mánuðum eftir að gos hætti. Hann heitir Reynir. 

Hér er ekki úr vegi að geta um fleira rugl sem sumum kann að þykja fróðlegt. 


mbl.is Hvað á nýja hraunið að heita?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband