Kann Mogginn ekkert í landafræði?

Meint Bárðarbunga2

Ég hef bloggað á Moggablogginu frá því 2006, að því er mig minnir. Aldrei nokkurn tímann hef ég tvíbloggað með sömu frétt. Raunar hef ég reynt að hætta að blogga með fréttum, að minnsta kosti dregið úr því.

Fyrir tæpum klukkutíma bloggaði ég með frétt á mbl.is. Með fréttinni var nokkuð falleg mynd úr Kverkfjöllum og hún sögð af Bárðarbungu. Það þótti mér afar miður.

Fyrir nokkrum mínútum sá ég aðra frétt á mbl.is með annarri fallegri mynd sem tekin er úr flugvél yfir Tungnárjökli og horft er yfir upptök Skaftár, nyrsta hluta Langasjávar og víðar. Þessa mynd segir mbl.is að sé af Bárðarbungu og Jökulsá á Fjöllum.

Eitthvað er að hjá Mogganum í kvöld og maður getur hreinlega ekki orða bundist.

Þessi vinnubrögð eru slæm. Blaðamaður sem þekkir ekki til í landafræði á ekki að skrifa frétt um eldgos, skjálftavirkni eða starf vísindamanna í þessum greinum.


Kolröng mynd með frétt

Meint Bárðarbunga

Val á myndum skiptir miklu máli fyrir frétt. Ekki gengur til dæmis að birta mynd með frétt af núverandi forsætisráðherra og segja að hann heiti Jóhanna Sigurðardóttir.

Jafn vont er að birta frétt úr Kverkfjöllum með Dyngjujökul í baksýn og halda því fram í myndatexta að myndin sé af eða frá Bárðarbungu.

Fréttir eiga að vera sannleikanum samkvæmar, bæði texti og myndir.

Frá Bárðarbungu og í Kverkfjöll eru tæplega fjörtíu km í beinni loftlínu og í góðu skyggni má sjá á milli þessara staða. Það er hins vegar fjarri lagi að hægt sé að segja þá einn og hinn sama.


mbl.is Mat vísindamanna að ekkert gos sé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gýs í dag á flæðunum norðan Dyngjujökuls?

140822 Bárðarb og Dyngju kl 0845Afdrifaríkar breytingar hafa orðið á skjálftavirkninni í Bárðarbungu og sérstaklega Dyngjujökli frá því í gær. Rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun var staðan eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þá virtist sem að skjálftar tengdum bergganginum í stefnunni SV-NA hefði stöðvast og enn voru um 10 km út í jökuljaðarinn.

Núna eftir hádegi í dag segja jarðfræðingar í fjölmiðlum landsins að losnað hefði um fyrirstöðu sem berggangurinn hafði hugsanlega orðið fyrir á leið sinni til norðausturs. 

140823 Bárðarb og Dyngju kl 1308

Þetta má glögglega sjá á stóru myndinni. Þar er tvennt sem vekur athygli. Annars vegar er að skjálftum hefur stórlega fjölgað. Hitt er að breyting virðist hafa orðið á stefnu þeirra eða berggangsins. Hún er nú orðin miklu norðlægari en áður, er nálægt því að vera S-N.

Einnig skal á það bent að nú eru berggangurinn komin mun nærri jökuljaðrinum, er aðeins innan við 4 km frá honum.

Hvað dýpið niður á hann er mikið fylgir ekki sögunni. Ég á þó bágt með að trúa öðru en að hann nálgist nú óðfluga yfirborðið enda miklu minna farg sem er fyrir ofan hann en meðan hann var lengst undir jökli.

Af þessu má draga þá ályktun að gjósi við jaðar Dyngjujökuls eða á flæðum Jökulsár á Fjöllum verður ekkert hamfararflóð. Aðeins hraunflóð sem ætti ekki að valda neinu tjóni á mannvirkjum eða umferð enda takmarkað við flæðurnar sunnan Öskju og norðan Dyngjujökuls.

Þetta kann þó allt að vera tóm vitleysa enda hefur sá sem hér slær á lyklaborð ekki hundsvit á jarðfræði þó hann reyni að vera sennilegur. Í ljósi þess vill hann gerast spámannlegur og væntir eldgoss áður en degi lýkur, þó fyrr en síðar.

Verra kann þó að vera að Bárðarbunga er enn virk þó gjósi í eða við Dyngjujökul. Ástæðan er einfaldlega sú að sú miga sem lárétt útstreymi frá möttlinum undir Bárðarbungu er og myndað hefur bergganginn undir Dyngjujökli, þá hefur það engin áhrif á lóðréttu orkuna sem leitar útrásar undir bungunni. 


mbl.is Skyndileg aukning á skjálftavirkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalda þotan á fljúgandi ferð yfir Dyngjujökli

Þota3

Furður náttúrunnar eru margar og skrýtnar. Hér segir af einni en hvort hún tilheyri náttúrunni skal nú ósagt en hitt er þó víst að náttúran er umhverfis og allt um kring.

Google birtir á vefsíðum sínum ýmsar myndasyrpur, meðal annars myndir af jörðinni sem teknar eru úr geimnum. Þessar myndir hafa gríðarlega upplausn og hægt að þysja nær endalaust inn í þær og skoða ólíklegustu smáatriði náttúru Íslands.

Margir leggjast ofan í slíkt, ekki síst þeir sem áhuga hafa á gönguferðum, landafræði og jarðfræði svo eitthvað sé nefnt af því sem undirritaður pælir jafnan í.

Þota2

Emil Hannes Valgeirsson er einn þeirra „nörda“ sem, eins og höfundur þessara lína, liggur yfir loftmyndum og stúderar þær í þaula. Um daginn rakst hann á einkennilegan blett sem hann vildi skoða nánar og er í miðjum rauða rammanum á efstu myndinni.

Myndin er af jaðri Dyngjujökuls sem er norðan við Bárðarbungu og allir ættu nú að vita hvar er. Vinstra megin á myndinni er Urðarháls, stórkostlegt fjall með miklum gíg efst í því miðju. Hægra megin eru flæður Jökulsar á Fjöllum.

Og Emil þysjaði inn í myndina. Og hvað haldiði að hann hafi fundið? Jú, farþegaþotu á fljúgandi ferð (... hvað annað?).

Þota1

Enn þysjaði hann inn í myndina og þá kom þotan glögglega í ljós. 

Emil segir á bloggsíðu sinni:

Það er svo sem ekkert óvenjulegt að farþegaþotur séu á sveimi yfir landinu enda landið í þjóðleið milli heimsálfa. Þetta er samt frekar óvenjulegt sjónarhorn á flugvél á flugi ekki síst úr þessari miklu hæð. Það má gera ráð fyrir að gervitunglið sem myndaði landið sé í 600-1000 km hæð eða allt að 100 sinnum meiri hæð en flugvélin sem þýðir að flugvélin er nokkurn vegin í raunstærð miðað við yfirborð landsins. Kannski verður lítið um flugumferð þarna á næstunni en það má þó nefna að væntanlega er vélin löngu flogin hjá enda gæti gervitunglamyndin verið nokkurra ára gömul. 

Þess má hér geta að ég er oft óþarflega tortrygginn. Um leið og ég hafði lesið pistilinn Emils var mitt fyrsta verk að kanna hvort hann væri nokkuð að plata. Viti menn, þetta er allt satt og rétt. Þarna var flugvélin bæði á Google Maps og Google Earth.

Hvað sem öllu öðru líður er þetta skemmtileg tilviljun og flokkast eiginlega sem furður náttúrunnar.

Sé einhver að velta því fyrir sér hvers vegna flugvélin er tvöföld þá er það líklegasta skýringin að sú græna sé einhvers konar speglun af þeirri hvítu.  

 


Bloggfærslur 23. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband