Danskur prófessor skilur ekki Jón og Gunnu

„Dönsku húsnæðislánafélögin hafa aldrei í 200 ára sögu kerfisins farið í gjaldþrot. Hér á Íslandi lækkuðu stjórnvöld nýverið skuldir heimila. Þið verðið að sannfæra fjárfesta um að það muni aldrei gerast aftur,“ sagði Rangvid á morgunverðarfundi Dansk-íslenska viðskiptaráðsins á Grand Hótel í gær.

Þetta er úr frétt í Morgunblaði dagsins af fundi, sem ég hélt fyrirfram að yrði afar merkilegur, en miðað við þessi orð prófessors Jesper Rangvid, veit hann ekkert hvað gerðist hér á landi í kjölfar hrunsins. Hann lætur sem að lækkun á skuldum heimilanna hafi verið einhver léttúðugur leikur stjórnvalda. Það var nú langt í frá þannig.

Vandinn við marga af innfluttum og jafnvel innlendum spekimönnum sem höndlað hafa veraldarviskuna er sá að þeir vita ekki um daglegt líf almennings, aðeins sýndarheim tilbúinna markaða og fá laun sín ómælt úr þeirri hít. Skiljanlega vita þeir lítið um annað.

Árið 2008 varð mikið efnahagskreppa í heiminum með alvarlegum afleiðingum. Hér á landi varð bankahrun og við lá þjóðargjaldþroti. Með réttu hefði prófessorinn á að segja að hið síðarnefnda mætti aldrei gerast aftur og sannfæra þyrfti fjárfesta um það.

Flestum er ... tja, andskotans sama, ... ef ég má gerast svo djarfur að orða það þannig, um markaði, fjárfestingu og annað álíka þegar skuldir þeirra rjúka upp en eignir falla í verði. Þetta skildi ekki ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms en sögðust þó ætla að slá skjaldborg um almenning en studdu hins vegar bankanna með ráðum og dáð. Núverandi ríkisstjórn stóð hins vegar í lappirnar og gerði það sem átti að gerast í upphafi stjórnartímabils áðurnefndra skötuhjúa.

Vandinn er hins vegar sá að fjármagnið í stórum kippum er mun áhugaverðara og skemmtilegra viðfangsefni en hin þunna budda Jón og Gunnu. Sem betur fer hafa þau kosningarétt sem gerir vægi þeirra meira.

Vörum okkur hins vegar á ráðgjöfum sem bera ekki skynbragð á efnahagslegar þarfir Jóns og Gunnu. 


Bloggfærslur 2. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband