Þrjú þúsund jólakveðjur út í tómið

JólakveðjanÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

 


Bloggfærslur 23. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband