Náttúrupassinn er vondur skattur og óréttlátur

Fyrstu viðbrögð við frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa hafa almennt verið gagnrýnin og tilfinningahlaðin. Það er skiljanlegt að frumvarpið veki sterk viðbrögð, enda er gott aðgengi að íslenskri náttúru grundvallarmál fyrir flesta sem hér búa. Að því sögðu munu náttúruperlur áfram liggja undir skemmdum ef ekki verður ráðist í breytingar á umgjörð ferðamannastaða á Íslandi. Til að réttlætanlegt sé að leggjast gegn hugmyndum um náttúrupassa þurfa því aðrar betri tillögur að liggja fyrir.

Þannig byrjar Frosti Ólafsson,framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, grein í Morgunblað dagsins. Hann fellur í sömu gryfju og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hefur lagt fram frumvarp um náttúrupassa á Alþingi. Bæði gleyma íslenska einstaklingnum og raunar þeim útlenda líka. Í árhundruð hefur órofa sátt um frjálsar ferðir fólks um landið. Nú er hins vegar ætlunin að hefta þær af fjárhagslegum ástæðum sem þó eru einungis tilbúnar.

Framkvæmdastjórinn og ráðherrann líta alfarið framhjá okkur sem ferðast um landið og tileinka sér þann boðskap að umferð megi skattleggja og halda uppi þeirri viðbáru „að þeir eigi að borga sem njóta“ eins og ráðherrann sagði á fundi hjá félagi Sjálfstæðismanna um síðustu helgi. Almenningur er ekki spurður, við fólkið sem ferðumst um landið erum ekki spurð. Náttúrupassanum er slengt í andlit okkar rétt eins og þegar síðasta ríkisstjórn ætlaðist til að almenningur í landinu greiddi skuldir Landsbankans, Icesave. Þá eins og núna vorum við ekki spurð.

Náttúrupassinn er viðbótarskattur. Íslendingar greiða beina og óbeina skatta og útlendir ferðamenn greiða óbeina. Tekjur ríkissjóðs af ferðalögum Íslendinga og útlendinga um landið eru gríðarlegir. Ráðherrann leggur upp með að ríkissjóður hafi ekki efni á að greiða af þessari aukningu tekna, þá minnki framlög til heilbrigðis- og menntamála. Framkvæmdastjórinn virðist ekki heldur átta sig á tekjuaukningu ríkissjóðs vegna fjölgunar ferðamanna.

Niðurstaða beggja er því að skattleggja ferðir fólks um landið. Leggja gjald á þá „sem njóta“, einhvers konar glápgjald. En augnablik. Ég sem ferðast um landið greiði mína skatta, kaupi vöru og þjónustu vegna ferða minna og allt sem ég kaupi ber virðisaukaskatt. Síðan er það borið á borð fyrir mig að ég þurfi að greiða meira vegna ferða minna. Ég þurfi að borga skatt vegna þess að útlent ferðafólk flykkist að Dettifossi, Ásbyrgi, Seljalandsfoss eða Geysi.

Frosti, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, gerir í grein sinni ekki mun á landsvæðum og stöðum. Vissulega er átroðningur ferðamanna á mörgum stöðum en hann er viðráðanlegur. Það réttlætir hins vegar ekki að taka gjöld af ferðamönnum sem leggja leið sína um landsvæði. Hvaða réttlæti er til dæmis í því að rukka göngumann sem leggur leið sína yfir Fimmvörðuháls um aðgang að Skógafossi? Hvaða réttlæti er í því að göngumaður sé rukkaður vilji svo til að upphafs- eða lokastaður göngunnar sé innan staðar sem er gjaldskyldur samkvæmt ákvörðun ráðherrans? Þetta er eins og að sá sem gengur niður Laugaveginn skuli greiða gjald í strætó af því að upphaf göngu hans er á Hlemmi og hún endar á Lækjartorgi.

Svo virðist, samkvæmt grein framkvæmdastjórans, að hann vilji að náttúrupassi dragi úr álagi á ákveðna ferðamannastaði, skatturinn hafi fæli fólk frá þeim, hann breyti hegðun fólks. Hann virðist vilja að hærri skattar verði lagðir á þá sem fara um Þingeyjarsýslu svo átroðningur við Dettifoss minnki. Hver skilur svona?

Það er út af fyrir sig ágætt að menn eins og framkvæmdastjórinn hafi ákveðnar skoðanir á skattheimtu en að skattar eigi að hafa einhvers konar uppeldislegt gildi er algjörlega óásættanlegt. Spyrja má manninn hvort hann sé þá ekki sáttur við sykurskattinn? Sá skattur virðist hafa þennan uppeldislega eiginleika sem breyta ætti hegðun fólk. Ugglaust er hann sáttur við enn frekari álögur á bensín og díselolíu, en slíkt mun hugsanlega fá fólk úr bílunum og á reiðhjólin eða strætó. 

Umræðan um náttúrupassann hefur einkennst um of af viðhorfum stjórnlyndis, minna fer fyrir rökum okkar sem hann beinist að. Okkar sem unnum frelsi og berjumst gegn óhóflegri skattlagningu og tilraunum löggjafans og framkvæmdavaldsins sem vilja skipta sér af lífi okkar í smáatriðum. Ég kæri mig ekkert um svona afskiptasemi.

Náttúrupassinn er afar vond leið til að bæta fyrir þann skaða sem átroðningur ferðamanna hefur valdið á einstökum stöðum. Aðrar leiðir eru færar.


Bloggfærslur 19. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband