Spenna fyrir stóraskjálfta á Reykjanesi að byggjast upp

Reykjanesskagi2Snörp jarðskjálftahrina stendur nú yfir á Reykjaneshrygg. Ég fann fyrir afar daufum skjálfta fyrr í kvöld og leitaði því inn á vefsíðu Veðurstofunnar í upplýsingaskyni.

Afleiðingarnar jarðskjálftahrinu á Reykjaneshrygg geta orðið þær að skjálftarnir hliðrist upp á land og eftir öllum Reykjanesskaga og jafnvel upp í Langjökul. Rauðu deplarnir á kortinu sýna nýja skjálfta sem hugsanlega má rekja til Eldeyjar og Geirfuglaskers. Kortið fékk ég lánað af vef Veðurstofunnar. Tveir stærstu skjálftarnir eru yfir þrjú stig samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Jarðfræðingar hafa fundið svokölluð skáreksbelti hlið við hlið á Reykjaneshrygg og Reykjanesskagan. Þegar miklir skjálftar verða á hryggnum getur virkjast svokalluð „bókahillutektónik“ eins og Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, kallaði fyrirbrigðið á námskeiði sem ég sótti í fyrra. Með þessu heiti er afleiðingunum líkt við bækur í bókahillu. Þegar ein bókin hallast rekst hún á hina og svo koll af kolli uns allar bækurnar hafa skekkst.

Þetta er hefur margoft gerst á Reykjanesi og jafnvel gerist það núna. Þess vegna vara jarðfræðingar við að stórum skjálfta geti orðið á svæðinu á næstunni. Á svæðinu frá Krýsuvík og í Vífilsfell er sagt að sé að byggjast upp spenna og ekki getur losnað um hana nema með jarðskjálfta. Sá verður líklega svo stór að hann mun finnast um allt suðvestanvert landið og raunar miklu víðar.

Páll hefur látið hafa eftir sér að ólíklegt sé að hugsanlegur stóriskjálfti á Reykjanes sé fyrirboði eldgoss. Líkur benda þó til að gos á þessu svæði verði frekar lítil og standi stutt yfir og séu frekar meinlaus, veltur þó á staðsetningu þeirra. Á árunum 900 til 1240 urðu mörg lítil hraungos á Reykjanesi. Síðan hefur Reykjanesskagi verið í eldgosafríi.

Stóriskjálfti gæti hins vegar orðið svipaður á stærð og skjálftinn 1968. Margir muna hann sem skell með undirliggjandi drunum. Upptök hans voru í svokölluðu Hvalhnúksmisgengi en Hvalhnúkur er skammt sunnan við Grindaskörð. Þar gæti nýr skjálfti orðið til og jafnvel í misgenginu sem er nokkuð norðar og kennt er við Hrossahrygg. Það liggur frá því sem næst Geitafelli í suðaustri og norðvestur yfir Bláfjallahrygg. Þar gæti orðið ógnarstór skjálfti sem myndi finnast greinilega á höfuðborgarsvæðinu. Jarðfræðinga hafa raunar þennan stað sérstaklega grunaðan um græsku.

 


Já, látum hjartað ráða ... eða skynsemina ... nei, hjartað ... eða eitthvað

Birgitta Hauksdóttir, kapteinn pírata, meinar ábyggilega vel, þegar hún úr ræðustól á Alþingi, lýsir yfir stuðningi við grísku þjóðina og að hún fylgi hjarta sínu í þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðina til tillaga ESB. Fallega sagt.

Hins vegar er gríska þjóðin ekki ein rödd og síst af öllu talar forsætisráðherra landsins fyrir hennar hönd. Ekki frekar en sá íslenski talar fyrir okkar þjóð.

Nú berast fréttir af því að skoðanakannanir í Grikklandi sýni að þeir sem vilja fallast á skilyrði lánadrottna landsins geti verið í meirihluta. Hvernig skyldi kapteinn Pírata takast á við þá breyttu mynd sem hugsanlega er í spilunum? Hvort á að hvetja til, að fara eftir hjarta sínu eða skynsemi?

Hvort heldur verður venjulega álit meirihlutans ofan á þegar þjóðir kjósa. Skiptir litlu hvort þá hafi hjartað eða skynsemi ráðið afstöðu.

Til hvers þá að hvetja þjóðir til að kjósa með líffæri eða skyni fyrst að það hefur eiginlega ekkert upp á sig. Þjóð sem kýs ekki með hjarta sínu heldur lætur skynsemina ráða eins og við Íslendingar gerðum er við margkusum um Icesave. Jafnvel þá voru sumir sem létu eitthvað annað ráða en skynsemina. Eða kusu allir eftir skynsemi sinni og létu hjartað lönd og leið?

Já, ég hvet Grikki til að fylgja hjarta sínu í næstu þjóðaratkvæðagreiðslunni. Að minnsta kosti hvet ég þá til að láta hjartað ráða. Nema þeir ætli að fara að vilja ESB. Notið þá skynsemina, fyrir alla muni.

Mikið óskaplega er ég nú fallega heiðskýr í máli mínu ... rétt eins og Birgitta. Eða er þetta ekki bara tómt kjaftæði í manni, svokallaður pópúlismi.


mbl.is Vill samstöðu með Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst er stefnt fyrir dómstól götunnar og svo héraðsdóm

Æ oftar gerist það að málarekstur fyrir dómstólum hefst í fjölmiðlum. Hér áður fyrr voru einkamál höfðuð án þess að lögmenn hlypu í fjölmiðla. Nú leita þeir til almannatengla og reyna að vinna málið fyrir dómstóli götunnar áður en svo mikið sem stefnan hefur verið skrifuð og löngu áður en henni hefur verið skilað inn til héraðsdóms.

Þetta er ógeðfelld þróun og tengist illri orðræðu í þjóðfélaginu. Núna ætla menn aldeilis að berja á Björgólfi Thor Björgólfssyni löngu eftir hrunið. Ekki nóg með það heldur er honum úthúðað á allan þann hátt sem hugsast getur til þess eins að láta manninn líta sem verst út.

Honum er fyrst stefnt fyrir dómstól götunnar, þar er engin áfrýjun, dómsmorð er oftast niðurstaðan. Síðan er send inn stefna í héraðsdómi.

Þetta er eins og í fótboltanum. Þar rífa leikmenn stólpakjaft við dómarann, hafa uppi alls kyns mótbárur í orði og með ýmis konar líkamstjáningum. Og ekki eru áhorfendur betri. Markmiðið er auðvitað að hafa áhrif á þann sem gegnir hinu mikilvæga hlutverki. Fótboltaleikur er stundum eins og samfélagið, gegnsýrt af ásökunum, illu umtali, kjaftagangi og leiðindum. Allt til að „terrorisera“ dómarann og kæfa niður andstæðar skoðanir.

Sannleikurinn skiptir orðið svo afar litlu. Menn rífa sig niður í rass og enda halda svo ótrúlega margir að þeir búi yfir alheimsviskunni. Þegar þeir eru leiðréttir með niðurstöðum dóma eða á annan hátt er bara sagt „úbbs“ eða „spilling“. Málið útrætt.

Dómarar í héraðsdómi og Hæstarétti skulu sko vita að meirihlutinn vill sækja vondu mennina til saka og dæma þá í myrkustu dýflissur með réttu eða röngu. Þetta heitir að „terrorisera“ dómstólanna.

Tek það fram að ég þekki ekki Björgólf Thor Björgólfsson og hef aldrei hitt manninn né nokkur sá sem ég þekki. Ágæti lesandi, hvernig er staðan þegar maður þarf að gera svona fyrirvara við stuttan pistil? Jú, annars er maður gefin bráð fyrir hýenur þjóðfélagsins.


mbl.is Rangt og langsótt hjá Björgólfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróður, moðreykur og slappir fjölmiðlar

Ekki virðist það til vinsælda fallið að gagnrýna hjúkrunarfræðinga og BHM og kjarabaráttu þeirra. Svo virðist sem almenn óánægja sé með að þessar stéttir fái ekki það fram sem þær krefjast.

Mér hefur á undanförnum vikum fundist fjölmiðlar frekar einhliða í frásögn af kjarabaráttu. Launþegafélög komast hreinlega upp með almennan moðreyk, áferðafagurt tal, án þess að nokkru sinni sé reynt að komast að kjarna málsins.

Núna í kvöld horfði ég á makalaust viðtal í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þar sem stjórnandinn kom gjörsamlega óundirbúinn til vinnu sinnar og leyfði báðum viðmælendum sínum að fara sínar leiðir sem síst af öllu voru upplýsandi fyrir áhorfendur. Þeir fengu að blaðra sinn fyrirframsamda innihaldslausa áróður og stjórnandinn sat hljóður hjá. Niðurstaða þeirra var að ríkið léti ekki undan „sanngjörnum“ kröfum. Formenn hjúkrunarfræðinga og BHM voru ekki einu sinni spurðir að því hvað það kostaði ríkissjóð að fara að kröfum þessara félaga hvað þá að stjórnandinn reyndi að vera gagnrýninn, „the devils advocate“, eins og það nefnist á ensku.

Kjarabaráttan síðustu ára lýtur að því að launþegafélög gefa aldrei upp nokkurn skapaðan hlut um launakröfur sínar. Talsmenn þeirra kjafta sig einatt út úr spurningum fjölmiðlamanna um þessi efni og komast upp með það.

Þetta endurspeglast einna helst í því ógagnsæja slagorði „að meta menntun til launa“. Allt að 20% launahækkun virðis einfaldlega ekki vera nóg. Mér finnst þetta bara vera pólitík, laumuspil þar sem reynt er að fela launahækkanir svo aðrir komi ekki auga á þær og allra síst önnur félög launþega.

Svo segja formenn hjúkrunarfræðinga og BHM að búið sé að taka af þeim samningsréttinn og verkfallsréttinn, niðurlægja konur og margt, margt fleira. Við sem stöndum hjá og horfum á herlegheitin veltum því fyrir okkur hvað sé að gerast. Hvernig getur það endað þegar annar aðilinn vill sækja sér hnefa í ríkissjóð án þess að stjórnvöld megi nokkuð annað að segja en „gjörið svo vel“? Getur þannig lagað gengið? Er það skynsamlegt að gefa algjörlega eftir svona kröfum? Finnst fleirum en BHM og hjúkrunarfræðingum að samningar séu einhliða eftirgjöf ríkisvaldsins. Sem skattborgari er ég algjörlega ósammála þó ég skilji mæta vel kröfu um hærri laun en „skítalaun“.

Staðreyndin er einfaldlega sú að kjarabaráttan stendur á ótraustum grunni sem bæði er úreltur og gagnslaus. Útilokað er að reka þjóðfélag, ríki og fyrirtæki, undir ógnunum og þvingunum verkfalla. Slíkir mafíutilburðir ganga ekki í nútímalegu þjóðfélagi. Verkföll bitna á öllu samfélaginu, veikja það og oft skemma grunnstoðir þess. Ríkisvaldið á aldrei að láta undan hótunum um ofbeldi.

Ekki er hægt að ljúka þessum pistli án þess að gagnrýna stjórnvöld. Hvernig stendur á því að það er fyrsta verkefni ríkisstjórnar að lækka auðlindaskatta á sama tíma sem þjóðfélagið er að vinna sig út úr afleiðingum hrunsins? Fólk hefur ekki nokkurn skilning á þessu á meðan útgerðarfyrirtækin stórgræða. 

Hvers vegna krefjast fjölmiðar ekki upplýsinga af stjórnvöldum og launþegafélögum?

 


Aðalmálin í skugga aukaatriða

Held það sé þjóðráð hjá Páli Vali Björnssyni, þingmanni Bjartrar framtíðar, að þingmenn byrjuðu daginn á að því að syngja uppbyggilegt lag. Verra er ef sumir þingmenn eru falskir þá verður líklega frekar pínleg á að hlusta en þó varla verra en að hlusta á þá sem hafa engilfagra söngrödd en kunna engu að síður að vera falskir.

Svo mætti byrja daginn í íhugun. Byrja í þögn. Það gæti þó reynst ýmsum þingmönnum vandasamt ef þeir eru vanir því að hlusta á eigin rödd og jafnvel þeim sem tala áður en þeir hugsa. Nokkrir slíkir kunna að sitja á Alþingi.

Fleira mætti telja til sem uppbyggilegt upphaf þingfunda. Nefna má legó, púsl, liti og litabækur og margt fleira.

Eins og svo oft með góðar hugmyndir til að létta störfin verða þær svo umfangsmiklar að hin raunveruleg störf, aðalatriðin, falla í skuggann. Það er ekki gott. Þá væri ágætt ef á Alþingi væru til góðar konur og karlar sem leiðrétt geta stefnuna af og til, létt mönnum lund og hvatt til góðs árangurs. Tilvalið er að þetta fólk komi nú úr felum og taki stjórnina á löggjafarsamkundunni.


mbl.is Vill byrja þingfundi á söng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móður-harðindi

Móðurharðindi er ábyggilega gott orð og lýsandi fyrir þann sem þykir að móðir sín hafi verið heldur ströng við hann í æsku, jafnvel síðar.

Eiður Svanberg Guðnason nefnir orðið í bloggi sínu og hafði heyrt það í fréttum Ríkisútvarpsins þar sem rætt var um móðuharðindin. Flestir ættu nú að þekkja muninn jafnvel þó lítt sé rætt um móðurharðindi.

Líklega er orðið hart í ári þegar til Ríkisútvarpsins eru ráðnir fréttamenn sem hafa ekki tilfinningu fyrir tungumálinu. 

Þegar ráða fréttamann eða blaðamann væri tilvalið að spyrja þessara spurninga:

  • Hvenær last síðast bók á íslensku?
  • Hefurðu lesið fornsögurnar eftir að þú hættir í skóla?
  • Lestu Sturlungu reglulega?
  • Hvað lestu margar íslenskar bækur á ári?
  • Hvaða íslenska bók lastu síðast?

Staðreyndin er nefnilega sú að enginn fær tilfinningu fyrir tungumálinu nema lesa bækur, skiptir ekki nokkru máli hversu snoppufríður eða sjónvarpsvænn eða gagnfróður að öðru leyti  umsækjandinn kann að vera. Síðan er óhætt að spyrja annarra viðeigandi spurninga. Þetta er hins vegar ekki gert enda fer bóklestri hnignandi og þar með rýrnar orðaforði fólks og skilningur verður lakari. 


Gamli klaufi

Fall 2Nokkrar leiðir eru upp á toppinn á Vífilsfelli. Ein kallast í daglegu tali sprungan eða sprunguleiðin. Þar smokrar göngufók sér upp og niður þrönga sprungu sem er ævintýraleg skemmileg þó stutt sé.

Í vor höfum við nokkrir verið að stika gönguleiðina upp á Vífilsfell og miðað talsvert áleiðis þó enn sé mikið eftir. Í góða veðrinu í gær skrapp ég á fjallið, einn samall. Braut þar með  reglu sem maður hefur prédikað í langa tíma: Aldrei fara einn í fjallaferð. Ástæðan er einföld því fátt segir af einum. Ekki í fyrsta sinn sem ég fer ekki eftir reglum.

Nú, þarna stóð ég svo með þunga sleggju í báðum höndum og var að berja ofan á stiku við áðurnefnda sprungu. Þá gerðist það sem ekki átti að gerast. Mér skrikaði fótur. Rann einhvern veginn af steininum sem ég stóð á með syðri fótinn. Um leið brast jafnvægið og ég hrasaði, fyrst ósköp rólega, en þegar ég reyndi að stíga á annan stein þarna fyrir neðan brást hann algerlega vonum mínum, lét undan. Þá féll ég... Skall niður á hliðina og valt eins og tunna. Verra var að ég fann að seinni steinninn, hlunkur stór, fylgdi í kjölfarið á mér og stefndi að ég hugði í bak mér.

Þarna fannst mér ég eiga tveggja kosta völ. Annar var að taka höggið. Taldi frekar ólíklegt að hryggur minn væri svo vel hannaður og traustur að hann stöðvaði þungt grjótið án þess að gefa eftir. Valdi ég þá þann kostinn sem mér sýndist í flugsýn eitthvað skárri en það var að halda veltunni áfram og flýja grjótið á þennan óvirðulega hátt.

Fall 1Innifalið í kosti fólst að ég þurfti að hlunkast niður á stall fyrir neðan þann fyrsta. Á meðan hlustaði ég eftir grjótinu en skall þá svo niður á þar næsta stall. Taldi ég þá nóg komið af veltum og stöllum enda þær ekki alveg sársaukalausar. Náði ég nú að bremsa mig af og líta upp í brekkuna. Allt gerðist þetta auðvitað á örskotsstundu en í minningunni var þetta sem kvikmynd í hægagangi, ... „slow motion“ eins og það heitir á útlensku fagmáli.

Þegar þarna var komið sögu var kjölfarsgrjótið stoppað og því var ég hólpinn en fyrir neðan mig voru ekki fleiri stallar heldur nokkuð hrap niður í brekkuna fyrir neðan. Sá ég í hendi mér að vont hefði verið að velta þar fram af.

Þarna var þjóðráð að grípa andann á lofti enda var súrefnisskortur farinn að há mér eftir ævintýrið. Eftir margvísleg föll í gegnum ævina hef ég komist að því að maður heldur niður í sér andanum uns allt er yfirstaðið og þar af leiðir að maður verður frekar andstuttur á eftir, haldið maður á annað borð lífi.

Sat ég nú þarna lengi og horfði í gaupnir mér, mikill andans maður, er ég dró hann ótt og títt. Sá ég þá að úr löngutöng hægri handar blæddi. Hvernig mátti annað vera, holdið marið til ónýtis? Víðar á höndum voru skrámur þó ekki blæddi. Særindi og mar voru í syðri mjöðm og einnig á nyrðri fæti. Verra fannst mér að finna blóð leka úr enninu i hánorðri. Þar reyndist þó lítill skaði enda aðeins blóð úr löngutöng sem kom er ég strauk hendi um þær slóðir hvar fyrir mörgum árum liðuðust fagrir lokkar.

Særindi voru í norðaustanverðu enninu og kom í ljós eftir myndatöku, „selfie“, að horn nokkurt hafði vaxið út úr því. Líklegast hafði það kom eftir að ég skallaði fjallið í einhverri veltunni. 

Þegar ég hafði náð að róa anda minn og æðaslátt og drukkið fáein vötn leit ég upp eftir slysstaðnum. Þarna höfðu greinilega orðið mikil átök við fjallið sem leit þó mun verr út eftir þau viðskipti en ég. Með það sendi ég myndi úr síma mínum til eldri sonar míns, svokallaða „Snapchat“ mynd. Svarið sem ég fékk var stutt og laggott en svo ósköp satt: „Gamli klaufi ...“. 

Myndirnar skýra sig sjálfar. Af tillitssemi við börn og viðkvæma eru ekki birtar myndir af öðrum skaða en fjallið varð fyrir.

Sjá annars vefsíðu Vífilsfells.


Þulurinn sem fann sáttanefndinni allt til foráttu

Á leiðinni úr vinnu hlustaði ég óvart á Ríkisútvarpið. Þar var þáttur á dagskránni sem heitir „Spegillinn“. Fréttin um sáttanefndina var glæný en þulurinn fann henni samt sem áður allt til foráttu og dró ekki af sér. Svona nefnd hafði aldrei gefist vel ... Síðast hafði sáttanefnd sett á laggirnar fyrir 1980 ... og maður fékk það á tifinninguna að þetta væri vonlaust til árangurs.

Og þulurinn vissi miklu meira. Hann hafði fundið út eftir óútskýranlegum leiðum að lítil hrifning væri yfir nefndinni hjá verkfallsfólki ...

Enn vissi hann meira en allir aðrir. Hann fullyrti að nefndin hefði ekki umboð til að leggja til meiri launahækkun en þegar hefði verið boðin ..

Þetta þykja mér snöfurmannleg viðbrögð þular hjá Ríkisútvarpinu. Hann gerði engu að síður betur og fór út á meðal fólks sem mótmælti seinagangi í samningamálum og spurði hvers vegna það héldi að illa gengi að semja og hvað fólki fyndist um þetta allt saman. Líklega var það upptaka sem gerð hafði verið fyrr um daginn.

Svona gengur auðvitað ekki hjá Ríkisútvarpinu, þó er það iðkað. Framleiða orð af algjöru þekkingarleysi, segja staðlausa stafi, fullyrða eitthvað sem „virkur í athugasemdum“„ væri fullsæmdur af en ekki þulur Ríkisútvarps.

Enginn, hvorki fréttamaður, blaðamaður eða þulur getur leyft sér að prédika eigin skoðanir. Verkefni þessa fólks er að segja fréttir, upplýsa. Ekkert annað. Punktur.

 


mbl.is Ríkisstjórnin samþykkir sáttanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Pálsson

Í sundlaugunum í Laugardal í Reykjavík hittir maður jafnan mjög marga, sérstaklega í heitu pottunum og þá takast oft kynni. Einn af þeim minnisstæðustu sem ég hef þar hitt er Magnús Pálsson, rafiðnaðarmaður. Ég sá í Morgunblaði dagsins minningargreinar um hann og það kom mér mikið á óvart að þessi einstaklega skemmtilegi maður skuli vera dáinn. Skemmtilega fólkið deyr víst líka rétt eins og við hin.

Magnús var einn af þessu kátu mönnum sem blandaði geði við alla í heita pottinum. Spjallaði við samlanda sína og útlendinga. Oftar en ekki ávarpaði hann ungar og fallegar konur á þann hátt að innan skamms voru komnar skemmtilegar samræður um lífið og tilveruna. Jafnvel við, fýlupúkarnir, sem vildum helst ekki eiga orðastað við nokkurn mann, lifnuðum við.

Honum lá svo sem ekkert sérstaklega hátt rómur en honum var sama um eyru annarra. Í pottinum frétti maður af ferð hans til Spánar, af ástandi hússins hans, veitingastöðum, gestum og svo börnunum hans. Allt lífið var svo ánægjulegt og skemmtilegt í augum Magnúsar. Hann tókst jafnvel á við efnahagshrunið og náði að halda húsinu sínu á Spáni með útsjónarsemi og skynsemi.

Magnús sagði frá fólki og atburðum sem hann hafði upplifað á langri æfi, tjáði sig um dægurmálin og stjórnmálin, spurði oft en var frekar í hlutverki sögumannsins. Og hann kunni frásagnarlistina og það var alltaf gaman að hitta hann. Verst er þó að muna ekki hvenær fundum okkar bar síðast saman, líklega hefur það verið síðasta haust.

Svo les ég í minningargrein að dánarmeinið hafi verið krabbamein. Ég minnist þess ekki að hann hafi nokkurn tímann rætt um þann vágest. Það segir dálítið um þennan félagslynda mann að síst af öllu bar hann slíkt á torg. Hann sóttist ekki eftir samúð heldur gleði og ánægju.

Í huga mínum þakka ég fyrir að hafa hitt Magnús. Hann var góður maður. Í minningargreinunum má sjá að það mat er rétt. Hann átti góða fjölskyldu, mörg börn, barnabörn og barnabarnabarn. Það er mikill auður.


Fréttamiðlar klikka á grundvallaratriðum

Fjölmiðlar eiga að halda sig við þrennt:

  1. Sinna góðri frétta- og upplýsingaþjónustu
  2. Halda sig við staðreyndir
  3. Rita fréttir á góðri íslensku

Margir fréttamiðlar klikka á fyrsta grundvallaratriðinu, þeir eru hlutdrægir á ýmsan hátt. Síðasta dæmið er fjárkúgunin sem forsætisráðherra átti að sæta. Í nokkrum fréttamiðlum er þolandinn nú orðinn sá sem á undir högg að sækja og það án þess að efni máls bendi til þess. „Hann gæti haft óhreint mjöl í pokahorninu,“ segja þessir miðlar. Það virðist vera nóg til að framleiða alls kyns fréttir. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt.

Vandi margra er að halda sig við staðreyndir.Nefna má blaðamanni sem ritaði um göngukonuna sem hann sagði í fyrirsögn að hefði slasast við Skógafoss. Þegar fréttin var lesin kom í ljós að hún hafði fótbrotnað tveimur kílómetrum ofan við fossinn. Þar eru fjöldi örnefna. Þetta er svipað og að halda því fram að umferðaróhapp á við Kringluna hafi orðið við Klambratún en á milli þessara staða eru tveir kílómetrar. Svona lagað telst ekki ónákvæmni heldur beinlínis rangt.

Fjölmargir frétta- og blaðamenn rita gott mál, aðrir síður. Allt fær samt að vella fram eins og hraunið í Holuhrauni, enginn virðist standa vaktina í prófarkalestri en allt gengur út á framleiðslu á texta sem í allof oft stenst illa skoðun upplýstra lesenda.


Hrákasmíði Steingríms sem átti að bjarga fólki frá gjaldþroti

Steingrímur J. Sigfússon hættir aldrei að koma mér á óvart með einkennilegum málflutningi. Sjáum hvað mbl.is les út úr orðum hans á Alþingi í dag:

Benti Stein­grím­ur að 110% leiðin væri eigna- og tekju­tengd. „ Hún snér­ist um að færa niður kröf­ur á fólki sem var í bullandi yf­ir­veðsettu eign­um og átti ekki aðrar eign­ir á móti,“ sagði Stein­grím­ur.

Sagði hann að í 110% leiðinni hefðu menn ekki verið að gefa neitt eft­ir af inn­heimt­an­leg­um kröf­um, held­ur hafi fólk í raun verið gjaldþrota.

Ég hef aðeins kynnt mér þessi mál, eins og líklegast hefur komið fram áður. Mín niðurstaða er einföld:

110% leiðin var arfavitlaus vegna þess að hún gekk EKKI út á að meta greiðslugetu, heldur að fólk gæti nýtt sér dapra stöðu fasteignaverðs, sem síðan hefur hækkað mjög mikið.

110% leiðin var bara fyrir það fólk sem hafði góðar tekjur, vegna þess að eingöngu það gat staðið undir 110% af skuldum miðað við eignaverð.

Langflestir sem hefðu þurft á lækkun skulda, gátu ekki nýtt sér 110% leiðina vegna þess að þeir höfðu ekki heldur greiðslugetu fyrir 110%-unum.

110% leiðin var leið bankanna vegna þess, að þá gátu þeir fært út úr bókunum sínum upphæðir, sem þeir lögum samkvæmt áttu að færa á varúðarreikning.

Ég hef ítrekað sagt, að rangt hafi verið að nota eignaverð sem viðmið, því það breytist yfir lánstímann. Eina rétta hefði verið að taka fólk í nýtt greiðslumat og gera eins og lög 107/2009 sögðu til um, að laga skulda- og eignastöðu að greiðslugetu.

Sá er ekki gjaldþrota sem getur greitt af lánum sínum, þó svo að eiginfjárstaðan sé neikvæð. Þá væru allir námsmenn gjaldþrota, þegar þeir koma úr námi. Samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum er sá gjaldþrota sem ekki getur staðið undir skuldbindingum sínum, sama hver eiginfjárstaða viðkomandi er.

Mér finnst alveg með ólíkindum að Steingrímur J. sé enn að verja arfavitlausa löggjöf Árna Páls Árnasonar. Því miður héldu nær allir þingmenn að þetta væri sniðug löggjöf og veittu frumvarpinu brautargengi.

Fyrir þá sem ekki muna, þá voru lögin afgreidd úr nefnd með fundi sem haldinn var undir stiga í þinghúsinu. Enda þurfti að flýta sér svo hægt væri samþykkja lögin áður en kjördæmavika gengi í garð! Nákvæmlega engu hefði munað, að bíða með málið 3-4 vikur og vanda til verksins, en í staðinn fengum við hrákasmíðina sem Steingrímur segir að hafi bjargað hátekjufólki frá gjaldþroti.

Yfirleitt kann ég betur við að skrifa sjálfur pistla mína en stöku sinnum vitna ég í skrif annarra. Hér að ofan eru skrif Marinós G. Njálssonar, ráðgjafa, á Facebook. Hann met ég mikils þó ekki sé ég nú alltaf sammála.

Marinó man auðveldlega eftir misgjörðum síðustu ríkisstjórnar. Hann tók eflaust tekið eftir frásögn Ríkisútvarpsins af orðaskiptum Steingríms og nokkurra stjórnarsinna sem í þinginu í dag fullyrtu að 110% leið vinstri stjórnarinnar hafi verið afar slæm. Þá byrsti Steingrímur og hélt því fram á móti að svo væri ekki og hann gæti á stundinni tekið snerru um þessa leið. Þegar Steingrímur hefur hátt ætlast hann ábyggilega til þess að andstæðingar hans hafi sig hæga. Þannig er háttur manna sem kunna ekki rökræðu.

Ég skrifaði umræðuna hjá mér og ætlaði að rita pistil um norrænu velferðastjórnina sem var svo góð við almenning að hann hefur varla borið þess bætur síðan. Marinó tók hins vegar af mér ómakið og skrifaði ofangreint sem ég birti án leyfis, bætti við greinaskilum og feitletraði ýmislegt til að auðvelda lesturinn. Raunar hefði þurft að feitletra allan pistilinn, svo góður er hann og hnitmiðaður. Ég hef afar litlu við hann að bæta.

 


Gott fólk, vont fólk og sannleikskornið

Ég hef reynt að hafa þá nálgun í nokkurn tíma, þegar ég skoða málflutning fólks sem ég er kannski ósammála að:

    1. Ganga út frá því (þangað til annað kemur skýrlega í ljós) að fólk stjórnist af góðum hvötum.
    2. Reyna að finna sannleikskornin í málflutningi viðkomandi. Það er (eiginlega) alltaf sannleikskorn. Verstu ályktanir leiða gjarnan af einhverju sannleikskorni.

Ef manni tekst þetta, tekst maður á við málflutninginn eins og hann er og rótast ekki bara í eigin fordómum. Maður víkkar út eigin hugmyndaheim og skilur fólk betur.

Þannig skrifaði Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri, á Facebook um daginn. Ég þekki manninn ekki nema af skrifum hans. Hins vegar líkar mér vel við þessa nálgun. Hún er í ætt við það sem ég hef reynt að tileinka mér í skrifum og umræðu. Það er hins vegar afar erfitt.

Þeir sem rita undir fréttir í ýmsum fjölmiðlum fá heitið „virkir í athugasemdum“ vegna mikilla afkasta í athugasemdunum. Munum hins vegar að afköst eru ekki alltaf beintengd við gæði. Raunar er það sjaldnast svo. Sjaldnast eru athugasemdirnar málefnalegar. Lítt ígrundaðir dómar eru þar algengir, fólk veður fram með sleggjudóma og ekki síður persónulega óvild. Þannig er það líka hjá mörgum bloggurum.

Ofangreindur Gunnlaugur getur ekki um þetta fólk né þessi sóðaskrif, enda sjaldnast sannleikskorn að finna í þeim.

Á langri æfi hef ég komist að því að fólk skiptist í tvo hópa. Gott fólk og vont fólk. Langflestir eru tilheyri fyrrnefnda hópum. Almennilegt fólk sem kemur fram við aðra á sama hátt og það vill að aðrir komi fram við sig, án þess þó að það sé einhver krafa. Þetta er ábyggilega langstærsti hluti fólks, ábyggilega 90% mannkyns.

Svo eru það hinir. Fólkið sem lætur öðrum líða illa, annað hvort meðvitað eða ómeðvitað, gerir daginn slæman. Þannig fólk reynir aldrei að skilja aðra, fer til dæmis ekki að ráðum Gunnlaugs Jónssonar og reynir sjaldnast að finna sannleikskornið. Ef til vill vegna þess að stundum er sannleikurinn ekki alltaf auðsjáanlegur og afgerandi heldur falinn og þá krefst það vinnu að finna hann. Er þá ekki betra að vaða fram með reitt sverð og höggva á báðar hendur í þeirri „von“ að eitthvað láti undan? Stundum er þetta fólk nefnt „fyrirsagnahausar“ vegna þess að það leggur ekki á sig leitina að sannleikskorninu, heldur að fyrirsögnin segi allt.

Nú kann einhver sem les þennan pistil að tauta fyrir munni sér að ekki séu allir annað hvort vondir eða góðir. Einhverjir hljóta að hrökkva þarna á milli í skilgreiningunni. Jú, þetta hélt ég líka en ég hef misst trúna á þeim sem hafa ekki döngun til að skipa sér í hóp þeirra sem teljast góðir heldur asnast til að vera ýmist eða allt sitt líf. Það er einfaldlega heimskulegt.

Og hver þykist þú vera? Kann einhver lesandinn að spyrja. Því er til að svara að ég kann að hafa verið í vonda liðinu en það er dálítill tími síðan ég ákvað að gera meðvitaða tilraun til að skipa mér afgerandi í góða liðið. Láta ekki vonda fólkið stjórna lífi mínu eða gjörðum. Ég vona að mér hafi tekist það, en eigi einhver einhvera klögu á mig biðst ég afsökunar og reyni að gera betur næst.

Vonda fólkið má hins vegar æsa sig, rægja þá sem það vill, reyna allt hvað það getur til að eyðileggja fyrir þeim sem vilja vel, skemma góða fyrirætlan með neikvæðum umsögnum, kalla aðra ónefnum og svo framvegis.

Mér finnst það farsælla að reyna að sjá og skilja sannleikskornið frekar. Það er málefnalegra og svo þannig nýtur maður dagsins helmingi betur. Látum ekki vonda fólkið stjórna lífi okkar. Lokum á vonda fólkið, horfum í birtuna.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband