Sauðkræklingur, Sauðkrækingur eða Sauðárkrækingur

Á heitir Sauðá og rennur sína leið í Skagafirði vestanverðum. Við hana er kenndur bærinn Sauðárkrókur. Íbúar þar hafa lengi þurft að þola þá raun að bærinn væri nefndur Sauðar- og jafnvel Sauða-krókurog þeir Sauð-kræklingar. En þeir eru Sauð-krækingar.

Svo segir í Málinu í Morgunblaði dagsins og þeim sem annt er um málið lesa hann daglega enda dálkurinn örstuttur og alltaf skemmtilegur. 

Erfitt er að líta framhjá málvenju og lengi voru þeir sem innan við Sauðá bjuggu nefndir Sauðkræklingar. Svo breyttist það, eflaust vegna áhrifa frá heimamönnum sem síst af öllu vildu vera nefndir eftir skelinni. Þó kann hún að finnist í árósum Sauðár. Hún mætti því öllum að skaðlausu heita sauðárkræklingur eða jafnvel sauðkrælingur

Bærinn er bæði kenndur við ána og krókinn fyrir innan. Ekki veit ég hvort sá krókur sé örnefni, að minnsta kosti sé ég það ekki á landakorti. Sé litið á landakort eða staðið ofan við bæinn er krókurinn miklu frekar horn ...

Mér sýnist í fljótu bragði  að á landinu séu milli fimmtán og tuttugu ár sem nefnast Sauðár og enn fleiri Krókar. Þó eru aðeins þrír staðir sem nefnast Sauðárkrókur, tveir fyrir utan þann við Skagafjörð. Hinir eru báðir á Austurlandi, annar austan við Hálslón, skammt sunnan við Kárahnúka. Hinn á flatri Fljótsdalsheiði. Hvorugu hefur unnið sér viðlíka nafn og sá við Skagafjörð, hvorki í sögu né öðru.

Væri byggð við Sauðárkrók austan Hálslóns myndu þeir sem þar byggju ábyggilega vera kallaðir Sauðæringar til að aðskilja þá frá Sauðkrækingum. Við nánari íhugun getur þetta þó ekki staðist nema krókurinn væri nefndur eftir sauð og á (kind). Eða hvað?

Sem betur fer er ekki þannig farið með Sauðárkrók. Þeir kallast bara Sauðkrækingar og þá er árheitinu sleppt. Ætti auðvitað að vera Sauðárkrækingar. Má vera að þetta sé nú bara sauðslegur útúrsnúningur.


Hvaða þingmenn sóttu um leiðréttingu og hvað fengu þeir?

Gaman að vita hvenær vinstri sinnaðir fjölmiðlar landsins, Ríkisútvarpið, Fréttablaðið, Kjarninn og DV muni fara í rannsókarbrækurnar og kanni hvaða þingmenn á Alþingi Íslendinga sóttum um leiðréttinguna og hvað þeir fengu.

Ég held að fleirum en mér þætti sérstaklega forvitnilegt að sjá hvernig staðan er á þessu máli hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þeim sem hæst gala gegn leiðréttingu á því óréttlæti sem hrunið olli eigendum íbúðarhúsnæðis. Munum að vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms tók afstöðu með skuldareigendum og nokkrum hátekjuskuldurum en neituðu almenningi um aðstoð.

Staðreyndin er einfaldlega þessi. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gat aldrei tekið á skuldavanda heimilanna. Hún kunni það ekki og lét því auðnu ráða. Það var hæstiréttur landsins sem kom heimilunum til bjargar með því til dæmis að lýsa gengistryggingu lána ólöglega.

Þáttur Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar og þáverandi félagsmálaráðherra, var ekki geðfelldur. Hann lét setja lög réttu skertan hlut banka og fjármálafyrirtækja vegna dómsins og það gegn hagsmunum almennings. Hann og ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis tók afstöðu gegn þjóðinni.

Enn er Árni Páll og vinstra hyskið (svo gripið sé til orðfæris vinstra mannsins Einars Kárasonar, stjórnmálamanns) jafn ráðalaust og fyrr. Hin eina bót sem almenningi stendur til boða eftir eignabrunann í kjölfar hrunsins er að mati þessa liðs ótæk. Þetta segir aðeins eitt. Pólitík vinstri manna er skelfilega fjandsamleg almenningi í landinu. Hún er auðvitað tómt skrum ef efndir fylgja ekki fögrum loforðum.

Þingmenn sem lögðust gegn og gagnrýndu leiðréttinguna en sóttu engu að síður persónulega um hana eru að sjálfsögðu uppvísir að hræsni og skrumi. Trúir þeirri kröfu sem þeir gera til annarra þá eiga þeir auðvitað tvo kosti: Segja af sér eða biðjast afsökunar (væntanlega á tvöfeldni sinni eða jafnvel einhverju öðru sem þeim dettur í hug, af nógu er að taka).


Skattsvik er þjófnaður, segir hægri maðurinn

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heiminn að fyrirtæki borgi skatt þar sem gróði þeirra verður til. Það er þjófnaður þegar einhver borgar ekki skattinn sem þjóð á heimtingu á og það grefur undan getu þeirrar þjóðar til að veita þá þjónustu, sem er nauðsynleg til að draga úr fátækt og minnka ójafnrétti.

hver skyldu nú hafa sagt þetta? Ekki Steingrímur J. Sigfússon, Alister Darling eða Francoice Holland ... Nei, nei. Þetta var hægri maður, jafnvel frjálshyggjumaður, má vera nýfrjálshyggjumaður eða öfgahægrimaður. Hann heitir Joe Hockey og er fjármálaráðherra í ríkisstjórn Tony Abbott, forsætisráðherra Árstralíu, formanns Frjálslyndaflokksins, Liberal Party, þar í landi.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er að vinstri menn hér á landi hafa reynt að koma því inn hjá þjóðinni að hægri menn séu á móti skattlagningu og fylgjandi skattaskjólum. Þetta er auðvitað tóm vitleysa eins og margt annað sem vinstri menn halda fram. Hér á landi gengur þeim yfirleitt betur að rægja andstæðinginn heldur en að halda fram eigin málstað.

 


Leiðréttingin fari í heilbrigðismálin

Þessu til viðbótar viljum við hjónin skora á alla sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki þurfa á henni að halda, telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana, telja leiðréttinguna vera illa meðferð á almannafé eða hafa talað gegn leiðréttingunni af hvaða ástæðu sem er, að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að sú upphæð, sem þeim var úthlutað, fari í sjóð til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu og til málefna öryrkja og aldraðra.

Sérstaklega skorum við á formenn stjórnmálaflokka á þingi, sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu sinna lána, að gera slíkt hið sama.

Einnig viljum við skora á öll fyrirtæki í landinu að greiða litlar eða stórar fjárhæðir til slíks sjóðs.

12. nóvember, 2014 Harpa Karlsdóttir Marinó G. Njálsson

Ég held að þetta sé ein sú besta hugmynd um fjáröflun í heilbrigðismálum sem komið hefur fram í langan tíma. Tek undir með hjónunum Hörpu Karlsdóttur og Marinó G. Njálssyni. Bloggarinn Páll Vilhjálmsson, bloggari (sem ekki sótti um), tekur undir með þeim hjónum og hvetur jafnframt stjórnvöld til að búa svo um hnútanna að þetta verði mögulegt.

Mesta athygli vekur auðvitað skotið á formenn stjórnmálaflokkanna á þingi og hvað háværast hafa gagnrýnt leiðréttinguna. Afar fróðlegt verður að sjá hvort þeir verði við áskoruninni og ekki síður aðrir gagnrýnendur sem og þeir sem eru í sömu sporum og þau Harpa og Marinó sem þurfa ekki lengur á leiðréttingunni að halda.

Hér er komin ástæða til að halda fund á Austurvelli til stuðnings frábærri hugmyndi og hvetja fólk til að styðja við hana.


Pólitíkusinn Einar Kárason og rithöfundurinn

Merkilegast finnst mér þegar menn leyfa sér að gera þúsundum manna upp skoðanir. Eins og Einar Kárason hafi hugmynd um hvað öllum sem búa utan Reykjavíkur finnst um flugvallarmálið? Hvað þá að hann taki sér þann rétt að hæðast að og atyrða sama fólk, fyrir hans ímyndanir um álit þess.

Viðbrögð mín, og mögulega fleira fólks við skrifum Einars, hafa ekki neitt með flugvöllinn í Vatnsmýrinni að gera. Mér finnst leitt þegar hroki er talinn eðlilegur málflutningur, burtséð frá hvert umræðuefnið er. Jafnvel þótt menn telji sig vera stóra kalla.

Menn hafa leyft sér að hneykslast á ummælum Einars Kárasonar, rithöfundar, sem í umræðu um flugvöllinn í Reykjavík kallaði fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins landsbyggðarhyski. Þetta mun hann hafa gert vegna áhuga framsóknarmanna á Alþingi á að taka skipulagsvaldið yfir flugvellinum til ríkisins.

Einar talar eins og fjölmargir vinstri menn sem hafa öðlast frægð og frama svo ekki sé talað um svarið við lífsgátunni. Þetta eru „besservisserar“, „fúll á móti“ sem einn veit og kann. Ofangreind tilvitnun er úr ágætri grein í Morgunblaði dagsins eftir Kára Gunnarsson, kennara, og hann er einn fjölmargra sem leyfir sér að gagnrýna Einar og það með réttu.

Gleymum því ekki að Einar er pólitískur, hann er Samfylkingarmaður og stendur þétt með því liði sem vill flugvöllinn burtu frá Reykjavík. Hann kærir sig lítið um hagsmuni þeirra sem eru á öndverðri skoðun. Má vel vera að það sé rétt hjá Kára að Einar sé hrokafullur í málflutningi sínum.

Vinstra liðið, Samfylkingin og týndu samstarfsflokkarnir í borgarstjórn, talar um þéttingu byggðar í höfuðborginni rétt eins og skortur sé á landi og nauðsynlegt sé að hlaða fólki í blokkir á sama lúsarblettinn. Þétting byggðar er einfaldlega mýta sem á ekki við hér á landi og er hreinlega ekki eftirsóknarvert. Trúr þesssari mýtu ræðst pólitíkusinn Einar Kárason á hagsmuni fólks, ekki aðeins landsbyggðarinnar heldur líka Reykvíkinga en ætla má að stór hluti þeirra séu fylgjandi flugvellinum og þeirri atvinnustarfsemi sem honum fylgir.

Þó svo að Einar Kárason hafi öðlast frægð og frama og sé frábær rithöfundur þá er ekki þar með sagt að pólitískar skoðanir hans séu jafn burðugar. Greinum samt á milli rithöfundarins og pólitíkusarins. Kaupum og lesum bækur þess fyrrnefnda en ráðumst málefnalega á skoðanir þess síðarnefnda. Bókabrennur eiga hér ekki við.


Stykkishólmsbúar með lífræna lund

Það var í fréttum fyrir viku að Stykkishólmur væri nánast plast- pokalaus, enda eitt þeirra sveitar- félaga sem fyrir skömmu voru til- nefnd til náttúru- og umhverfis- verðlauna Norðurlandaráðs. Davíð Hjálmar orti:

Stykkishólmsbúar með lífræna lund
lifa á heilnæmum grösum.
Góðviðrisdaga þeir ganga um með hund
og glóðvolgan skítinn í vösum.

Þetta er úr Vísnahorni Morgunblaðs dagsins, umsjónarmaður þess er Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Til skýringar skal tekið fram að þeir sem ganga með hunda sína eða annarrra hafa yfirleitt meðferðis litla plastpoka. Þeir eru notaðir undir hundaskít og göngumaðurinn losar sig við þá í næstu ruslatunnu. Þeir sem ekki vissu þetta eru annað hvort hundlausir eða bölvaðir sóðar.


Sértæk skuldaaðlögunin nýttist best ríka fólkinu hans Árna Páls

En ekki var kynningarfundurinn fyrr búinn, en formenn VG og Samfylkingar komu fram og öskruðu "óréttlæti". Ég spyr þá, ef þetta er óréttlæti hvaða nafn gefa þau þá aðgerðunum sem þau stóðu fyrir. Katrín segir að margir hópar verði útundan, en var það þá ekki VG og Samfylking sem skyldi þá útundan? Árni Páll segir að þeir ríkustu fái mest og vísar svo í 300 ma.kr. sem hann ákvað að SDG hefði lofað að færi í málefnið. Um þetta er það að segja, að bæði 110% leiðin og sértæk skuldaaðlögun nýttust best ríka fólkinu hans Árna Páls. Litla fólkið fékk hugsanlega hundrað þúsund kalla, ef það fékk þá nokkuð. Ástæðan er einföld og ætti ekki að vefjast fyrir fyrrverandi efnahagsráðherra, að til að geta staðið undir 110% skuldsetningu húsnæðis, þá þarf fólk nokkuð góðar tekjur. Og hverjir hafa góðar tekjur á Íslandi? Jú, ríka fólkið.

Þetta segir Marinó G. Njálsson á Facebook í dag. Færslan hans er mun lengri og ítarlegri en afskaplega málefnaleg og góð eins og Marinó er von og vísa. Hann er ekki stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og í hvorugum flokknum bundinn, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Ég hef oft vitnað í Marinó enda er hann oftast afar málefnalegur og heiðarlegur í málflutningi sínum. Það er sjaldgæft í stjórnmálaumræðunni en til mikillar eftirbreytni. 

Svo virðist sem menn séu farnir að gleyma norrænu velferðarstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem og ráðherrunum sem lofuðu að gera allt fyrir lágtekjufólk. Jæja, en efndirnar urðu ekki merkilegar enda hentu kjósendur þessum tveimur flokkum til hliðar

Eitt alvarlegasta mál hrunsins var eignarýrnum almennings. Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms gerði fátt eitt til að lagfæra vandann og gerði eiginlega ekkert annað en að bæta tekju- og eignamiklu fólki skaðann en við hin sátum eftir.

Og nú rís Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, upp á afturfæturnar og skrökvar að alþjóð og sama gerir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Á meðan eldarnir loga í velferðarkerfinu leikur forsætisráðherra sér í Hörpu. Með skuldaleiðréttingunni gefur hann svo þeim tekjuhæstu í landinu heila Hörpu að gjöf.“

Þessir menn kunna ekki að skammast sín. Þeir hafa ekki fyrir því að kanna staðreyndir máls en mynda sér skoðun á forsendum sem þeir halda að séu réttar.

Marinó G. Njálsson rasskellir Árna Pál og raunar Helga Hjörvar líka. Hann segir eftirfarandi og ættu sem flestir að lesa þessa upprifjun (greinaskil eru mína):

Ástæðan fyrir því að ég fer í þessa langloku að hrekja orð Árna Páls er að hann er í besta falli að draga athyglina frá sínum loforðum sem hann gat ekki efnt sem félagsmálaráðherra og seinna efnahagsráðherra. Ég á til glósur frá fundi með honum, þar sem talað er um hærri upphæð en þessar 300 ma.kr. enda voru gengislán inni í þeirri lausn.

Mér finnst líka löngu tímabært að Árni Páll þurfi að svara fyrir hvernig sú ríkisstjórn sem hann sat í brást heimilunum og setti það í hendur fjármálafyrirtækja að ákveða hverjir héldu heimilum sínum og hverjir ekki. (Ákveðið í frumvörpum sem hann lagði fram.) Hvernig ríkisstjórnin sem hann sat í tók stöðu gegn heimilunum eftir að Hæstiréttur hafði fært þeim réttlæti. (Gylfi Magnússon sagði að ekki kæmi til greina að dómar Hæstaréttar fengju að standa.)

Hvernig hann persónulega bar ábyrgð á einhverju mesta lagaklúðri í seinni tíð og færði fjármálafyrirtækjum hundruð milljarða á silfurfati sem einstaklingar hafa þurft að sækja aftur fyrir dómstólum og enn eru dómsmál í gangi út af. (Árna Páls-lögin, nr. 151/2010.) Ef ég á bara að segja eins og er, þá ferst honum að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að gera ekki nóg eða mismuna fólki.

Ef Árni Páll hefði staðið fastur á hugmyndinni, sem hann kynnti stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og fleirum á fundi í félagsmálaráðuneytinu um miðjan september 2009, þá hefði skuldavandi heimilanna verið leystur þá um haustið en ekki væri enn verið að koma með hlutalausnir sem skilja hina ýmsu hópa eftir í óvissu og bæta ALDREI versta skaðann sem eru brotin heimili, húsnæðismissir, gjaldþrot og þaðan af verra.


mbl.is „Gefur tekjuhæstu heila Hörpu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á lífshlaupi sínu gera allir eitthvurt gagn, þiggja og veita á víxl ...

Við skulum vera hugdjörf og horfast í augu við þá nöturlegu staðreynd að flest gerum við ekkert sérstakt gagn í lífinu. Til mótvægis við þær slæmu fréttir skulum við hugga okkur við að við erum að öll- um líkindum ekki að gera heiminn verri með því að skaða fólk. Það eru aðrir sem sjá um það – og reyndar allt- of margir.

Svona skrifar hún Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður í Morgunblað dagsins. Hún nefnir í Ljósvaka Morgunblaðsins, Malala Yousafzai, nóbelsverðlaunahafann, sem óumdeilanlega reynir að gera heiminn betri. Við hin hömrum að vísu ekki endilega það sama járn en reynum samt.

Kolbrún Bergþórsdóttir á ekki að tala svona vegna þess að þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Það getur ekki verið að við „flest gerum ekkert sérstakt gagn í lífinu“. Þvert á móti. Lífsverk margra er mikið og gott og gagnast ábyggilega þeim sem næstir standa og jafnvel fleirum.

Við þurfum ekki annað en að grípa niður í minningargreinar dagblaða til að skilja hversu mikið hver og einn leggur til, til sinna og annarra. „Ekkert sérstakt ...“ er nöturlegur dómur um lífshlaup eintaklings, myrkur og leiður. Af því fólki sem ég hef kynnst í gegnum lífið þekki ég engan sem á svona ummæli skilin. 

Þannig er lífið. Hver og einn leggur það til sem hann kann og getur sem aðrir þiggja og leggja væntanlega út á besta veg. Við þiggjum og veitum á víxl, leggjum gott til þar sem það á við, lítum í augu barnanna og vitum að framtíðin er björt. Þetta er nú ástæðan fyrir því að tilveran er bara býsna góð. Annars væri ekkert gagn í þessari jarðviðst. Eða hvað?


Dagblöð eru skítleg ...

Mikið óskaplega eru dagblöð ógeðfelld. Til að fyrirbyggja misskilning á ég auðvitað við dagblöð sem prentuð eru á pappír.

Í morgun las ég Fréttablaðið. Á eftir þurfti ég að þvo mér um hendurnar, slík var prentsvertan sem berst á lesandann. Hvernig getur nokkur maður tekið lesið prentað dagblað? „Skítablað“, varð mér að orði og var alls ekki að hugsa um stórskrýtinn leiðara ritstjórans heldur „snertieintakið“.

Ég les Morgunblaðið daglega, er sem heitir netáskrifandi. Ég get lesið það í html formati eða pdf. Um daginn var prentað Morgunblað borið út í póstkassann minn, líklega í kynningarskyni Mér var starsýnt á eintakið enda ekki séð slíkt í marga mánuði. Gulleitur pappír og svarti liturinn gráleitur og myndirnar fjarri því að vera líkt þeim Mogga sem ég hafði lesið um morguninn í tölvunni minni. Sama á auðvitað við um Fréttablaðið og DV. Þetta eru skítleg blöð ...

Kostirnir við að lesa dagblöð og bækur í tölvu eru miklir. Leiðindi við prentaðan texta á pappír eru mikil.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband