Spámaðurinn Stormur úr Hafnarfirði mælir

Þvílíkt vit, þvílík andagift. Þetta datt mér í hug þegar ég las frétt í Mogganum mínum í morgun. Fyrirsögnin er:

Ekki öll von úti fyrir sumarið í ár.

Og ég hugsaði með sjálfum mér kvur árinn hefði nú komið fyrir blessað sumarið. Svo las ég fréttina og komst að því sem algjörlega hafði farið framhjá mér að veðrið í sumar hefði verið slæmt en líklega væri það skána.

Fréttin er viðtal við samfylkingarmann í Hafnarfirði sem hefur viðurnefnið Stormur og ku vera skyggn eða eitthvað svoleiðis. Hann mælir eins og einsetumaðurinn á fjallstoppi sem hefur öðlast skilning á lífsgátunni og allri tilverunni. Hann segir:

Hann bætir við að veðrið á landinu muni halda áfram að vera breytilegt eftir dögum, eins og það á til að vera á Íslandi.

Þetta er djúp speki og nú skil ég hvers vegna Mogginn tók viðtal við manninn. Í örstuttu máli lýsir hann veðurlagi á Íslandi sem enginn hefur áður áttað sig á.

Svo rýnir samfylkingarmaðurinn í kristalskúlu sína, spilin eða innyfli sláturdýra og rís upp og mælir að hætti þeirra sem vita meira en við, aum alþýða manna:

Það munu skiptast á skin og skúrir eins og það hefur alltaf verið frá upphafi landnáms og jafnvel fyrir það.

Í hljóðri bæn þakkar maður skaparanum og ritstjórn Moggans fyrir fréttina. Hvernig hefðum við dauðlegir menn getað lifað af sumarið án hennar.

Vitur maður sem ég þekki afar vel spáði því um síðustu áramót að fram til vors myndi verða kalt. Svo myndi hlýna og gróður dafna fram á haust er aftur tæki að kólna. Hann veit greinilega ekki neitt miðað við spámanninn Storm.

Annars er ég doldið hissa á því að samfylkingarmaðurinn skyldi ekki hafa verið spurður að um frelsarann, hvenær hans sé von frá himnum, þar sem allt veður verður til. Sko, mannkynið hefur beðið eftir honum í nærri tvö þúsund ár (það er frelsaranum ekki Stormi).

Svo er það allt annað mál að ég vissi ekki til þess að veðrið í sumar hefði verið slæmt.  Svona er maður nú vitlaus. Auðvitað hefði ég ekki átt á ganga á fjöll og ferðast um landið í júní og júlí. Ég vissi bara ekkert af þessum Stormi. Fór ekki einu sinni eftir veðurspá ríkisins. Og nú er ég efins um að hægt sé að halda áfram fjallaferðum.

 

 


Ásthildur Lóa þingmaður í klækjastjórnmálum

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr: Að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari!

Þetta segir þingmaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, í pistli á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 22.6.22. Líklega er allt rétt sem hún segir en enginn rökstuðningur fylgir, bara ómerkilegt mas.

Þannig er þetta oft með fjölmarga þingmenn þegar þeir segja frá í eigin orðum hvernig staðan er. Þá freistast þeir til að draga upp afar dökka mynd, fyrst og fremst til að upphefja sjálfa sig en auðvitað kann að vera að þeir vilji koma málum áleiðis.

Ásthildur þingmaður staðfestir í raun og veru ofangreind kænskubrögð með túlka orð fjármálaráðherra á þennan hátt:

Í stað þess að mæta þeim raunveruleika sem við blasir stráir fjármálaráðherra um sig úreltum tölum um að leiguverð hafi ekki hækkað meira en launavísitalan, en gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum eins og t.d. því að greiðslur almannatrygginga eru enn og aftur látnar dragast aftur úr. Hækka ekki í samræmi við gildandi lög. Kjaragliðnunin heldur áfram að aukast þrátt fyrir falsfréttir ríkisstjórnarinnar.

Ekki ætla ég að ræða þetta efnislega, fjármálaráðherra getur druslast til að gera það. Hins vegar er ástæða til að benda á hvernig þingmaðurinn skrifar greinina og hversu svona óbein túlkun getur verið skökk. Líklega er tilgangurinn að hafa áhrif á skoðanir lesenda, ekki upplýsa þá.

Takið eftir orðalaginu „úreltum tölum“. Enginn rökstuðningur fylgir, þetta á líklega að vera alkunn staðreynd sem ekki þarf að orða frekar. Sama er með fullyrðinguna í upphafi. Hvers konar hagfræði byggir á því að gera einhverja ríkari og aðra fátækari. Svona er bara bull sem gengur aldrei upp. Því fleiri sem eru bjargálna því fleiri koma undir sig fótunum og verða jafnvel ríkir, sé það markmið í sjálfu sér.

Þingmaðurinn fullyrðir fjármálaráðherra  gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum“ sem hafa áhrif á leiguverð. Með því að segja að ráðherrann „gleymi“ á Ásthildur Lóa, þingmaður, við að hann hafi viljandi farið með rangt mál. Mér finnst þetta nokkuð alvegarleg ásökun. Hins vegar má spyrja, hversu margir leigjendur eru með greiðslur frá almannatryggingum? Líklega er það ekki síður lykilatriði rétt eins og margt annað sem þingmaðurinn nefnir ekki.

Það er afar alvarleg ásökun að ríkisstjórn Íslands dreifi „falsfréttum“, fölskum upplýsingum.

Og hverjar eru þessar „falsfréttir“? Þingmaðurinn lætur ekkert uppskátt um þær. Hann slær fram alvarlegum ásökunum eins og ekkert sé. Þannig er eiginlega búið að gengisfella orðið sem skiptir svo óskaplega miklu máli í heiminum í dag.

Er ekki ástæða til að ræða „falsfréttirnar“ frekar? Kalla saman þing, stofna til þingnefndar sem rannsaki málið, ákæra ráðherra og stefna síðan landsdómi saman. Þetta allt hafa þingmenn gert áður en eingöngu í pólitískum tilgangi og til þess eins að kom náðarhöggi á andstæðinga.

Eins og svo margir aðrir nýir þingmenn hefur Ásthildur Lóa Þórsdóttir lært tungutak stjórnarandstöðunnar, klækjabrögð hennar og tæknina sem byggir á hálfsannleika. Mikilvægu og gildishlöðnu orðin hafa misst gildi sitt vegna ofnotkunar. Ekkert er lengur að marka þau enda bara nýtt til að afvegaleiða lesendur. Er þá ekki komin „falsfrétt“ um „falsfrétt“? Hvar endar svona vitleysa?

Það er svona sem svo margir þingmenn tala. Byggja mál sitt að nokkrum kunnuglegum atriðum og draga síðan rangar ályktanir út frá þeim í þeim eina tilgangi að sverta andstæðinga sína. Almenn rökræða er næstum horfin, málefnaleg umfjöllun tíðkast ekki.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir öðlaðist ekki alheimsvisku um leið og hún náði kjöri á Alþingi Íslendinga. Kjörbréfi hennar fylgir ekkert slíkt. Hún situr einfaldlega uppi með það sem henni var áskapað í erfðum og hún hefur síðan lært af umhverfinu. Þingmenn eru ekki alvitrir en þeir geta verið brögðóttir og beitt klækjum. Á þingi virðist sú regla mikið notuð að höggva þegar færi gefst, svona eins og gert er á fésbókinni.

Mikið óskaplega er fólkið í klækjastjórnmálunum hvimleitt, í raun óþarft. Það kemur engu áleiðis. Flokkur fólksins byggst á afar góðum stefnumálum en þingmenn eins og Ásthildur Lóa klúðra þeim með hálfsannleika.


Magnús Guðlaugsson

Við vinirnir stóðum á bílastæðinu fyrir utan hús í iðnaðarhverfinu í Árbæ þann 2. maí og spjölluðum saman eftir fund. Napur norðanvindur blés og við mjökuðum okkur í skjól við bílinn hans. Samt var kalt.

Hvað sagði Magnús í hinsta sinn er við sáumst? Um hvað töluðum við? Ég hef reynt að rifja þetta upp en minnið svíkur mig aftur og aftur. Ég minnist bara stóra sviphreina mannsins með góðlegu augun. 

Við töluðum dálítið um heilsuna. Hann kvartaði undan ökklanum, sagði hann ferlega slæman. Það er nú allt í lagi, sagði ég, og nefndi til huggunar að sennilegra væri skárra að hafa hausinn í lagi en ökklann, svona ef upp kæmi sú staða að velja þyrfti á milli. Magnús hló. Svo spjölluðum við eitthvað fleira sem líklega var svo algjörlega hversdagslegt að maður steingleymdi því. Við spauguðum. Slæmt að vera í frábæru líkamlegu formi og fá svo heilablóðfall eða verða fyrir bíl. Um það vorum við sammála.

Hvar kynntumst við? spurði Magnús, allt í einu. Hann mundi það ekki alveg. Ekki ég heldur. Heimdalli, Vöku í Háskólanum, MR? Það skipti engu máli. Leiðir okkar höfðu legið þarna saman og svo ótal oft síðar. Vináttan bast snemma. Alltaf var þótti mér gaman að Magnús. Hann var aldrei á hlaupum heldur gaf sér tíma. Var rólegur og yfirvegaður og veitti óspart góð ráð. Engu að síður hreinskilinn.

Af fésbókinni að dæma naut hann lífsins, unni mat og víni. Fór víða um lönd, snæddi á frægum veitingahúsum og sagði svo vel frá að maður dauðöfundaði hann. Engu að síður var hann hófsamur, gortaði aldrei.

Tveimur árum munaði á okkur. Hann var ungi maðurinn en hokinn af reynslu og þekkingu eins og sagt er. Gott var að leita til hans. Vinsamlegt bros lék jafnan um varir hans sem endurspeglaði innri mann, geðugan og greiðvikinn. Hann var drengur góður.

Vonlaust var að deila við Magnús. Ég reyndi það stundum. Hann hafði alltaf rétt fyrir sér og það vissi ég um síðir. Nei, sagði hann. Víst, sagði ég. Og svo hélt þetta áfram í nokkrar sekúndur þangað til við hlógum.

Við kvöddumst: Sjáumst aftur. Ég gekk niður fyrir húsið þar sem ég hafði lagt bílnum. Magnús ók niður götuna og framhjá mér. Hvarf mér út í eilífðina.

Magnús er einn af þeim lífsins samferðamönnum sem maður mun sakna. Ég sendi ástvinum hans samúðarkveðjur.

Jarðarförin var í dag, 24. maí 2022.


Sko, hinir flokkarnir féllu meira en meirihlutinn ...

Það er ekki verið að kjósa þá, þeir falla meira en meirihlutinn og þegar við tökum þetta inn þá hugsa ég; hvað er það sem að borgarbúar voru að kjósa? Þeir voru að kjósa nýtt afl sannarlega en þeir voru að kjósa eftir stórum línum. Og þótt að lítill leikur hér á RÚV hafi þótt glens og gaman þegar við fórum öll oddvitarnir í já og nei spurningarnar en það var samt mjög táknrænt, þar sást það og það flugu hér um screenshot af því hvernig við sögðum já við húsnæðismálunum og borgarlínunni og samgöngusáttmálanum og það verður ekkert skýrara en það, þegar þú þarft að svara já eða nei að þá sést það, og þá eru þessar línur ansi augljósar.

Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, á ruv.is. Líklega er þetta mjög skýr afstaða en við, óbreyttur almúginn, skiljum ekki talið. Það er sosum allt í lagi en samúð alþýðunnar fær aumingja blaðamaður Ríkisútvarpsins sem skikkaður var til að hlusta á borgarfulltrúann og hnoða þessu saman í „frétt“.

Góður maður sagði einhvern tímann að hann hafi verið hæstur af þeim sem féllu í prófi. Sama segir Þórdís Lóa viðreisnarmaður, hinir féllu meira en við. Gallinn er bara sá að það er ekki rétt.

Hún Þórdís Lóa hefur lært það í meirihlutanum í borgarstjórn að tala eins og borgarstjórinn. Fara í langan hring umhverfis kjarna málsins, tala og tala og tala. Þreyta áheyrendur.

Og svo er nú komið að þessi borgarafulltrúi Viðreisnar hefur málað sig út í horn með hinum vinstri flokkunum, Samfylkingunni og Pírötum, og telur sig ekki geta unnið með neinum öðrum. Klókur stjórnmálamaður hann Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að hafa platað Þórdísi Lóu.

Já, línurnar eru ansi augljósar þegar leitað er að hinum borgarfulltrúa Viðreisnar. Sko, hann féll, hann Pavel Bartoszek. Vera má að hann hafi ekki fallið langt en fallinn er hann engu að síður og á ekki lengur sæti í flokki vinstri manna í borginni.

Kjósendur kusu þar eftir „stórum línum“, sem er „mjög táknrænt“. Ekki aðeins Pavel féll, heldur líka meirihlutinn. Fátt er skýrara. Nema ef vera skyldi sú augljósa staðreynd að borgarfulltrúum Viðreisnar fækkaði um helming í kosningunum.

 

 


Breytti Fréttablaðið niðurstöðum skoðanakönnunarinnar?

Screenshot 2022-05-16 at 21.21.08Skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því 10. maí 2022 um fylgi flokka í Reykjavík stenst ekki. Annað hvort var hún ófaglega gerð eða spellvirki voru unnin á henni fyrir birtingu.

Breytingar á fylgi Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata eru of langt frá úrslitum kosninganna til að könnunin geti staðist.

Skoðanakönnun sýnir ekki úrslit kosninga en hún gefur engu að síður vísbendingar.

Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins eru svo furðulegar að almennir lesendur fyllast óhjákvæmilega grunsendum um að einhver maðkur sé í mysunni. Því er spurt:

A. Getur verið að Fréttablaðið hafi vanreiknað fylgi Sjálfstæðisflokksins svo munar 8,3% á skoðanakönnuninni og kosningunum?

B. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Samfylkingarinnar um 6,4%?

C. Vanreiknaði Fréttablaðið fylgi Framsóknarflokksins um 6,3%?

D. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Pírata um 6,3%?

Tilgangslaust er að bera því við, að frá því að skoðanakönnunin var gerð og þar til kosið var, hafi fylgi ofangreindra flokka kollvarpast, kjósendur hafi „bara“ breytt um skoðun. Ekkert gerðist í stjórnmálunum á þessum dögum sem styður þetta. 

Athygli vekur að fylgi annarra flokka í könnuninni er ekkert langt frá úrslitum kosninganna.

Daginn fyrir kosningar birti Gallup skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík. Hún hefur allt annað yfirbragð og er í þokkalegu samræmi við úrslit kosninganna.

Kolbrún Bergþórsdóttur, menningarritstjóri Fréttablaðsins og reyndur blaðamaður sagði í leiðara blaðsins um könnunina nokkrum dögum eftir birtinu bennar:

... könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.

  • Af hverju var könnunin lítið marktæk?
  • Var könnunin ekki marktæk af því að hún var svo fjarri öllu lagi fyrir kosningar?
  • Eða var könnunin svo illa gerð að allir á Fréttablaðinu vissu það?
  • Eða töldu innanbúðarmenn í Fréttablaðinu að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar?

Fólk með sérþekkingu á skoðanakönnunum og stærðfræði eru ekki sammála. Sumir telja að fiktað hafi verið í könnuninni aðrir segja að Fréttablaðið kunni hreinlega ekki til verka.

Svo eru þeir til sem tala um svindl. Sagt er að skoðanakannanir hafi mótandi áhrif á kjósendur en ekki eru allir á einu máli um það.

Furðuleg niðurstaða í skoðanakönnun sem á sér enga samsvörun við úrslit kosninga vekur eins og áður sagði upp grundsemdir. Ekki dvína grunsemdirnar sé rýnt í súluritið hér fyrir ofan. Þvert á móti. Sjö aðrir flokkar mælast með svipað fylgi og hjá Gallup og nokkuð nálægt úrslitum kosninganna. Fylgi fjögurra annarra er út í hött. Skrýtið. 

Þeir eru til sem halda því fram fullum fetum að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar. Annars vegar til að hygla Samfylkingunni og Pírötum og hins vegar gera lítið úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þeirri von að hægt sé að hafa áhrif á kjósendur.

Eftir kosningarnar eru hrópandi grunsemdir um skoðanakönnunina. Fréttablaðið verður að svara fyrir hana á sannfærandi hátt. Ella missi blaðið allan trúverðugleika.


Faglegur eða ófaglegur bæjarstjóri

Þá segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti OH, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni ...

Svo segir stjórnmálamaður í Hveragerði sem fagnar sigri í kosningunum í viðtali við Morgunblað dagsins á blaðsíðu tíu.

Hvað er eiginlega átt við með orðalaginu „faglegur“ bæjarstjóri. Má vera að með því sé átti við að bæjarstjórinn sé ekki stjórnmálamaður, kemur ekki af listum þeirra sem ætla að mynda meirihluta.

Ef til vill er þetta sé mælt af einlægni og sé stefnt gegn því að ráða pólitískan stjórnanda sem hljóti að vera voðalega slæmt. Svona tal gengur hins vegar ekki upp því stjórnmálamaður getur verið ágætur stjórnandi rétt eins og sá faglegi geti verið alveg ómögulegur - og öfugt. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 er ljóst að fult af „ófaglegum“ og „faglegum“ bæjar- og sveitastjórum verði ráðnir til starfa. Hér eru örfá dæmi:

Í Ísafjarðarbæ verður kona „ófaglegur“ bæjarstjóri, það er stjórnmálamaður sem var í framboði. 

Á Akranesi verður bæjarstjórinn „faglegur“, hann var ekki í framboði og hefur verið bæjarstjóri í rúmt eitt kjörtímabil.

Á Akureyri mun bæjarstjórinn líklega gegna embættinu áfram. Hann er „faglegur“ þó flokksbundinn sé, en hann var ekki í framboði.

Í Vestmannaeyjum verður líklega sami bæjarstjóri áfram. Hann er „ófaglegur“, var í framboði.

Endalaust má velta þessu fyrir sér en líklega komast margir í klípu vegna orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri af þeirri einföldu ástæðu að sami flokkur eða aðrir í stjórnmálum sjá ekkert athugavert við „ófaglegan“ bæjarstjóra. Varla er merking orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri valkvætt.

Jú, „faglegur“ er ábyggilega fínt orð þegar nýr meirihluti getur ekki komið sér saman hver í honum eigi að fá embættið.

 

 

 


Skálduð skoðanakönnun Fréttablaðsins

Þegar sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 eru gerðar upp vekur fernt mesta athygli:

  1. Styrkur Sjálfstæðisflokksins gegn gengdarlausum áróðri
  2. Öflugur sigur Framsóknarflokksins víða um land
  3. Tap smáflokka og örflokka
  4. Léleg kosningaþátttaka í Reykjavík, 61,1%

Á öllu landinu fékk Sjálfstæðisflokkurinn 110 fulltrúa í sveitarstjórnum. Framsóknarflokkurinn fékk 67 en aðrir flokka mun minna. Samfylkingin fékk aðeins 26 og Píratar fengu fjóra, sama og Miðflokkurinn.

FréttablaðiðAf þessu má draga þá ályktun að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið varnarsigur í baráttunni gegn áróðursvél Samfylkingarinnar og fjölmiðla sem drógu taum hennar, beint og óbeint

Margir ráku upp stór augu er þeir sáu skoðanakönnun á forsíðu Fréttablaðsins 10. maí 2022, fjórum dögum fyrir kosningar. Spáin var þessi í Reykjavík:

  1. Samfylkingin 26,7%, í kosningunum fékk hún 20,3%.
  2. Píratar, 17,9%, fengu 11,6%.
  3. Sjálfstæðisflokkurinn 16,2%, fékk 24,5%.
  4. Framsóknarflokkurinn 12,4%, fékk 18,7%.
  5. Sósíalistaflokkurinn 7,7%, fékk 7,7%
  6. Viðreisn 7%, fékk 5,2.
  7. Vinstri græn 5,4, fékk 4%.
  8. Flokkur fólksins 4,2%, fékk 4,5

Skoðanakönnunin er greinilega óralangt frá raunveruleikanum enda lítur út fyrir að hún hafi aldrei átt að endurspegla hann. Sú viðbára að könnunin lýsi pólitískri stöðu á þeim degi er hún var gerð stenst ekki. Könnunin var blákaldur áróður.

Fullyrða má að niðurstöðum könnunarinnar hafi verið breytt hvað varðar efstu fjóra flokkana. Í henni er Samfylkunni og Pírötum hampað á kostnað Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hægt er að bera hana saman við aðrar skoðanakannanir fyrir kosningarnar.

Fréttablaðið virðist beinlínis að hafa reynt að hafa áhrif á úrslit kosninganna með skoðanakönnun sem er í besta falli hroðvirknislega gerð og í versta falli fölsk, heimatilbúinn.

Menningarritstjóri Fréttablaðsins, Kolbrún Bergþórsdóttir, fullyrti í leiðara að skoðanakönnunin væri ekki marktæk. Hún sagði:

Það var því nokkuð skondið að sjá hvernig fjölmiðlar slengdu því fram sem stórfrétt og leituðu til álitsgjafa þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 prósent í einni könnun – könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.

Þetta þótti fín frétt í tíðindaleysi, en það var líka margt ofstækisfullt fólk sem sá þarna draum sinn um fall Sjálfstæðisflokksins rætast.

Ekkert heyrðist um skoðanakönnuna frá samfylkingarmanninum Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra blaðsins, nóg kemur frá honum um ómerkilegri mál. Það skyldi þó ekki vera að andinn hafi komið yfir skáldið og hann samið könnunina.

Ekki vantaði hamfararspána hjá Píratanum Aðalheiði Ámundadóttur, blaðamanni, í leiðara blaðsins. Hún sagði þann 11. maí:

Framsóknarflokkurinn þarf heldur engin málefni til að ná árangri að þessu sinni. Stefna Framsóknarflokksins í Reykjavík er Einar Þorsteinsson.

Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins nýtur hann jafnmikils stuðnings sem næsti borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Aðalheiður hafði hrikalega rangt fyrir sér í óskhyggju sinni sem hún þó flutti eins og blákaldar staðreyndir. Áróðurinn bar skynsemina ofurliði, Framsóknarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari í Reykjavík. Skelfingar ósköp klikkaði þessi kona í áróðrinum.

Píratar örflokkur á landinu, fengu fjóra fulltrúa í sveitarstjórnum. Snautlegur árangur það. Til samanburðar fékk Miðflokkurinn líka fimm fulltrúa en telur sig ekki sigurvegara eins og Píratar. Árangur Pírata á öllu landinu er þessi:

  1. Reykjavík, 3 fulltrúar
  2. Kópavogur, 1 fulltrúi
  3. Hafnarfjörður, 0
  4. Reykjanesbær, 0
  5. Akureyri, 0
  6. Ísfjörður. 0

Það má þó segja Pírötum til hróss að þeir höfðu vit á því að bjóða ekki fram annars staðar en á þessum sex stöðum.

Í leiðara Fréttablaðsins þann 11. maí segir Kolbrún Bergþórsdóttir um Sjálfstæðisflokkinn:

Hann er nauðsynlegt afl í íslenskri pólitík. Þar er staðið vörð um einstaklingsfrelsið og barist gegn hinum þrúgandi pólitíska rétttrúnaði sem sligar samfélagið. Þetta eiga menn að virða, hvort sem þeir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða ekki.

Þetta er skynsamlega mælt.

Á vef ríkisútvarpsins segir í fyrirsögn sunnudaginn 15. maí 2022, daginn eftir kosningarnar:

Stærsti sigur Framsóknar - versta tap Sjálfstæðismanna.

Og ég sem hélt að stærsta fréttin væri sú að meirihluti vinstri manna í Reykjavík hafi fallið. Sú staðreynd er falin langt inni í fréttinni.

Nei, nú skal halda áfram að pönkast á Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin og hjáleigur hennar eru stikkfrí.

 

 


Borgarstjórinn sem forðar sér út um bakdyrnar

Dagur, gleðimyndirÉg ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun. Annað kemur ekki til greina að mínu mati. Skora á alla að gera slíkt hið sama, hvar sem þeir búa.

Hafa kjósendur gleymt öllu ruglinu og bullinu í vinstri meirihlutanum í Reykjavíkurborg síðustu árin eða áratugina? Rifjum upp.

Hafa allir gleymt bragganum í Nauthólsvík sem Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og VG eyddu 425 milljónum króna í að gera upp sem veitingastað? Og hvað kostaði danska grasið sem sáð var fyrir utan braggann? Enginn man eftir því.

Bragginn var „endurnýjaður“ án þess að farið var eftir reglum borgarinnar. Ekki var farið í útboð. Þess í stað fengu vinir pólitíkusa á meirihlutanum vel launaða vinnu sem ráðgjafar Reikningar voru samþykktir af vini í borgarkerfinu. Farið var framhjá öllum reglum. Skjöl vegna verkefnisins voru annað hvort ekki gerð eða þeim stungið undan. 

Umferðastefna vinstri flokkanna byggist á því að takmarka ferðir fólks á einkabílum og knýja almenning í strætó. Það hefur ekki tekist hingað til. Strætó er á hausnum, sárafáir notfæra sé hann. Nú á að leggja í rúmlega eitt hundrað milljarða króna í svokallaða borgarlínu. Því fylgir að gera á sér akreinar fyrir örfáa strætisvagna en öðrum bílum er ýtt til hliðar.

Hverjir aka bílum? Jú, yfirleitt venjulegt fólk eins og þú og ég. Fólk sem kýs að ferðast á þann hátt sem því hentar. Nú á að hafa vit fyrir okkur. Forkólfur Viðreisnar Pavel Bartoszek segist vilja gera bílastæði að skemmtigörðum. Falleg hugmynd en það þýðir skort á bílastæðum. Vilja kjósendur það?

Meirihlutinn borgarbúa er hlynntur borgarlínu. Í skoðanakönnunum gleymdist hins vegar að spyrja hvort kjósendur séu hlynntir borgarlínu sem eyðileggur möguleika almennings að komast leiðar sinnar á bílum. Jú, sko, borgarlínan er fyrir hina, ekki mig, segir fólk.

Margir eru hlynnir „þéttingu byggðar“. Vita menn hvers vegna þétta á byggð? Jú, það er svo dýrt að gera land byggingarhæft. Þess í stað á að byggja á umferðareyjum og nýta það sem fyrir er. Búa til fuglabjörg fyrir fólk, blokkir með engu útsýni, engri sól. Íbúðir fyrir ofan umferðagötur. Að baki er engin hugsjón heldur viðbrögð borgarstjórnarmeirihluta sem hefur safnað skuldum. Á ekki fyrir rekstri.

Í sjónvarpsauglýsingum sést frambjóðandi Vinstri grænna á hraðferð í sólinni, brettir upp ermar og ætlar að gera svo ótalmargt. Hver er þessi Líf Magneudóttir? Jú, hún er víst borgarfulltrúinn sem hefur verið í felum í einhverjum kjallaranum heilt kjörtímabil eða lengur. Já, það er ekki seinna vænna að bretta upp ermar - og lofa öllu fögru.

Enn hlægja borgarbúar af borgarstjóranum sem er svo hégómlegur að hann leggur áherslu á að mynda sig í alls kyns skemmtilegum verkefnum, helst við að undirrita samninga og í hópi fræga fólksins. Þegar klóakið stíflast í Fossvogi sést Dagur B. Eggertsson hvergi né hinir í meirihlutanum. Allir eru týndir og þeir finnast ekki þrátt fyrir mikla leit. Embættismenn eru sendir til að svar spurningum fjölmiðla. Þeir þurfa að svara spurningunum um vond málin.

Mottó vinstri meirihlutans í borgarstjórn er þetta: Allt sem er gott er okkur að þakka, allt sem miður fer er Sjálfstæðiflokknum að kenna.

Vegna raðtilviljana ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast. Og hann brosir.

  • Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
  • Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
  • Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri og aðrir í meirihlutanum hvergi sjáanlegir. 
  • Þegar Seltirningar kvarta undan vegum út á nes er borgarstjórinn með ljósmyndurum fjölmiðla í sundi.
  • Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
  • Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
  • Þegar braggamálið þarfnast útskýringa er borgarstjóri í kynnisferð í Japan.

Og svo er það hitt. Á skrifstofu borgarstjóra starfa tólf manns við það eitt að láta Dag B. Eggertsson líta vel út í fjölmiðlum. Mata hann með upplýsingum og afvegaleiða fjölmiðla. Nei, nei, nei. Þetta er ekki nein spilling. Aðeins þjónusta við fjölmiðla.

 


Elías Snæland Jónsson

Hann er dáinn, fréttastjórinn sem stjórnaði á Vísi þann stutta tíma sem ég var þar í blaðamennsku. Þetta var bara eitt ár en Elías Snæland Jónsson hafði meiri áhrif á mig en margur annar. Hann var snjall blaðamaður, góður íslenskumaður og hafði skýra hugmynd um hvernig ætti að skrifa frétt.

Ég var ekki eftirlæti hans á Vísi. Ábyggilega hyskinn og illa skrifandi. Á fyrsta starfsdegi mínum var ég sendur niður í miðbæ til að taka viðtal. Ég fór út og tók auðvitað strætó fram og til baka. Elías hló að mér og næst fékk ég svokallaða „beiðni“, ávísun til að afhenda leigubílstjóra sem greiðslu fyrir ferðina. 

Þannig var háttað störfum á Vísi að blaðamenn skiluðu fréttum sínum inn til Elíasar. Veit ekki um aðra en í minningunni lét hann mig stundum setjast meðan hann las fréttina yfir og strikaði oftar en ekki í hana með rauðu penna. Þá þurfti ég að fara til baka inn á básinn minn, setja nýtt blað í snjáða ritvél og skrifa fréttina upp aftur, laga villurnar og umorða. Skelfing var þetta nú leiðinlegt. En ég lærði og hafði vit á að tileinka mér það sem mér var kennt. Smám saman fækkaði fundum okkar Elíasar, oftast nægði að ég setti fréttina í bakkann hjá honum. Hann leiðrétti örugglega einhver smáatriði en var frekar sáttur með strákbjánann.

Reglur Elíasar voru meðal annars þessar, minnir mig:

  1. Skrifa á góðu máli.
  2. Skipuleggja fréttina.
  3. Byrja fréttina á aðalatriðunum, koma síðar með smáatriðin.
  4. Nota millifyrirsagnir þegar fréttin er í lengra lagi
  5. Vanda aðalfyrirsögnina.

Uppeldið var gott en þegar ég fluttist yfir á annað útgáfufyrirtæki var enginn Elías þar. Því miður og útgáfan bar þess glögg merki.

Ekki eru margir blaðamenn góðir skrifarar. Svo ótalmargir byrja frétt á aukaatriðum og loks í lokin koma aðalatriðin. Enginn leiðbeinir þeim, enginn Elías krotar í próförkina og sendir hana til baka.

Í dag virðast íslenskir fjölmiðlar sárlega „elíasarlausir“. Svo virðist sem enginn gæti að málfari, enginn sem leiðbeinir nýliðum. Fjölmargir blaðamenn, fréttastjórar og jafnvel ritstjórar eru hörmulega lélegir sögumenn, bera ekkert skynbragð á eðli sögu, frásagnar, fréttar.

Óskaplega margar fréttir eru skrifaðar í belg og biðu. Verst er þó að oft er lesandinn engu nær um efni fréttarinnar, það týnist í blaðrinu. Mismæli, tafs og hikorð viðmælenda rata í fréttaskrifin. Engu líkar er en að margir blaðamenn vilji niðurlægja viðmælendur sína með því að skrifa orðrétt upp eftir þeim. Elías Snæland hefði ábyggilega tekið getað leiðbeint liðinu.

Eftir að ég hætti á Vísi hitti ég Elías afar sjaldan. Kom einu sinni til hans á Vísi þegar fyrsta tölublað tímaritsins Áfanga kom út og afhenti honum. Hann hrósaði mér hæfilega, brosti, og síðan hef ég ekki séð hann.

Ég hef notið þeirra gæfu að hafa haft nokkra eftirminnilega og góða kennara í skóla og eftir að honum lauk - og lært af þeim. Elías Snæland er einn þeirra.  Þekkti manninn sama og ekkert en minnist hans engu að síður með hlýju vegna þess sem honum tókst að kenna mér. Fyrir það ber mér að þakka þó of seint sé. 

Jarðarförin var 29. apríl 2022.

 


Björn Leví þingmaður pírata og hálfsannleikurinn

Þegar fjármálaráðherra seldi pabba sínum banka á afslætti á dögunum þá var það spilling - sama hvað fjármálaráðherra dettur í hug að segja til að afsaka þann gjörning. Þegar faðir fjármálaráðherra kaupir eitthvað í lokuðu útboði sem sonur hans ber ábyrgð á kallast það spilling.

Þetta segir þingmaður hálfsannleikans Björn Leví Gunnarsson í grein í Morgunblaðinu 9.2.22. Eins og alltaf endurspeglar hálfsannleikur aldrei staðreyndir.

Þegar Björn segir frá gerðum annarra tapast yfirleitt mikilvægar staðreyndir og lesandinn les aðeins lygi. Þingmaðurinn notar öll ráð til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Það er háttur pópúlista.

- Keypti faðir fjármálaráðherrans Íslandsbanka? 

Nei, hann keypti hlut í banka. Fyrirtækið hans, Hafsilfur ehf. keypti 0,1042% hlut í bankanum. Til þess að kaup bankann vantar hann til viðbótar 99,9% hlutabréfa.

- Af hverju segir þá Björn þingmaður pírata að pabbinn hafi keypt bankann?

Vegna þess að það hljómar betur. Birni er sama þótt hann ljúgi, lygin er sennilegri en raunveruleikinn.

- Er það spilling að faðir fjármálaráðherra keypti 0,1% hlut í bankanum?

Nei. Maðurinn er fjárfestir og hafði fullt leyfi til að kaupa hlutabréf Íslandsbanka.

- Á maður að gjalda þess að vera faðir sonar síns?

Já, auðvitað, sé sögumaðurinn pópúlisti og pólitískur andstæðingur. 

Fyrir nokkrum árum var mikið rætt um að Tryggingastofnun ríkisins hefði ekki leyfi til að skerða bótarétt þess sem átti maka er var með tekjur sem voru yfir viðmiðunarmörkum, væru tekjur beggja lagaðar saman. Rökstuðningurinn gegn þessu var einfaldur; hver maður er sjálfstæður og það er ósanngjarnt að ríkisstofnun spari á því að gera annan makann réttindalausan vegna tekna hins. Rökin eru bara ansi góð. 

Það hlýtur að vera frétt að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vilji gera föður fjármálaráðherra réttindalausan með lögum.

- Til hvers er Bankasýslan?

Hún fer með eignir ríkisins í fjármálafyrirtækjum ekki fjármálaráðherra. Honum er óleyfilegt samkvæmt lögum að skipta sér af störfum hennar. Til þess er leikurinn gerður.

- Björn segir í greininni að þegar tilboð í eignarhlutinn í Íslandsbanka liggi fyrir skuli Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ber fjármálaráðherra þá ekki ábyrgðina?

Hvað átti ráðherrann að gera? Hefði hann hafnað mati Bankasýslunnar hefði hann verið sakaður um spillingu. Þegar hann samþykkir álitið er hann sakaður um spillingu.

Hefði ráðherrann hafnað áliti Bankasýslunnar væri komið fordæmi. Næsti ráðherra gæti á grundvelli þess samþykkt eða hafnað mati Bankasýslunnar og þá væru hún búin að vera. Með synjun á mati Bankasýslunnar væri gengið gegn anda laganna sem segir að ráðuneytið skuli vera armslengd frá stofnuninni og sama staða væri komin upp og fyrir hrun. Vill fólk slíka afturför?

- Ber ráðherra ábyrgð á mistökum undirstofnunar?

Faglega séð, ekki pólitískt. Enginn gerir til dæmis kröfu til að samgönguráðherra segi af sér vegna mistaka Vegagerðarinnar í lagningu malbiks.

Ekki er hægt að kenna borgarstjóranum í Reykjavík um að hafa ekki fyllt upp í holur í götum borgarinnar. Jú, annars það er líklega hægt.

Eða að píratar í borgarstjórn beri ábyrgð að óhóflegri skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Úbbbs. Þarna var ég aftur óheppinn með dæmi. Auðvitað bera þeir ábyrgð á henni rétt eins og braggamálinu í Nauthólsvík.

- Er braggamálið spilling?

Nei, nei, bara heiðarleg tilraun til að gera eitthvað fallegt fyrir borgina. Komst kaldhæðnin til skila?

Björn þingmaður pírata hefur aldrei nefnt braggamálið. Hvers vegna? Jú, píratar í borginni bera ábyrgð á því og það þjónar ekki pólitískum hagsmunum þingmannsins að berjast gegn annarri en þeirri sem hann ímyndar sér að finna megi hjá pólitískum andstæðingum.

- Niðurstaðan er þessi.

Spilling er vissulega slæm en falsfréttir og lygi eru jafnvel enn verri. Þó kann að vera að upphaf falsfrétta sé ásetningum um að ljúga. Afleiðing lyga er oftast spilling.

Óheiðarlegur stjórnmálamaður er yfirleitt sá sem níðir andstæðinga sína, sleppir rökum og grípur til hálfsannleika, lyga.

Pópúlisminn grasserar á Alþingi ekki síst hjá góða fólkinu, þeim háheilögu sem hafa jafnan hæst. Rök skipta engu máli.

Sagt er að raunveruleikinn sé oft æði ósennilegur, góð saga þarf aðeins að vera sennileg. Sama er með hálfsannleikann.

Ef við leyfum Birni Leví Gunnarssyni að slá ryki í augu þjóðar og komast upp með enn ein ósannindin sem þingmaður á Alþingi Íslands er ég ansi hræddur um að hvorki Geir né guð dugi til að blessa Ísland.


Þingmaður Samfylkingarinnar ásakar aðra en er sjálfur engu skárri

Við hér inni hljótum að gera skýlausa kröfu um að hann svari fyrir framgöngu sína en sýni ekki fjölmiðlum bara afturendann á sér.

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum á Alþingi samkvæmt frétt í Stundinni. Hann æsti sig heil ósköp vegna ummæla formanns Framsóknarflokksins um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Formaðurinn baðst afsökunar enda hafði honum orðið mikið á.

Nokkrum dögum síðar treður Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar í ræðustól Alþingis og segir samkvæmt mbl.is:

En hingað kem­ur hæst­virt­ur fjár­málaráðherra, ný­bú­inn að selja pabba sín­um rík­is­eign, ný­bú­inn að selja viðskipta­fé­lög­um sín­um frá út­rás­ar­ár­un­um eign­ir al­menn­ings, ný­bú­inn að selja fólki með dóma fyr­ir efna­hags­brot á bak­inu, ný­bú­inn að selja sak­born­ingi í um­fangs­mikl­um mútu­brota­máli eign­ir al­menn­ings, og seg­ir okk­ur að svart sé hvítt og hvítt sé svart og þess­um þvætt­ingi eig­um við bara að sitja und­ir.

Hvað kallast svona tvítal? Þingmaðurinn þykist gegnheilagur þegar hann talar um formann Framsóknarflokksins en leyfir sér síðar að snúa við blaðinu og tala til annarra eins og sá sem hann gagnrýndi. Hann beinlínis lýgur eins og hann er langur til. 

Ljóst er að þingmaðurinn er engu skárri en formaður Framsóknarflokksins og jafnvel verri. Úthúðar framsóknarmanninum fyrir orð hans en hrakyrðir formann Sjálfstæðisflokksins.

Gættu orða þinna maður svo þú verðir ekki dæmdur fyrir sömu sakir og þú ásakar aðra um.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar á greinilega afar örðugt með að rökræða. Honum lætur betur að hrópa og æpa svívirðingar. Jóhann Páll kann ekki að skammast sín og svona götustráka þarf Samfylkingin til að komast í fréttirnar, vekja athygli á ömurlegum málstað sínum.

Og undir svona bulli Samfylkingarinnar eigum við almenningur bara að sitja undir.

 

 

 


Þykistuleikurinn gegn Rússum

Þjóðverjar eru búnir að reikna út að verði lokað fyrir orkuna frá Rússlandi myndi skella á efnahagskreppa. Kórónuveiran hefði lokað þjónustugeiranum, en þessi kreppa myndi bitna á hjarta þýsks iðnaðar og leiða til þess að landsframleiðsla myndi dragast saman um allt að þrjá af hundraði [3%]. Þá yrði dýrara að útvega orkuna. Það myndi hafa áhrif á verðlag og jafnvel draga úr samkeppnishæfni þýskrar framleiðslu.

Þessi athyglisverðu orð eru í leiðara Morgunblaðsins 26. mars 2022. Þýsk stjórnvöld gráta af því að það er of dýrt að refsa Rússum fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu. Úr þessu má lesa að efnahagslegar refsiaðgerðir mega ekki vera of dýrar fyrir þá sem beita þeim og þetta virðist vera útbreitt skoðun í Evrópu. Friðelskandi fólk vill auðvitað ekki borga of mikið fyrir friðinn en krefjast hans engu að síður.

Þvílík della. Það verður dýrt að stöðva Rússa, fylgi hugur máli, sem vissulega má draga í efa. Svona er allt sýndarmennska, innihaldslaust mal og tal sem engu skiptir.

Og þú, lesandi góður. Ertu með í baráttunni fyrir friði ef efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum muni kosta þig sem nemur 20% af tekjum þínum eða kaupmætti?

Nei, auðvitað ekki. Þú ert engu skárri en aðrir í Evrópu í þykistuleiknum gegn Rússum. 

Hingað til hafa Rússar aðeins hrist sig vegna refsiaðgerðanna en halda svo áfram að drepa fólk í Úkraínu og sprengja borgir og bæi í tætlur. Á meðan berast óstaðfestar fréttir sem eiga að gera okkur, almenning, ánægða með refsiaðgerðirnar. Her Rússa er í vandræðum, Pútín er veikur og rússnesku almenningur muni bylta stjórninni í Kreml. Svona sögur bera öll einkenni falsfrétta.

En, en, en ... það er búið að taka flugvélar, hús og snekkjur af rússnesku auðmönnunum, ólígörkunum, kannt þú að segja. Þetta skiptir engu máli. 

Rússar hafa ekki lent í miklu vanda vegna refsiaðgerðanna. Kínverjar hjálpa þeim. Jafnvel íslensk fyrirtæki sem seldu til Rússlands senda nú vörur þangað í gegnum Kína. Allt lekur í gegn rétt eins og gasið og olían til Þýskalands, hveitið og byggið til Frakklands, og SWIFT er bara orðin tóm því auðvitað þarf að borga fyrir lekann frá Rússlandi.

Dettur einhverjum í hug að baráttan gegn stríðsrekstri Rússa muni ekki verða Evrópu dýr sé tilgangurinn raunverulega sá að stöðva stríðsvél innrásarliðsins.

Efnahagslega refsiaðgerðir eiga að vera þannig að almenningur í Rússlandi þjáist og helst rísi upp gegn stjórnvöldum. Til þess er leikurinn gerður.

Aldrei hafa efnahagslegar refsiaðgerðir verið nógu harðar og verða það ekki nema því aðeins að almenningur hérna megin finni fyrir þeim. Öllum samskiptum við Rússa þarf að hætta og það mun óhjákvæmilega leiða til tímabundinna óþæginda hérna megin járntjaldsins nýja.

Þjóðverjar eru eins og allar aðrar þjóðir. Gráta tapað fé. Evrópuþjóðunum finnst betra að láta Úkraínumenn þjást en verðbólgan vaxi, vextir hækki, samkeppnishæfnin minnki, ferðaþjónustan staðni, atvinnuleysi aukist, hagvöxtur hrynji, með öðrum orðum; að allt stefni í kalda kol.

Ágæti lesandi. Þú ert eflaust á móti stríði, manndrápum og eyðingu borga og bæja svo framarlega sem baráttan kosti þig ekki nema örfáar krónur sem þú veiðir sjálfur upp úr buddunni. 

Við fordæmum Pútín og rússnesk stjórnvöld og teljum okkur til góða fólksins en erum ekki tilbúin til að borga fyrir friðinn. Hann er síst af öllu ókeypis.


Mæli með þessum í prófkjörinu í Reykjavík

Hverja á að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosningunum?

Margir velta þessu fyrir sér og sumir hafa spurt mig ráða. Ég fæ ekki að kjósa lengur í Reykjavík, flúði þaðan og í Kópavogi og þar hef ég lagt mitt lóð á vogarskálarnar í prófkjörinu sem var um síðustu helgi.

Væri ég búsettur í Reykjavík fengju þessi mitt atkvæði:

  1. Hildur Björnsdóttir
  2. Marta Guðjónsdóttir
  3. Kjartan Magnússon
  4. Örn Þórðarson
  5. Ólafur Guðmundsson
  6. Birna Hafstein
  7. Valgerður Sigurðardóttir
  8. Helgi Áss Grétarsson
  9. Ragnheiður J. Sverrisdóttir

Fyrstu fimm frambjóðendurna þekki ég persónulega. Hildur Björnsdóttir eru tvímælalaust efni í traustan leiðtoga og mun án efa draga fjölda atkvæða að, hörkudugleg og vel máli farin.

Marta, Kjartan, Örn og Ólafur búa yfir gríðarlegri þekkingu í borgarmálum og hafa aldrei látið meirihlutann í borgarstjórn eiga neitt inni hjá sér. Þetta fólk verður bakbeinið í borgarstjórnarlista flokksins.

Þekking Ólafs Guðmundssonar í samgöngumálum er mikil og hefur hann gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir bullið með borgarlínuna og öryggismál í umferðinni.

Aðrir koma nýir inn í borgarmálin. Birna Hafstein hefur getið sér góðs orðs í menningarmálum og er þekkt fyrir fagmennsku og lipurð. 

Valgerður Sigurðardóttir er borgarfulltrúi og leggur meðal annars áherslu á húsnæðismál sem meirihlutinn í borginni hefur klúðrað eftirminnilega.

Helgi Áss Grétarsson er harður gagnrýnandi borgarlínunnar og telur að hún sé alltof dýrt mannvirki.

Ragnheiður J. Sverrisdóttir hefur unnið að velferðarmálum og með heimilislausum með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Í prófkjörinu tekur núna þátt einvalalið traustra Sjálfstæðismanna. Því miður má aðeins kjósa níu frambjóðendur, ekki fleiri og ekki færri og ekki skrifa neitt annað en númer við nöfnin, annars er atkvæðið ógilt.

Kosið er á föstudaginn frá 11 til 18 og á laugardaginn frá 9 til 18. Kjörstaðir eru þessir:

  • Valhöll, Háaleitisbraut 1
  • Árbær, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hraunbæ 102
  • Grafarvogur, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hverafold 1-3
  • Breiðholt, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Álfabakka 14a (Mjódd)
  • Vesturbær, Fiskislóð 10

Ég hvet fólk til að kjósa. Nú er tími til að búa til öflugan lista Sjálfstæðisflokksins og losna við vinstri meirihlutann. 


Veðurspár og -fréttir voru einfaldari í gamla daga

HvarfMjög djúp lægð er væntanleg að Hvarfi í fyrramálið. Sendir hún skil yfir landið með stormi eða roki, talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.

Svo segir í fréttum Veðurstofu Íslands á Fésbókinni. Ekki veit ég hvar á landinu Hvarf er og af því er mikið mein. Stofnunin er stundum dálítið dul með landafræðina sína, gefur takamarkaðar upplýsingar. 

Til dæmis rignir aldrei í Grennd (Grend) en alltaf einhver staðar í sama hreppi, til dæmis á Stökustað sem er alræmt rigningarbæli.

Svo er að eðlisfræðin. Ekki veit ég hvað kallast kaldur loftmassi og ekki heldur heitur loftmassi. Og hvað gerist hittist svona massar tveir af ólíkum uppruna? Er það eins og þegar heitt vatn og kalt vatn blandast saman og úr verður volgt vatn? Nei, ábyggilega ekki. Miklu frekar að þá verði dómsdagsfárviðri nema auðvitað í Grennd.

Svo er það hjalið um vindinn. Aldrei hvessir á Íslandi, aldrei lægir. Vindur er ýmist mikill eða lítill, hann minnkar eða stækkar (eykst). Öll börn vissu í gamla daga hvað kul þýddi, gola, gjóla, rok, hvassviðri, stormur og fárviðri. Foreldra sóttu ekki börnin í skólann á þessum dögum, þau komu sér sjálf heim, börðust móti slagveðri, stormi  og skafrenningi sem Vegagerðin kallar í dag „snjórenning“.

Í gamla daga hlustuðu afi og amma og pabbi og mamma og börnin á veðurspána í útvarpinu. Þá var þulan þessi (halda skal fyrir nefið meðan lesið er upphátt og draga seiminn):

Reykjavííík, rigniiing, suðaustaaaan átta vindstiiig, skyggniii fjórtán kílómetraaar, hiti fégur stiiig, loftþrýstingur hækkandiii.

Þá var talað um rigningu, afar sjaldan úrkomu, aldrei vind, enga metra á sekúndu. Loftmassar voru ekki til né heldur þrýstilínur. Engum hefði dottið í hug að tala um „austurströndina“, „norðurströndina“ eða „vesturströndina“. Jú, suðurströndin hefur verið til frá því nokkru fyrir landnám enda ein og samfelld frá Þorlákshöfn og austur fyrir Hornafjörð.

Og aldrei sendu lægði eitt eða neitt. Þær komu bara og fóru með öllum sínum ósköpum rétt eins og farþegi úr strætó eða flugvél.

Enginn sagði suðurSTRÖNDINA, það er með áherslu á seinni helming orðsins; NorðaustanLANDS, FaxaFLÓA, VestFIRÐI og svo framvegis.

Nú er sjaldnast tala um snjó á jörðu. Vegagerðin fann upp orðið „snjóþekja“ sem þykir víst afar gáfulegt. Þó snjór sé á Stökustað segir Vegagerðin að þar sé „snjóþekja“, jafnvel þó landið sé flekkótt, engin þekja allt að Grennd. Þar snjóar aldrei.

Á myndinni sjást þeir staðir á landinu sem bera örnefnið Hvarf samkvæmt upplýsingum Landmælinga. Og nú rennur loks upp fyrir mér að syðst á Grænlandi er Hvarf. Má vera að öllum hafi verið það ljóst. Ég þurfti samt að skrifa þennan pistil áður en það kviknaði á perunni hjá mér. Nenni ekki að henda honum.

En hvað varð eiginlega um veðurskipið Bravó?


Þessa kýs ég í prófkjörinu í Kópavogi.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi verður haldið laugardaginn 12. mars 2022. Að sjálfsögðu mun ég kjósa.

Sjálfstæðismaðurinn Ármann Kr. Ólafsson hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 1999 og bæjarstjóri frá því 2012 og hættir nú. Munu margir sjá eftir honum. Hann hann hefur verið maður sátta og samvinnu enda virðist bæjarstjórnin í Kópavogi vera sem ein heild ólíkt því sem er í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem meirihlutinn hlustar ekki, virðist haldinn ofnæmi fyrir íbúunum.

Ég hef búið í Kópavogi frá árinu 2018 og líkað ansi vel. Hins vegar hef ég lengst af búið í Reykjavík og mun áreiðanlega snúa þangað aftur þegar ég verð orðinn stór.

Nú hef ég gert upp hug minn og ætla að kjósa eftirtalda frambjóðendur í prófkjörinu:

  1. Karen Elísabet Halldórsdóttir
  2. Ásdís Kristjánsdóttir
  3. Hjördís Ýr Johnson
  4. Andri Steinn Hilmarsson
  5. Hannes Steindórsson
  6. Sigvaldi Egill Lárusson

Ekkert af þessu fólki þekki ég persónulega en fjölmargir hafa mælt með þeim sem og öðrum frambjóðendum. Mér líst vel á þetta fólk og veit að það mun taka starf sitt sem bæjarfulltrúi mjög alvarlega og þar af leiðandi verður þetta sigurstranglegur list.

Ég hvet alla til að kjósa. Kjörstaður er í Lindaskóla í Núpalind 7 og er opið frá 10 til 18.


Fyndin tillaga og bráðnauðsynleg

Hann seg­ir að til­lög­unni hafi verið frestað, eins og oft sé gert þegar til­lög­ur koma beint inn, en að hún verði tek­in fyr­ir á næsta fundi. Pawel vildi ekki lýsa end­an­legri af­stöðu sinni til máls­ins fyrr en það hef­ur verið tekið fyr­ir.

BresnevSvo segir í frétt á mbl.is. Í gamla daga var í fjölmiðlum á Vesturlöndum oft vitnað í sovéska blaðið Pravda en nafnið þýðir sannleikur en var þó ekki réttnefni. Oft þurftu sérfræðingar í vestri að rýna í efni blaðsins til að átta sig á hver stefna Sovétríkjanna væri í einstökum málum.

Víkur nú sögunni til nútímans að Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur að heiti Garðastrætis verði breytt í Kænugarðsstræti. Við götuna var sendiráð Sovétríkjanna í áratugi. Svo var breytt um nafn á hinu illa heimsveldi og nú heitir það Rússland eins og landsvæðið hét um aldir.

Tillaga Eyþórs fékk ekki glæsilegar undirtektir hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Því til sanninda eru ofangreind orð Pavels Bartoszeks sem er formaður nefndarinnar og borgarfulltrúi Viðreisnar og situr í Vinstrimeirihlutanum í borgarstjórn.

PavelPavel getur ekki, frekar en þeir sem skrifuðu í Pravda forðum daga, tekið opinbera afstöðu til nafnbreytingarinnar. Fyrst þarf vinstri meirihlutinn að koma saman og finna út hvernig hægt sé að fella tillöguna, vísa henni frá eða fresta um ókomin ár. Raunar er það þannig að Pavel þarf að fara heim og spyrja Dag Eggertsson borgarstjóra hvernig hann eigi að snúa sér í málinu.

Rykfallnir Kremlarfræðingar hafa nú fengið það verðuga verkefni að kanna hver sé skoðun Pavels Bartoszeks á nafnbreytingunni. Hann gefur líklega ekkert uppi nema í dulmáli rétt eins og kommarnir sem skrifuðu í Pravda.

Við þurfum þó enga Kremlarfræðinga. Dettur einhverjum í hug að það þurfi að grandskoða nafnbreytinguna? Öllum Reykvíkingum þykir hún smellin, bráðfyndin og afar brýn. Öllum nema vinstrinu sem stekkur ekki bros á vör.

„Tillöguna þarf að taka fyrir“ áður en Pavel getur leyft sér að brosa eða hlægja. Líklega mun borgarstjóri hringræða þetta eins og jafnan er sagt er um þá sem tala mikið og lengi án þess að komast nokkru sinni að kjarna málsins.

Ágæti lesandi, ekki halda niðri í þér andanum. Borgarstjóri mun pottþétt ekki sjá neina skoplega hlið á málinu. Hann er einfaldlega á móti öllu því sem Sjálfstæðismenn leggja til. Tillögunni verður vísað frá. Punktur.

Efri myndin er að Leóníd Brésnefi, aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins. Hann brosti aldrei nema þegar einhver .
Neðri myndin er af Pavel Bartoszek borgarfulltrúa Viðreisnar í vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Hann brosir ekki nema með leyfi borgarstjóra.

 


Úkraína á ekki möguleika gegn Rússum

Svisslendingar bættust í gær í hóp þeirra ríkja sem bönnuðu allar flugvélar frá Rússlandi í lofthelgi sinni ...

Las þetta í Mogganum mínum í morgun. Finnst þetta stórmerkileg útspil Svisslendinga en frekar útlátalaust fyrir þá. Sviss er sem eyja, umkringd ESB ríkjum sem þegar hafa bannað flug Rússa í Evrópu og því er ansi erfitt fyrir þá að komast til Sviss, jafnvel þó þeim væri leyfilegt að fljúga þar. Þó ber þess að geta að í Sviss eru áreiðanlega margir Rússar og vissara að banna þeim að fara í útsýnisflug.

Ísland hefur bannað Rússum að fljúga í lofthelgi sinni. Ég legg til að borgarstjórinn í Reykjavík, sem er kunnur mannvinur, gangi enn lengra og banni Rússum að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Blönduósingar, gætu gert hið sama. Einnig Hornfirðingar, Ísfirðingar og Hólmarar svo ekki sé nú talað um Akureyringa. Rússar munu þá ábyggilega sjá sig um hönd og hrökklast frá Úkraínu.

Góða fólkið er svo gott og það lætur ekkert tækifæri ónotað til að auglýsa sig. Afar sterkt er að formæla Pútín, kalla hann heimskan, vitfirrtan, geðveikan og svo framvegis.

Raunveruleikinn er hins vegar ekkert grín og stríð er enginn leikur. Jafnvel þó allur heimurinn sé á móti Rússum og allir fjölmiðlar tíundi stríðsreksturinn og greini frá hetjulegri vörn Úkraínumanna er ljóst að þeir eiga ekki nokkurn möguleika gegn árásarhernum. Ekkert getur orðið þeim til bjargar nema önnur ríki komið þeim til aðstoðar á vígvellinum eða bylting verði heima við. Hvorugt mun gerast.

Því miður er staðan þessi. Pútín og samstarfsmenn hans eru ekki heimskir. Þegar hér er komið sögu geta Rússar ekki snúið til baka, það væri ósigur. Það er því rétt sem segir í forystugrein Morgunblaðsins í dag:

Stríðsvélin er komin of langt. Hún er nú á sjálfstýringu og óstöðvandi. Pútín er nú næstur að völdum í Rússlandi á eftir sjálfstýringunni, sem sest er við enda langa borðsins sem sífellt lengist.

Eina von Úkraínumanna og raunar eina von Evrópu er að Rússar taki í taumanna og bylti Pútín og stjórn hans. Líklega gerist ekki fyrr en líkistur hermanna úr Úkraínu verði sendar til Rússlands. Þá verður það alltof seint fyrir Úkraínu.


Vanmáttur feitu og lötu Vesturlanda gegn Rússum

Hvernig eiga Vesturlönd að bregðast við innrás Rússa í Úkraínu? Þetta er stóra spurning dagsins og alla daga meðan Rússar eru þar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur á kjarna málsins eins og svo oft áður. Hann segir í blaði dagsins:

Margir hafa spurt sig hversu haldgóð tæki efnahagslegar refsiaðgerðir hafi reynst í gegnum tíðina. Margfalt þungbærari refsiaðgerðir, eins og í dæmum Norður-Kóreu og Íran, hafa reynst hægfara aðgerðir, svo ekki sé meira sagt.

Átta ára refsiaðgerðir gagnvart Rússum vegna gripdeildar í Úkraínu hafa engu skilað og virðast aðeins í gildi fyrir „sum“ ríki eftir hentugleikum þeirra og Rússa, og það ríkir löngum mikil samstaða um túlkun þeirra hentugleika.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Nató virðist ekkert geta gert eða vilja gera. Leiðtogar þess standa hjá eftir að hafa gengið bónleið til búðar Kremlarbóndans. Þetta eru slíkar gufur að aldrei hafa slíkar sést.

Margt bendir til að leyniþjónustur í Evrópu og Norður-Ameríku hafi vitað um fyrirætlanir Rússa með margra mánaða fyrirvara ef ekki ára. Þeir vissu líka að ekkert fengi stöðvað þá, ætlunin var að ráðast inn í Úkraínu. Þegar við, almenningur, lítum til baka, sjáum að Rússar hafa leynt og ljós búið sig undir þessa atburði og „refsiaðgerðir“ Vesturlanda. Þeir eru fáum háðir og sambandið við Kínverja er svo gott að við þá er mun betra að eiga viðskipti.

Ríki Vesturlanda bjuggu sig ekki undir stríðið. Heimavinnan var vanrækt, ekki var unnið að undirbúningi efnahagslegra refsiaðgerða fyrr en allra síðustu daga.

Nató setur Rússum engin skilyrði. Svo virðist sem hersveitir þeirra megi taka sér stöðu við landamæri Póllands, ekki er gerð krafa um að þeir haldi sig í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Nató lyppast niður vegna þess að bandalagið er svo hrætt um stigmögnun átakanna.

Næst taka Rússar ábyggilega Eistland og halda þaðan út á Eystrasalt og hernema Gotland með öllum sömu rökunum og þeir notuðu fyrir hernaði gegn Úkraínu.

Vesturlönd kjósa að sitja hjá. Ekki má loka fyrir alþjóðlega Swift kerfið sem myndi lama utanríkisviðskipti Rússa. Ástæðan er sú að Þjóðverjar hafa svo mikla hagsmuni af viðskiptum við þá.

Þannig standa nú málin. Ekkert má gera gegn útþenslu Rússa því hagsmunir Vesturlandabúa byggjast á viðskiptum við þá. Skítt með Úkraínu. Líklega eru Vesturlandabúar of feitir og latir til að taka á málum.

Jú, við ætlum að láta þá aldeilis finna fyrir krafti Vesturlanda ... En leiðtogarnir tala og tala og tala. Minna fer fyrir verkunum.

Þetta minnir á manninn sem sagði við elskuna sína: Ég mun vaða eld og brennistein fyrir þig, ástin mín. Og ég kem í kvöld ef ekki rignir.

Meðfylgjandi mynd eru úr Fréttablaðinu í dag og sýnir tímalínu frá því í nóvember á síðasta ár, langur aðdragandi að innrásinni og raunar er hann enn lengri en þarna kemur fram.

Fréttabl 220225


Einfaldur og aðlaðandi ritstíll Jóns Steinars

Ég dáist að ritfærum og málsnjöllum mönnum, ekki endilega vegna málstaðarins heldur hvernig þeir segja frá og beita rökum sínum. Einn þeirra er Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, og fyrrum dómari við Hæstarétt. Hann ritar grein í Morgunblað dagsins og svarar þar Jónasi Haraldssyni, lögmanni sem ritað hafði grein í sama blað um Jón Steinar.

Jón Steinar á auðvelt með skrif. Stíllinn er yfirleitt léttur og auðlesin, málsgreinar hóflega langar, röksemdafærslan einföld og aðlaðandi. Jafnvel svo að lesandinn hallast yfirleitt að málstað höfundarins sé hann á annað borð opin fyrir rökum annarra en ekki samansúrraður „beturvitrungur“ eða með fyrirframgefnar skoðanir sem ekkert bítur á. Erindi Jóns Steinars er oft að kynna önnur sjónarmið sem eru ekki síður mikilvæg en þau sem meirihlutinn virðist aðhyllast. Lífið er ekki einföld stærðfræði með óumbreytanlegum gildum né er allt annað hvort svart eða hvítt. Því er ágæt regla að hlusta á fleiri en þá háværu því þeir eru sjaldnast handhafar sannleikans.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Jón Steinar:

Ég virði það alveg við Jónas Haraldsson að hafa ama af mér. Það hafa margir aðrir menn haft á undan honum. Sjálfum finnst mér það vera vegna þess að ég hef talað um hluti sem aðrir þegja um. Ef Jónas legði á sig að kynna sér efni gagnrýni minnar, held ég að hann myndi taka undir hana, þó að slíkt væri ekki til vinsælda fallið hjá aðlinum í dómskerfinu. Ég tel Jónas nefnilega heiðarlegan mann, þó að ég telji að hann mætti kannski leggja meira á sig í þágu sjálfs sín.

Svona skrif eru snjöll og mættu aðrir taka sér þau sér til fyrirmyndar. Jón Steinar lemur ekki á gagnrýnanda sínum með fruntaskap eða persónulegum ávirðingum. Enginn „fésbókarstíll“ er á svarinu. Hann ber virðingu fyrir gagnrýni Jónasar þó svo að hún sé frekar meiðandi.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ákaflega léttvægt líki einhverjum ekki við annan mann. Þýðir það að allt sem hinn leiðinlegi eða vondi hefur til málanna að leggja sé algjör óhæfa eða bull? Auðvitað ekki. Rök má ekki að skoða sem framhald af persónu þess sem þau leggur fram. Á þau ber að líta algjörlega sjálfstætt og samþykkja og hafna eftir atvikum.

Afar fróðlegt er að lesa grein Jóns Steinars og læra af henni hvernig best er að rökræða. Það ætti aldrei að gerast með skítkasti eins og svo algengt er í ritdeilum hér á landi, því miður. Ein mesta forarvilpan er á „fésbókinni“ og sulla þar margir án annarra sýnilegra erinda en að niðurlægja aðra. Vera má að mannlegt eðli sé einfaldlega þannig.  


Nú á að fjarlægja Litla-Sandfell og á eftir raka yfir með hrífu

Við efnistökuna mun ásýnd fellsins óhjákvæmilega breytast og að lokum mun fjallið hverfa.

Fjallið er ekkert sérstaklega fallegt. Mörgum finnst það ljótt. Flatmagar á hraunsléttu rétt eins og kúadella, aðeins um eitt hundrað metra hátt yfir umhverfinu. Hverjum er ekki sama?

Okkur berIMGL0077 Aur skylda til lagfæra landslag. Bæta sköpunarverkið sem drottni allsherjar mistókst. Fjarlægja ljót og ónýt fjöll, drekkja óþarfa landi, og leggja víra sem víðast svo fólk komist nú leiðar sinnar og geti hlaðið bíla sína.

Gaman er að aka Þrengslin og enn meira fjör er að ganga úr þeim á almennileg fjöll eins og Meitlana, Stóra og Litla. Skoðum Lambafell sem áður var ansi gallað og lítil fyrir augað. Nú eru fjallasnyrtifyrirtæki í óða önn að laga það og gengur bara vel. Ljótu agnúarnir á fellinu eru horfnir og aðeins er eftir að fjarlægja Lambafellshnúk.

Nei, nei, það er rangt sem þessi umhverfisnáttúruverndarvitleysingar segja. Enginn er að eyðileggja fjöllin, bara snyrta þau, líkt og rakarar snyrta hár. Samt dálítið fyndið að líkja fjallasnyrtifyrirtækjum við rakara sem snyrta hár fólks en eiga það jafnvel til að taka af annað eða bæði eyrun í fegurðarskyni. 

0J2B8688 1Einu sinni var reynt að lagfæra lítinn og ljótan gíg vestan við Þrengsli. Hann hefur ekkert almennilegt nafn kallast bara Nyrðri-Eldborg. Gígurinn gaus árið 1000 en frá gosinu segir í Kristnisögu. Skafið var utan af honum en hætt í miðjum klíðum og nú er þar bara ljótt sár. Enginn sæi neitt ef fjallasnyrtifyrirækið hefði fengið að halda áfram.

Tvö fjöll eru í hrauninu sunnan Þrengsla, Geitafell og Litla-Sandfell. Bæði forljót og er brýn nauðsyn á að þau verði fjarlægð. Fyrirtækið með útlenska nafninu „Eden Mining ehf“ er öflugt fjallasnyrtifyrirtæki og hefur lengi snyrt Lambafell í Þrengslum. Það ætlar nú taka að sér það þjóðþrifaverk að fjarlægja fjallið með íslenska nafninu, Litla-Sandfell. Geitafell bíður betri tíma enda stærra.

Ásýnd Litla-Sandfells mun breytast, rétt eins og segir í upphafi og er fengið úr skýrslu Eflu. Sko, já, eiginlega mun það mun hverfa. Þetta er svona svipað eins og rakarinn sem ætlar að snyrta hár en verður það á, viljandi eða óviljandi, að fjarlægja höfuðið. Slíkt er nú ekkert stórmál því margir munu fríkka til muna væru þeir höfuðlausir.

Svo segir í skýrslu Eflu að framkvæmdin verið afar umhverfisvæn því úr Litla-Sandfelli verður unnin svokölluð flugaska sem notuð er í sementframleiðslu. Sem sagt jákvæð hnattræn áhrif. Húrra. Unnið er þó í fellinu með dísilvélum og dísilrafmótorum. Kosturinn er þó sá að þegar Litla-Sandfell er horfið verður strax slökkt á díselvélunum. Húrra.

Þegar fjarlægðir hafa verið 15.000 rúmmetra úr Sandfelli, það er fellið allt, verður rakað yfir með hrífu og sáð grasi, melgresi, lúpínu eða birki, jafnvel öllu þessu. Og allir sáttir. Er þaki?

Næst fjarlægjum við Helgafell í Mosfellsbæ. Það er líka ljótt og gagnslaust. Miklu betra að moka því í landfyllingar í Kollafirði. Svo fjarlægjum við Þorbjörn við Grindavík því alltaf eru jarðskjálftar í kringum hann og sláum þá tvær flugur í einu höggi. Losum okkur við ljótt fjall og alla þessa jarðskjálfta. Seljum síðan Kirkjufell í Grundarfirði fyrir offjár til útlanda. Útlendingar vilja ólmir kaupa myndir af fjallinu en rosalega myndu þeir gleðjast ef þeir fengju nú að kaupa það allt.

Sko, við getum allt. Tæknin er orðin svo fullkomin að hægt er að fegra landið með minniháttar snyrtingum. Og allir saman nú: Ekki láta staðar numið með Litla-Sandfell. Fleiri hrúgur bíða.

Myndirnar af Litla-Sandfelli skýra sig sjálfar.

Hér er linkur á skýrslu Eflu á vef Skipulagsstofnunar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband